Eðlilegt fólk með eðlilegar tilfinningar

Í gærkvöldi horfði ég á tvo nýjustu kastljósþættina sem fjölluðu um Breiðavík. Ég er gríðarlega ánægð með þessa þætti og finnst þeir mjög fagmannlega unnir. Það er svo svakalega auðvelt að fara yfir línuna í svona málum. Það fannst mér til dæmis Kompás gera í Byrgismálinu vegna þess hvað þeir lögðu mikla áherslu á BDSM hlutann. Þar fannst mér aukaatriði vera gert að aðalatriði til þess að gera málið safaríkara.

Þetta finnst mér alls ekki vera málið hjá Kastljósinu. Sumir gagnrýna umfjöllunina fyrir að vera of stór skammtur af grátandi fullorðnum karlmönnum. Því er ég algjörlega ósammála. Ég hef þá skoðun að hver einasti af þessum mönnum hafi gefið umfjölluninni eitthvað nýtt, og það að nánast enginn hafi getað talað um þessa reynslu ógrátandi skiptir engu máli varðandi efnislegu umfjöllunina en segir hinsvegar mjög mikið annað.

Mér fannst áhugavert að sjá á hversu mismunandi hátt mennirnir hafa náð að vinna úr þessari reynslu sinni. Það hvernig sumir hafa náð að skapa sér nokkurnveginn eðlilegt líf en aðrir hafa lifað lífi sínu á gríðarlega erfiðan hátt og enn aðrir ekki treyst sér til að lifa lífinu minnir okkur á það að undir yfirborði hverrar manneskju eru allir þeir hlutir sem viðkomandi hefur gengið í gegnum fram að núverandi andartaki. Þetta minnir okkur á það að við eigum ekki að dæma fólk af gjörðum þess einum eða útliti heldur verðum við að hinkra og sýna umburðarlyndi gagnvart þeim sem hegða sér ekki eins og okkur finnst þau eigi að hegða sér. 

Merkilegt fannst mér að sjá Lalla Johns tjá sig um upplifun sína af dvölinni í Breiðavík. Hann virtist á engan hátt geta tjáð sig um hana í orðum heldur bara í hljóðum og hreyfingum. Hann er líka einn af þeim einstaklingum sem líklega hafa farið hvað verst út úr barnæsku sinni, þá er ég ekki að tala endilega bara um Breiðavíkurdvölina, en gaman væri að vita hvar hann væri staddur í dag ef hann hefði fengið sálfræðilegan stuðning.

 Að mínu mati snýst þessi umfjöllun Kastljóssins ekki eingöngu um það sem átti sér stað í Breiðavík á árunum 1960-70 heldur líka, og ekki síður, um afleiðingar þess á þá sem þar voru. Þetta sýnir okkur svart á hvítu hver útkoman verður þegar ekki er hugsað um betrun heldur refsingu og það er vægast sagt góð áminning akkúrat hér og nú þegar við sem samfélag veltum okkur mikið upp úr glæpum og refsingu, flestir hafa skoðanir á því en ein skoðun er lang mest áberandi í fjölmiðlum sem og annarsstaðar og það er sú skoðun að refsingar eigi að verða þyngri og þyngri og þyngri. 

Það er alltaf gott þegar sjónvarpið sýnir okkur eðlilegt fólk og eðlilegar tilfinningar. Grátandi karlmenn eru einmitt eðlilegt fólk að sýna eðlilegar tilfinningar og ég fagna því í hvert skipti sem ég sé svona sjónvarpsefni sbr. hvað ég gladdist þegar Arnþór Helgason, þá fráfarandi formaður öryrkjabandalagsins, sýndi sínar tilfinningar og sinn styrk í Kastljósinu hérna fyrir rétt rúmlega ári síðan og lesa má um á þessari færslu 


Frítt á tónleikana

Ég var að fá þær upplýsingar frá Reykjavíkurborg að það verður frítt inn á tónleikana með Dionysos. Þetta er almennilegt!!

Bíó og tónlist

Já, það er tveggja atriða færsla í dag ;)

Ég fór í bíó í gær á myndina Little children og eins og allir aðrir sem ég veit um að hafa séð þessa mynd verð ég að mæla sterklega með því að allir fari á hana. Það sem er frábærast við þessa mynd er að það er eins og hún sé með klisjuradar, eins og félagi minn orðaði það. Sögurnar í myndinni hafa oft verið sagðar áður í bíómyndum en langoftast frá öðru sjónarhorni og það er alveg hreint ótrúlegt hvað tekst að sveigja framhjá klisjunum sem getur einmitt örugglega verið ansi erfitt þegar sögurnar eru jafn venjulegar og þessar. Ég ætla ekki að segja meira, þessa mynd verður bara að upplifa. Ég hef litlar efasemdir um að hún verið á topp 10 listanum mínum á þessu ári -jah annars má þetta verða ansi magnað kvikmyndaár :)


Hitt atriðið er síðan hljómsveitin Dionysos sem er að koma og spila hérna á Vetrarhátíð laugardagskvöldið 24. febrúar. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast einn disk með þeim og ég er bara alveg að missa mig af spenningi yfir tónleikunum. Ég hef óáreiðanlegar heimildir fyrir því að miðaverði verði stillt í hóf en það hlýtur að koma í ljós á næstu dögum, ég skal amk láta vita þegar ég verð komin með einhverjar upplýsingar um málið :)

Hljómsveitin er frönsk og textarnir eru ýmist á frönsku eða ensku og lögin eru mjög fjölbreytt, allt frá því að vera eins og sænskt plebbapopp til að vera þungarokksskotin og til að vera þunglyndislegt hægagangsrokk og bara allt þar á milli - eða svo til , en ég sé að þau skilgreina tónlistina á myspace síðunni sinni sem popppönk


47 kílómetrar, 141 kílómetri og 2000 krónur

Mér finnst eins og það sé eitthvað bogið við það að leggja nýjan veg alla þessa leið til að spara ökumönnum tæplega 50 kílómetra. Það er talað um að það dragi úr mengun vegna útblásturs bifreiða en mig langar hins vegar til þess að vita hversu mikil mengun er af því að leggja svona veg. Er ekki mengun af lagningunni? Og svo er auðvitað spurningin um sjónmengun auk alls annars sem verður byggt þarna í tengslum við veginn, sjoppur og bensínstöðvar. Ég ætla samt ekki að fara að vera einhver dómari í því hvort það sé rétt eða rangt að leggja hraðbraut um hálendið út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Það er auðvitað hið besta mál að auðvelda aðgengi að náttúruperlunum okkar á hálendinu og dálítið súrt að fólk þurfi að eiga jeppa til að komast þangað, en þetta er nú kannski örlítið ýkt, eða hvað? Hvað með að leggja bara einhvern penan veg sem hægt væri að komast eftir á fólksbíl á góðum degi?

Ég verð síðan að viðurkenna að mér finnst vera eitthvað skrýtið að velta sér svo upp úr því hvað sé þá langt milli Akureyrar og Selfoss. Ég fæ það á tilfinninguna að það sé til þess gert að þetta líti í fljótu bragði út fyrir að vera gáfulegra en það er. Ég held nefninlega að það sé ekkert sérlega hátt hlutfall ökumanna sem keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur sem halda áfram til Selfoss.

Árið 2005 voru um 3000 bílar á dag að meðaltali sem óku yfir Hellisheiði hvora leið. Spurningin er síðan hversu margir af þessum 6000 ökumönnum eru að fara alla leið til Akureyrar frá Reykjavík og öfugt. Vegna þess að ég hef miklar efasemdir um að sá sem ætlar ekki alla leið til Akureyrar heldur bara t.d. til Varmahlíðar hafi takmarkaðan áhuga á því að borga 2000 krónur fyrir þá 9 kílómetra sem viðkomandi getur sparað sér.

Næsta spurning mín er síðan sú hversu margir eru tilbúnir til að borga 2000kr fyrir að spara sér 47 kílómetra. Ég er ekki viss um að það séu endilega svo rosalega margir. Margir hafa a.m.k. tjáð sig um það að sér finnist 1000 kallinn sem kostar í Hvalfjarðargöngin alveg í hærri kantinum fyrir það sem þau eru tilbúin til að greiða fyrir þann tímasparnað, og þar er það líka mjög leiðinlegur hluti leiðarinnar sem dettur út. Áætlunin er að það verði 500 bílar á dag, fyrsta árið, sem nýti sér veginn. Það er nú kannski alveg raunhæft, það er ekki gott að segja. Aldrei hægt að vita hvernig fólk bregst við svona hlutum. Nískupúkinn ég myndi þó líklega spara mér 2000 kallinn.

Já, þær eru margar spurningarnar sem manni dettur í hug svona á sunnudagskvöldum :)


mbl.is Vilja hefja undirbúning nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hannes týpan sem kyssir ríka rassa?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar grein í Morgunblaðið í dag um jöfnuð/ójöfnuð á Íslandi. Hann skrifar greinina greinilega til að dissa Stefán Ólafsson prófessor í HÍ sem heldur því statt og stöðugt fram að hér á Íslandi hafi ójöfnuður aukist síðustu árin. 

Ég vissi af því að Hannes hélt opinn fyrirlestur í gær og langaði til að fara en komst ekki og var því mjög fegin að fá að lesa þessa grein, sem ég reikna fastlega með að innihaldi að mestu það sama og fyrirlesturinn.  Þegar ég fór að lesa greinina þá sá ég að hún snýst ekki um neitt annað en að snúa út úr því sem Stefán hefur verið að halda fram síðstu mánuði varðandi ójafna skiptingu auðsins hér á landi og mér þykir honum reyndar ekki farast það sérlega vel úr hendi, en ætla nú svo sem ekki að segja meira um það svo þetta blogg verði nú ekki fimm metra sítt ;)

 En það var eitt í greininni sem stakk mig og ég get hreinlega bara ekki orða bundist: 

 

Um 100–600 stórauðugar fjölskyldur hafa orðið til og kjósa að telja fjármagnstekjur sínar fram á Íslandi, þótt þær gætu talið þær fram annars staðar, til dæmis í Sviss eða Lúxemborg. Í stað þess að þakka fyrir þennan nýja tekjustofn kvartar Stefán Ólafsson undan því að þetta fólk greiði aðeins 10% af fjármagnstekjum sínum í tekjuskatt, á meðan venjulegt launafólk greiði um 35% af atvinnutekjum sínum.

Það kostar að búa á Íslandi. Það kostar að vera á svona harðbýlu og strjálbýlu landi. Af hverju ættu ekki þau ofsaríku ekki að þurfa að borga jafn mikið fyrir það og við hin minna ríku? Eigum við bara að vera ógeðslega þakklát fyrir það að þau skuli vilja búa hérna og þess vegna fá þau að búa hérna án þess að greiða sömu skattprósentu og við hin?

 

Eiga þau ekkert að vera ógeðslega glöð yfir að búa hérna? Svo glöð að þau séu til í að borga meira fyrir að búa hérna heldur en þau myndu þurfa að borga ef þau byggju í Sviss eða Lúxembúrg þar sem er miklu ódýrara fyrir þau að búa.

Væri ekki miklu ódýrara fyrir mig að búa í Lúxembúrg? Ég held að það gæti nú bara vel verið. Samt langar mig ekkert til að búa í Lúxembúrg! Það skiptir nefninlega fleira máli í lífinu heldur en peningarnir. Það skiptir mig máli að búa hér á Íslandi. Ég hef valið það. Jafnvel þótt það kosti mig meira en að búa annarsstaðar.

 

Ég held það sé varla hægt að svara spurningunni sem ég set fram í fyrirsögn þessarar bloggfærslu með öðru en JÁ eftir að lesa þessa grein hans í dag.

 

Úff hvað það er gott að hafa svona blogg til að geta fengið útrás :) 


stjórnun

Hvernig er hægt að hugsa sér að fólk sem getur ekki skipulagt þing fyrir lítinn stjórnmálaflokk geti stjórnað landi? Jafnvel þótt það sé lítið land!

Ég held ég geti sagt það með alveg hreinni samvisku að ef flokkurinn sem ég hefði hugsað mér að kjósa myndi sýna fram á svona lélega stjórnunarhætti myndi ég hugsa mig nokkrum sinnum um áður en ég gæfi honum atkvæði mitt.


mbl.is Kolbrún Stefánsdóttir kjörin ritari Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánahrollur

Jæja, þá er borgarstjórnin búin að sýna stefnu sína í verki hvað varðar almenningssamgöngur. Búið að hækka í strætó og lækka framlög borgarinnar. Greinilegt að það þykir ekki ástæða til að umbuna fólki fyrir að velja vistvænan ferðamáta heldur á það fólk að standa í auknum mæli undir kostnaði við að reka þetta almenningssamgöngukerfi sem allir vita að mun alltaf verða rekið hér í einhverri mynd vegna þess einfaldlega að ef það yrði lagt niður myndu öll hin löndin hlæja að okkur og kalla okkur plebba.

Það er náttúrulega það versta sem við getum hugsað okkur því við viljum vera í vestrænu klíkunni sem er ógisslega kúl þótt við séum ótrúlega miklar gelgjur og þykjumst vera ótrúlega sjálfstæð og töff og veiðum sko bara hval þótt allir segi að við eigum ekki að gera það og fáum sko bara álver þótt við vitum innst inni að það er ekkert sniðugt og stóru sterku strákarnir séu bara að nota okkur af því að við eigum smá af því sem þeim langar í.

Jeminn hvað mér finnst samfélagið okkar eitthvað aumkunarvert þegar ég dett í það að persónugera það svona. Ég verð bara að hætta þessu.


mbl.is Mótmæla fargjaldahækkun Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV

Við heyrum meðlimi og áhangendur stjórnarflokkanna fullyrða það að ekki standi til að hlutafjárvæða RÚV. Í gær hlustaði ég á viðtal (á rás1) við meðal annars Einar Odd Kristjánsson sjálfstæðismann og fullyrti hann að það væri alls ekki ætlunin að einkavæða og selja RÚV og var þá bent á að það hefði nú líka verið sagt þegar Síminn var einkavæddur en reynslan hefði leitt annað í ljós. Þá sagði kappinn:

ég held að það sé ekki markaðsvara… hinsvegar gæti verið einhver hluti eða hlutur af þessu útvarpi sem gæti verið markaðsvara og ég held að það verði aldrei og það sé enginn sem hefur áhuga fyrir því að halda að taka hana í fóstur eða eignast hana þannig að í fyrsta lagi held ég að það sé enginn viljugur eða aldrei heyrt það frá nokkrum manni að hann vilji selja það í öðru lagi hef ég aldrei frétt það að nokkur maður vildi kaupa það, þannig að þessar áhyggjur sem menn eru að spinna hérna upp í upphafi þorrans það held ég að sé alveg ástæðulausar.

Þar sem ég er eindregið á móti einkavæðingu RÚV þykir mér það ansi ógnvekjandi að það eina sem standi í vegi fyrir einkavæðingu sé að Einari Oddi þyki það ekki vera markaðsvara og að hann hafi aldrei heyrt neinn tala um að vilja kaupa það. Hvusslags eiginlega ófaglegheit eru þetta!!

Ég hef heyrt að Pétur Blöndal hafi skellt fram þeirri hugmynd að það sé einfaldlega hægt að hætta við að hafa RÚV fyrir fjölmiðil og gera það frekar að sjóð sem veiti peningum í innlenda dagskrárgerð. Ég er algjörlega á móti því! Ég vil hafa fjölmiðil sem getur sýnt annað efni en það sem fellur í þann þrönga flokk sem bandarískar bíómyndir, bandarískir gamanþættir, bandarískir raunveruleikaþættir og bandarískir spennuþættir og íslenskar útgáfur af bandarískum raunveruleikaþáttum falla í. Þetta fellur algjörlega undir þá ástæðu af hverju ég hef engan áhuga á hreinræktuðum kapítalisma því það er algjörlega nauðsynlegt að ríkið grípi inn í þegar samkeppni er ekki til staðar á nægilegan hátt.

Hins vegar finnst mér alveg nauðsynlegt að Ríkisútvarpið dragi sig út úr samkeppni um efni sem samkeppni ríkir um annarsstaðar, eins og t.d. virðist vera orðið með eitthvað af íþróttaefni vegna samkeppni Skjásins og 365. Og ég set alveg spurningamerki við það að RÚV kaupi sýningaréttin af Formúlunni.

Ég væri líka gríðarlega ósátt við að missa Rás1 og Rás2. Þar eru útvarpsstöðvar sem risastór hópur fólks hlustar á og þótt þær þyki alls ekki hipp og kúl hjá öllum þá eru þær nú samt hipp og kúl hjá mörgum og þótt reyndar mætti að mínu mati gera heilmikið til að bæta dagskrána hjá Rás1 þá vil ég fyrir allan mun ekki vera án hennar, jafnvel í núverandi formi.

Ég held það sé engin spurning með það að ég er í einhverjum markhópi. Ég eyði öllum mínum peningum í eitthvað. Það hlýtur að vera haugur af auglýsendum sem vilja segja mér frá því sem þeir vilja selja mér. Ég skil bara ekki af hverju auglýsendur hafa allir ákveðið að slást um sama markhópinn (ég veit þetta er alhæfing en þú skilur hvað ég meina). Ég held þetta sé hreinlega bara vegna þess að auglýsendurnir eru að gera mistök en það er hinsvegar annað mál sem ég ætla ekki að röfla um hér og nú.


Babel

Ég fór á myndina Babel í bíó núna áðan. Hún var góð. Mjög góð. Þrjár einfaldar sögur sem fléttast saman eins og í svo mörgum myndum. Hún var líka að mörgu leyti eins og svo margar myndir, nema bara svo miklu miklu betri en næstum allar þeirra. Sögurnar voru nokkuð einfaldar en alveg gríðarlega sérstakar allar. Allir sem þekkja mig vita að ég er nánast með ofnæmi fyrir klisjum og þar af leiðandi Hollywoodmyndum. Þessi mynd sýnir það að það er alveg hægt að fylgja einhverju ákveðnu formi án þess að láta formið gleypa sig og detta ofan í hverja einustu klisjugildru á leiðinni því það gerði hún sko alls ekki. Umhverfið er líka allt annað en við eigum að venjast því við ferðumst með sögupersónum okkar um ótrúlega fjölbreytt umhverfi sem við erum ekki vön að fá að sjá í hefðbundnum kvikmyndum.

Þema myndarinnar er samkvæmt minni túlkun er valdleysi ýmissa einstaklinga og hópa í hinum ýmsu samfélögum gagnvart yfirvaldi af ýmsu tagi. Við eigum það til að gleyma því hérna í okkar verndaða vestræna heimi að það eru ekki allir sem búa við sömu aðstæður og við og eru verndaðir af allskonar lögum, reglum og bara samfélaginu í heild.

Ég ætla að halda mig á mottunni og segja ekki meira til að skemma ekki myndina fyrir þem sem eiga eftir að sjá hana.


Alþingi og töff Ég ætla að byrja á því að segja a...

Alþingi og töff

Ég ætla að byrja á því að segja að mér finnst Hlynur Helgason ógeðslega töff gaur. Síðast þegar hann kom inn sem varamaður á Alþingi, í fyrra, þá fékk hann skammir fyrir að vera ekki með bindi, og hvað gerir gaurinn, jú hann mætir náttla með Dead bindi og í ógeðslega töff jakkafötum úr Nonnabúð. Reyndar fannst mér persónulega jakkafötin og bindið passa alveg óheyrilega illa saman en það er allt önnur ella. Svona attitjút eiga alþingismenn að hafa! En ekki eins og hún Dagný framsóknarkona sem sagði eitthvað á þá leið að hún hefði nú aldrei gengið í dröktum en hún myndi nú bara byrja á því fyrst hún væri komin inn á Alþingi.

Annað mál er síðan það sem mikið er verið að ræða þessa dagana um málþóf stjórnarandstöðunnar vegna frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf. Um það vil ég segja að vegna þess að hér á landi er löggjafarvald og framkvæmdavald á hendi sömu aðilanna og stjórnarandstaðan hefur engin raunveruleg ráð til þess að stöðva mál sem henni finnst ótækt að séu afgreidd frá þinginu. Eðlilegt væri að stjórnarandstaðan gæti vísað málum til sérstakrar rannsóknar, nefndar eða jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu en ekkert slíkt er í boði þar sem meirihluta þings þarf til slíkra aðgerða og því getur stjórnarandstaðan ekki veitt meirihlutanum neitt raunverulegt aðhald.

Þetta er sem sagt það ráð sem stjórnarandstaðan grípur til þegar mikið liggur við, að þeirra mati, að mál séu ekki afgreidd óbreytt frá Alþingi. Og það sem fæst út úr þessu er að stjórnin lendir í tímahraki og verður tilbúnari til að semja um breytingar á frumvarpinu til að þóknast stjórnarandstöðunni og fá málið afgreitt.

Ég er á því að við eigum að vera bara ansi ánægð með að stjórnarandstaðan skuli nenna að standa í svona málþófi til að berjast gegn málum sem hún er ósátt við. Við skulum líka hafa hugfast að stjórnin er aldrei nema rúmur helmingur atkvæða landsmanna, og reyndar jafnvel tæpur þegar Framsóknarflokkurinn er í stjórn vegna misvægis atkvæða eftir búsetu kjósenda (hvar er lýðræðið í því spyr ég nú bara). Þannig að stjórnarandstaðan er væntanlega að berjast fyrir skoðunum stórs hluta þjóðarinnar. Ég myndi að minnsta kosti ekki vilja hafa sama kerfi og Bretar búa við því þar ákveður bara ríkisstjórnin hvernig allt á að vera og stjórnarandstaðan getur ekkert gert til að vinna á móti þeim nema kannski að vekja athygli almennings á ákvörðunum stjórnarinnar og til þess þarf hún að treysta algjörlega á fjölmiðlana og þá eru þeir nú komnir í ansi merkilega stöðu.

Í Danmörku eru iðulega minnihlutastjórnir við völd. Þar eru líka 14 stjórnmálaflokkar og því kannski auðveldara að finna flokk sem ég get samsamað mínum skoðunum frekar en að velja þann skársta af nokkrum kostum, þar sem flestir kostirnir eru meira að segja á ansi svipaðri línu eða svokallaðir "catch all" flokkar. Gallinn við minnihlutastjórnir eins og í DK er hinsvegar sá að mikill tími fer í að ræða málin og komast að sameiginlegri niðurstöðu og því verður þingið ekki jafn skilvirkt, en hversu skilvirkt er okkar alþingi eiginlega hvort sem er? Amk ekki mjög skilvirkt þegar ekki er hægt að ræða málin og komast að sameiginlegri niðurstöðu en tíminn er þess í stað notaður til að flytja langar ræður um ekki neitt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband