13.1.2007 | 11:22
Tónlistarþróunarmiðstöðin Ég kíkti aðeins inn á t...
Ég kíkti aðeins inn á tónleika sem félag tónlistarþróunarmiðstöðvar hélt í dag í Hafnarhúsinu. Þar sá ég lög með tveimur mjög áhugaverðum hljómsveitum sem æfa í TÞM. Því miður þá var félagi minn ekki til í að vera lengur á tónleikunum svo við fórum fljótlega en mig langar að tjá mig aðeins um þetta fyrirbæri Tónlistarþróunarmiðstöðina. Mér finnst þetta nefninlega alveg snilldar konsept, að vera með æfingarhúsnæði sem hljómsveitir geta samnýtt og er undir eftirliti. Þetta leiðir til þess að í stað þess að hver hljómsveit þurfi að leigja bílskúr inni í miðju íbúðarhverfi, eða þá aðstöðu í iðnaðarhúsnæði sem eru í misgóðu ástandi þá getur hljómsveitin leigt þarna rými á móti þremur öðrum hljómsveitum á 25.000kr á mánuði og innifalið eru þrif og vöktun og svo er líka bannað að vera undir áhrifum þarna. Líka er algjörlega mikill kostur að vera í tengslum við aðra sem eru að sýsla við tónlist. Ég hef heyrt því fleygt að eitt af því sem gerir íslenskt tónlistarlíf svo sérstakt þegar miðað er við önnur lönd sé það að hér séu svo mikil og góð samskipti milli tónlistarfólks. Iðulega er sama manneskjan í mörgum hljómsveitum og mikill vinskapur er milli hljómsveita og tónlistarfólk sem vinnur eitt virðist eiga tiltölulega auðvelt með að fá til liðs við sig aðra tónlistarmenn þegar á þarf að halda. Þetta er náttla alveg snilld og auðvelt að sjá hvílík lyftistöng verkefni á við Tónlistarþróunarmiðstöðina er fyrir íslenskt tónlistarlíf.
En þá er nú komið að sorglega hlutanum. Það hefur nefninlega komið í ljós að til þess að reka TÞM húsnæðið þarf meiri peninga en innheimt er í leigugjöld fyrir rýmin og Reykjavíkurborg er ekki að leggja nema 135.000kr á mánuði í púkkið og það er ekki einu sinni fyrir starfsmanninum sem er á vakt þarna. Mér finnst samt bara alveg ótrúlegt ef ekki er hægt að finna pening fyrir snilldarverkefni eins og þessu. Alveg ótrúlegt bara. Ég held að það hljóti bara að vera að Danni Pollock og félagar séu ekki nógu góðir í að sækja um styrki og þess háttar.
28. nóv sendi ég áskorun til allra borgarfulltrúa um að halda þessu verkefni gangandi og sá eini sem svaraði var Stefán Jón Hafstein og hann sendi mér eitthvað staðlað svar sem var alveg ágætt og þar sagði hann meðal annars: Í fyrra beitti ég mér fyrir því sem formaður menningarmálanefndar að gerður yrði fastur samningur..... Mér skilst hins vegar núna að reksturinn kalli á enn meira fé, umtalsvert meira en t.d. er lagt í sambærilega samstarfssamninga á menningarsviði, en mun lægri en veittir eru til margs konar íþrótta. Mér finnst alveg skandall að íþróttir séu að fá meiri peninga heldur en önnur tómstundastarfsemi, enda er ég svoddan antisportisti og trúi því að hópíþróttir séu til þess fallnar að þrýsta á krakka til að falla í mótið og hlýða skipunum og þær vinni gegn gagnrýnni hugsun.
Eitt af því sem TÞM er að berjast fyrir er að fá húsnæðið skilgreint sem tómstundarhúsnæði en ekki atvinnu- og iðnaðarhúsnæði og sleppi þannig við að borga haug af gjöldum. Ég skil nú ekki að það sé mikið mál.
Ef einhver hefur áhuga á að tjá sig um þetta mál við borgaryfirvöld er auðvelt að senda tölvupóst á borgarfulltrúana:
arni.thor.sigurdsson@reykjavik.is
bjork.vilhelmsdottir@reykjavik.is
bjorn.ingi.hrafnsson@reykjavik.is
gisli.marteinn.baldursson@reykjavik.is
jorunn.frimannsdottir@reykjavik.is
julius.vifill.ingvarsson@reykjavik.is
kjartan.magnusson@reykjavik.is
stefan.jon.hafstein@reykjavik.is
svo@reykjavik.is
svandis.svavarsdottir@reykjavik.is
thorbjorg.helga.vigfusdottir@reykjavik.is
og náttla rúsínan í pylsuendanum. Maðurinn sem lætur sér afar annt um fjölskylduvæn hverfi og vill koma ófögnuði á við fjárhættuspilastaði út úr uppáhaldshverfinu sínu. Hann hlýtur að vera ánægður með að hafa hljómsveitirnar líka einhversstaðar á afviknum stað því það er nú ekki svo fjölskylduvænt að vera með hávaða og læti úti í öðrum hverjum bílskúr.
borgarstjori@reykjavik.is
Í TÞM eru 13 æfingarrými og 3 hljómsveitir deila hverju rými. Forsvarsmenn miðstövarinnar áætla að það séu um 250 manns sem nýta sér aðstöðuna. Þar er líka tónleikasalur og verið er að setja upp hljóðver þar sem hægt verður að taka upp demó.
Jæja. Ég er dáldið að klikka á því að hafa þetta blogg stutt, en kommon, ef maður hefur eitthvað að segja þá verður maður náttla að segja það. En hins vegar hlýti ég því ráði sem Addi gaf mér með að hafa bara eitt efni í hverri færslu. Það lítur sem sagt út fyrir að ég geti ekki gert bæði í einu :D
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2007 | 04:33
Art washes away from our souls the dust which is e...
Ég gerðist dáldið artý í fyrradag og fór á tvö listasöfn. Fyrst á Listasafn Íslands og síðan á Listasafn Reykjavíkur. Það kostar ekkert inn á Listasafn Íslands og það finnst mér bara snilld. Mér finnst æði að geta bara valsað inn á safn ef ég er í stuði til þess án þess að þurfa að spá í hvort ég tími því. Í Danmörku er frítt inn á öll ríkisrekin söfn. Það hefur reyndar valdið einhverjum deilum varðandi það að það sé óréttlátt gagnvart hinum söfnunum. Ég kýs reyndar að líta þannig á að þetta geti aukið veltuna hjá sjálfstæðum söfnum. Það hlýtur að virka í þessum bransa eins og öðrum að þú getur fengið smá bragð ókeypis en ef þú vilt meira þá þarftu að borga. Ég get amk vel ímyndað mér að þetta auki almennan áhuga á listum og þar af leiðandi verði fólk frekar tilbúið til að borga sig inn á minni sýningar en það er í dag.
Á Listasafni Íslands er í gangi sýning á Frönskum expressjónisma. Hún var nú ekki mjög spennandi fyrir minn smekk og ég hefði aldrei borgað mig inn á hana. En það var gaman að sjá þarna verk eftir Mattise en svo voru myndir þarna eftir fleiri og nokkrar eftir gaur sem heitir Albert Marquet sem voru alveg rosalega flottar og algjörlega þess virði að fara og kíkja á, þær eru uppi í sal 4. Mæli með þeim! Hér er smá sýnishorn.

Þar var líka sýning á verkum Jóns Stefánssonar. Þar var eiginlega bara ein mynd sem mér fannst flott en hún var líka alveg hrikalega flott. Myndin heitir Sumarnótt og maður hefur oft séð hana áður en það er samt ekki nærri því það sama að sjá mynd af henni eða að sjá verkið sjálft. Lýsingin er alveg svakalega vel heppnuð. Og við sjáum annað sýnishorn:

Síðan lá leiðin í Listasafn Reykjavíkur og þar vildi svo heppilega til að var frítt inn líka, en það er frítt inn alla fimmtudaga. Þar var sýning á bandarískri samtímalist. Þar var svo sem ekkert sem fangaði athyglina mína sérstaklega en auðvitað eitthvað af flottu stöffi. Svo var auðvitað sýning á verkum eftir Erró. Ég held það sé alltaf einhver sýning á verkunum hans í Listasafni Reykjavíkur.
Um kvöldið var svo farið á myndina The Prestige. Mér fannst hún nú svo sem ekki sérlega góð. Sjálf sagan var dáldið einföld og mikil klisja og uppfyllingarefnið í kring um söguþráðinn heldur klént líka. David Bowie var samt rosalega töff. Mér fannst líka töff þegar Helgi, vinur minn, útskýrði það fyrir mér að þessi gaur, Tesla, sem David Bowie lék, og var uppfinningamaður, hefði verið til í alvörunni og hann hefði í alvörunni fundið upp hvernig hægt væri að dreifa rafmagni án þess að leggja línur fyrir því og að í raun væri sagan um samkeppni töframannanna tveggja tilvísun í samkeppnina milli uppfinningamannanna tveggja Tesla og Edisons og það hvernig það sé ekki alltaf sá sem er færari sem vinnur slíka keppni.
Andagiftin er þá ekki meiri í bili en hún hlýtur að snúa aftur fljótlega. Mér skilst að þessi stuttu blogg mín séu gríðarlega vel að gera sig meðal lesenda minna og þar sem þeir eru ekki svo margir þá mun ég reyna að koma til móts við óskir um þetta.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 08:10
Álverið í Straumsvík Ég er búin að vera að skoða ...
Ég er búin að vera að skoða málið dáldið núna upp á síðkastið og þær staðreyndir sem ég hef rekið augun í finnst mér dáldið athyglisverðar og þær hafa leitt mig frá þeirri skoðun sem ég var farin að hallast á, sem var að það væri örugglega skárra að stækka álverið í Hafnarfirði heldur en að byggja ný álver við Húsavík eða í Skagafirði. En eftir þetta vafr mitt á netinu auk þess að hafa hlustað á viðtal við Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, og annað við Pétur Óskarsson, talsmann samtakanna Sólar í straumi, er ég komin á þá skoðun að það sé í raun skárra að hafa þetta út á landi vegna þess að það sé líklegra að heimamenn þar hafi not fyrir þau störf sem skapast heldur en höfuðborgarbúar. En sú skoðun mín að álframleiðsla sé ekki spennandi iðnaður fyrir Íslendinga hefur reyndar styrkst heilmikið í gegnum þetta ferli.
Hér koma nokkrar áhugaverðar staðreyndir sem ég hnaut um á vefnum:
1) 46% starfsmanna álversins eru með lögheimili í Hafnarfirði. Það eru 216 manns. (Upplýsingar af vef Sólar í straumi)
2) Í Hafnarfirði eru 8500 störf svo þessi 470 störf eru samkvæmt mínum útreikningum 6% af störfunum í firðinum. .
3) Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna hjá Alcan í Straumsvík er 13% en 32% þjóðarinnar er fólk með háskólamenntun og það hlutfall held ég að enginn efist um að fari hratt hækkandi. Þess vegna finnst mér mjög óráðlegt að leggja áherslu á að styðja við fyrirtæki sem skapa störf þar sem mjög lágt hlutfall eru störf fyrir háskólamenntað fólk. Við höfum örugglega oft heyrt fólk fussa og segja "hvað eiga svo allir þessir fræðingar að gera" en ég held að við heyrum ábygginlega oftar talað með stolti um hátt menntunarstig þjóðarinnar og hvernig það sé ein af ástæðunum fyrir gríðarlegri velgengni okkar samanborið við nánast hvaða þjóð sem er í heiminum og ég ætla að leyfa mér að efast um að það sé rétt stefna að ætla að láta alla þessa fræðinga vinna í álverum enda held ég að þeir muni hreinlega ekki gera það heldur frekar flytja eitthvað annað þar sem þeir eiga meiri möguleika á að nýta menntunina sína á meðan við síðan flytjum inn fólk til að vinna í framleiðslustörfum.
4) Alcan er með orkukaupasamning til ársins 2020 og því ólíklegt að verksmiðjan fari fyrir þann tíma og eins og Rannveig Rist sagði í viðtalinu á Rás1 í gærmorgun þá hefur verksmiðjan mjög góða samkeppnisstöðu þrátt fyrir að vera svona lítil vegna þess hversu fjölbreyttar afurðir hún framleiðir. Þannig að þótt búið sé að segja að ef stækkun verði ekki samþykkt þá muni verksmiðjan loka er harla ólíklegt að það verði á næstu árum eða áratugum og ég hef engar efasemdir um það að það verður eitthvað enn meira spennandi og arðvænlegt sem mun taka við af álverksmiðjunni, þannig hefur þróunin hjá okkur amk verið hingað til og ég efast ekkert um að við Íslendingar getum nú aldeilis fundið upp á einhverju sniðugra til að vinna við fyrir þetta fólk, sem svo óðum fer fækkandi, sem langar til að vinna í verksmiðju.
Þrátt fyrir að Alcan standi sig sjálfsagt mjög vel við að takmarka mengun sem verksmiðjan veldur er mengunin samt sem áður staðreynd og mun líklega ekki fara mikið minnkandi. Það að Ísland þurfi að fara að kaupa mengunarleyfiskvóta frá öðrum löndum finnst mér hreinlega bara hreinasti skandall. Við sem alltaf höfum verið svo stolt af hreina fína landinu okkar treystum okkur ekki til að halda menguninni innan þeirra marka sem allar helstu þjóðir heims (náttla fyrir utan Bandaríkin) hafa komið sér saman um.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 02:26
Sá Little Miss Sunshine í fyrradag. Hún var mjög g...
Ég er geðveikt mikið að spá í það hvort ég sé með eða á móti stækkun álversins í Straumsvík, eins gott að vinir mínir í Vinstri Grænum komist ekki að því hvað ég er óstaðföst í skoðunum ;) meira um það seinna.
Þetta ku vera stysta blogg sem ég hef skrifað og af þeirri ástæðu er það tileinkað Arnari sem nennir ekki að lesa löng blogg :p
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 15:32
Er ekki alveg upplagt að blogga dáldið á nýju ári ...
Þar sem ég er búin að vera á Akureyri í tvær vikur nánast internetlaus og sambandslaus við umheiminn fannst mér stundum, þá er ég búin að nota tækifærið og lesa alveg heilan haug af bókum. Ein af þeim var Sumarljós og svo kemur nóttin, eftir Jón Kalman Stefánsson. Það er náttla búið að vera eitthvað voða mikið hæp í kringum þennan gaur síðustu misserin en vegna þess að ég hef varla lesið staf í langan langan tíma þá hefur alveg farist fyrir hjá mér að komast að því hvað væri málið með gaurinn. En ég gerði það sem sagt núna 1. Jan og komst að því að hann stendur bara ansi vel undir hæpinu. Þetta er bara lítil og nett bók og mjög auðlesin en skilur samt ansi mikið eftir sig samt. Það sem mér finnst merkilegast við hana er að hún gerist einhvernvegin bæði í samtímanum og fornöld. Þetta er semsagt frásögn úr litlu þorpi úti á landi (ég ímyndaði mér eitthvað svipað og Stokkseyri eða Eyrarbakki) og allt er ótrúlega gamaldags en svo dettur alltaf inn eitthvað sem fær mann til að fatta að það er ekki 1950 heldur 2000. Þetta er alveg magnað finnst mér, manni finnst gamli tíminn vera svo svakalega langt í burtu en þegar allt stressið, hraðinn og bissýið er tekið í burtu þá getur maður séð að í raun er ekki mikill munur á fólki nú og fyrir 50 árum síðan. Ég mæli eindregið með þessari bók og tek þar með fullan þátt í hæpinu :)
Svo fór ég í bíó í gær og sá Kalda slóð. Hún stóð alveg undir væntingum og bara rúmlega það. Reyndar get ég viðurkennt að væntingarnar voru ekki sérlega miklar. Ég ætla nú samt ekki að segja að hún hafi verið eitthvað meistaraverk. Ef maður fer að velta sér mikið upp úr umgjörðinni, þ.e. handritinu, samtölunum, persónunum og einhverjum smáatriðum er alveg hægt að segja að hún sé dáldið slöpp, en ef maður bara leyfir sér að hrífast með þegar hún nær flugi og vera dáldið spenntur þá má alveg segja að hún sé bara ágætis ræma. Reyndar allsvakalega formúlukennd og dáldið barnaleg við hliðina á alvöru Hollywoodverkum . Ég er alveg sannfærð um að íslensk kvikmyndagerð er á mikilli uppleið en ég er reyndar jafn sannfærð um að Björn B. Björnsson er ekki næsta stjarnan meðal íslenskra leikstjóra. Leiknum í myndinni hefur verið mikið hrósað, ég ætla nú ekki að taka undir þetta hrós því þótt hann sé góður miðað við mjög margar íslenskar myndir þá er það nú ekki hár standard að miða við og það á náttla aldrei að miða sig við eitthvað prump. Bæði Þröstur Leó og Tómas Lemarquis sýndu miklu miklu betri leik í Nóa albinóa, sem ég er náttla óþreytandi við að halda fram að sé besta mynd sem gerð hefur verið á Íslandi og jafnvel þótt víða væri leitað (blóðatriðið er by far langlanglang flottasta atriði í íslenskri mynd, sjitt hvað mér fannst það vel gert)
Búin að fjárfesta í miða á Nasa til að tjútta með sænsku plebbunum Pétri, Birni og Jóni. Það verður væntanlega gríðarlegt stuð og nokkuð ljóst að fyrsta djamm ársins verður frekar snemma á ferðinni þetta árið. Spurning hvort það setji tóninn fyrir gríðarlegt djamm og drykkju á árinu - æji, ég efa það.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2006 | 06:00
Köntrí Ég hef aldrei sagt neitt gott um kántrítón...
Ég hef aldrei sagt neitt gott um kántrítónlist. Hef hingað til talið hana afsprengi öxulvelda hins glataða. En nú bregður sko aldeilis annað við. Ég hef rekist á þetta lag með dömu að nafni Deana Carter sem heitir Did I shave my legs for this. Hér birti ég svo þennan snilldar texta og link á youtube þar sem er hægt að heyra dömuna flytja lagið (ég mæli reyndar ekkert sérstaklega með því að það sé hlustað á það þar sem textinn er algjörlega það sem skiptir mestu máli í þessu listaverki.
DEANA CARTER
Did I Shave My Legs For This
(Deana Carter/Rhonda Hart)
Flowers and wine is what I thought I would find
When I came home from working tonight
Well now here I stand, over this frying pan
And you want a cold one again
I bought these new heels, did my nails
Had my hair done just right
I thought this new dress was a sure bet
For romance tonight
Well it's perfectly clear, between the TV and beer
I won't get so much as a kiss
As I head for the door I turn around to be sure
Did I shave my legs for this
Now when we first met you promised we'd get
A house on a hill with a pool
Well this trailer stays wet and we're swimmin' in debt
And now you want me to go back to school
I bought these new heels, did my nails
Had my hair done just right
I thought this new dress was a sure bet
For romance tonight
Well it's perfectly clear, between the TV and beer
I won't get so much as a kiss
As I head for the door I turn around to be sure
Did I shave my legs for this?
Darlin' did I shave my legs for this?
Youtube:
http://youtube.com/watch?v=8qYy84EjzUU
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2006 | 03:57
Meira hvalræði. Ég var á haustþingi Framtíðarlan...
Ég var á haustþingi Framtíðarlandsins í gær, sem var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Þar sagði Sverrir Björnsson, sem er framkvæmdastjóri hönnunarsviðs hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu, að þetta væri versta PR klúður sem Íslendingar hafa lent í. Ég er honum hjartanlega sammála. Það var alveg vitað mál að það yrði mjög neikvæð umræða um þetta erlendis og hversvegna í ósköpunum voru stjórnvöld ekki tilbúin með rökstuðning og svör við óröklegum, ómarkvissum og tilfinningaþrungnum umræðum erlendra fjölmiðla og annarra?
En svo var aftur á móti annað sem mér datt í hug í morgun. Af hverju eru ferðaþjónustuaðilar á Íslandi að gera illt verra? Af hverju segja þeir ekki Já, þetta er nú ljóta helvítis fokkuppið, en við skulum nú reyna að bjarga því sem bjargað verður. Það sem þeir hafa kosið að gera er að taka undir rakalausar umræður og gagnrýni umhverfisverndarsinna og sparihippana (hugtak skapað af Hnakkusi og útskýrt betur á síðunni hans sem ég mæli með að sé lesin mjög reglulega, hnakkus.blogspot.com) og þeir eru í raun nánast að biðja fólk um að vera neikvætt út í þetta.
Ikke så smart synes jeg :)
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 10:27
The Swamp Já ég skellti mér á Mýrina í gærkvöldi....
Já ég skellti mér á Mýrina í gærkvöldi. Það var nú aldeilis ljómandi skemmtileg upplifun og algjörlega ferðarinnar og peninganna virði.
Myndin var alveg ljómandi góð í flesta staði og bæði leikurinn og húmorinn var algjörlega í samræmi við það sem tíðkast í erlendri framleiðslu, hvorki betra né verra myndi ég segja. En það er auðvitað mjög ánægjulegt að maður sé farinn að geta farið í bíó án þess að vita það fyrirfram að maður verði með kjánahrollinn niður á rass vegna áttavilltra leikara sem villtust niður af sviðinu. Ingvar E. Sigurðsson er auðvitað kóngurinn og það verður ekki skafið af honum þarna frekar en annarsstaðar og sama má segja um Ólafíu Hrönn og eins er Björn Hlynur Haraldsson ljómandi góður og eiginlega bara allir leikararnir meira og minna.
Það sem situr mest eftir hjá mér eftir þessa mynd var mjög góð persónusköpun. Flestar persónurnar fannst mér afar áhugaverðar og frekar trúverðugar. Ég er samt dálítið á báðum áttum með Erlend sjálfan, fannst Ingvar gera honum mjög góð skil en fannst að það hefði þurft að gera hann dálítið eldri. Skeggið fór nú reyndar langt með að gera hann nógu gamlan en það vantaði svolítið mikið upp á förðunina fannst mér. Ég hefði viljað elda Ingvar alveg um a.m.k. 20 ár. En ég elskaði lopapeysuna og gleraugun, fannst þau alveg vera snilld. Eins féll Elliði alveg ógeðslega vel í kramið hjá mér. Það var eiginlega helst hún Eva Lind sem ég var ekki alveg nógu hress með.
Ég held reyndar að skýringin á því að ég var ekki alveg nógu hress með Evu Lind var vegna þess að í hausnum mínum var hún svo allt allt öðruvísi. Þegar ég sá fyrsta atriðið með henni hugsaði ég strax, þetta er ekkert Eva Lind, því mér fannst ég hafa séð hana í einhverri annari mynd eða eitthvað, amk var myndin af henni í huga mér alveg svakalega lifandi, en ég var auðvitað ansi fljót að átta mig á því að ég gat svo sem ekki hafa séð hana nema bara í hausnum mínum og það er dálítið magnað því ég er með alveg rosalega bíómyndarlegt atriði með henni í mínum haus. Fyndið hvað maður getur meikað heilu bíómyndirnar á meðan maður er að lesa. Spurning að fara að gera eitthvað úr því eins og Baltasar Kormákur, ég gæti kannski bara orðið ógisslega fræg líka.
En þá að neikvæðninni. Maður verður auðvitað að nöldra eitthvað! Það er þetta með karlakórinn. Mér fannst fyrstu tvö lögin ekkert smá flott. Bara alveg topp tónlist sem passaði við efnið eins og flís við rass. Sofðu unga ástin mín var töff en ennþá töffaðara var Til eru fræ. Það magnaðasta við Til eru fræ var að textinn studdi svo hrikalega vel við það sem var að gerast í myndinni en textinn var samt ekki sunginn. Þannig að í staðinn fyrir að orðin væru að tengjast myndmálinu þá var það tilfinningin í laginu, sem við kunnum öll svo vel, sem gjörsamlega hóf atriðið upp til hæstu hæða. Ég fékk alveg rosalega gæsahúð og kökk í hálsinn og tár í augun og guð má vita hvað. Fæ ennþá alveg í magann af því að hugsa um þetta. EN, þá var líka nóg komið af kórnum fyrir minn smekk, og reyndar fleiri veit ég. Það slapp samt alveg fyrir horn fyrir hlé, en eftir hlé þá bara bara allt sett í botn og mér leið stundum eins og ég væri bara komin til Finnlands eða eitthvað, það bara setti að manni hroll í þessu blákalda umhverfi með kórinn alveg í botni. Svo þegar lengra leið á seinni helming þá var ég hreinlega bara eiginlega alveg komin með ógeð á þessum kór. En inn á milli kom stundum líka bara einhver önnur tónlist sem mér fannst bara flott og hefði að ósekju mátt taka meiri tíma á kostnað kórsins. Þegar ég sá síðan kreditlistann þá var þar eitthvað lag með Dr. Spock, það reyndist mér alveg ómögulegt að rifja upp í hvaða senu það var, svo ég auglýsi hér með eftir þeim upplýsingum.
Hitt sem ég ætla að röfla yfir var maturinn. Hvað var þetta með matinn??? Af hverju var nánast allt sem fólk lét upp í sig í þessari mynd viðbjóðslegt? Sakleysislegir hlutir eins og núlur var viðbjóðslegur þegar löggudruslan var að éta þær. Það eina sem vakti ekki einhverja klígju hjá mér var kjötsúpan, en það þarf nú örugglega mikið til að kjötsúpa, sem er besti matur í öllum heiminum, veki hjá mér viðbjóð. Mér fannst þetta alla veganna eitthvað mjög svo undarlegt þema að hafa matinn svona áberandi í myndinni. Ekki endilega svo slæmt, ég bara skil ekki alveg hver var tilgangurinn með því.
Æji, ok, kannski bara eitt smá röfl í viðbót. Ég verð að viðurkenna að karlrembubrandararnir ýttu aðeins við femínistanum í mér. Ekkert svo harkalega sko, enda er femínistinn í mér ekkert neitt sérlega viðkvæmur. En hann er samt dálítið viðkvæmur fyrir því að það sé verið að styrkja ójafnrétti kynjanna með því að nota kvenlýsingar sem niðurlægingartól. Það var sem sagt þetta með að þessi og hinn væri kélling sem ég myndi amk vilja benda Baltasar á að hvort sem okkur finnst þetta fyndið eða ekki (ég skal alveg viðurkenna að ég hló og fannst þetta fyndið) þá eru það hlutir eins og almennt talmál sem í raun styrkja og styðja þau karllægu gildi og viðmið sem ríkjandi eru í samfélaginu. Og svo (þetta flokkast sem sama röflið af því að ég gerði ekki greinarskil!) fyrst ég er komin á þetta með að hugsa afleiðingar orða sinna, þá kæmi mér ekkert á óvart þótt einhverjum fyndist sárt að horfa upp á að það sé verið að grínast með nauðganir. Þarna komum við líka inn á sama atriðið, þ.e. að styrkja neikvæð viðhorf í samfélaginu með því að gera lítið úr þvílíku voðaverki sem nauðgun er. Ég er sko ekki að segja að það meigi ekki segja kélling eða gera djók með nauðgun. Ég er bara að segja að það ætti að vera meðvituð ákvörðun að gera það og ég er ekki svo voðalega viss um að Baltasar langi til þess að ýta undir kúgun kvenna í samfélaginu því ég hef af ýmsum ástæðum fulla trú á að hann kjósi jafnréttissamfélag en þetta sé einfaldlega hugsunarleysi og það er það svo oft, því miður.
Ég set Mýrina í 6 sætið yfir bestu íslensku myndirnar, á eftir Nóa Albinóa, Englum alheimsins, Sódómu Reykjavík, Hlemmi og Ungfrúnni góðu og húsinu.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2006 | 13:49
Eftir að hafa eytt smá tíma í að lesa mér til á ve...
Því er enn sem komið er ekki unnt að meta hlutverk hrefnustofnsins í íslenska vistkerfinu og áhrif hans á afkomu fiskistofna við landið. Frumtilraunir með fjölstofnalíkani benda þó til að breytingar á stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu þorskstofnsins hér við land til lengri tíma litið.( http://www.hafro.is/hrefna/saga/faeda.htm)
Niðurstaðan er sem sagt sú að ekki er búið að rannsaka nákvæmlega áhrif stærðar hvalastofnsins á þorskstofninn en allt bendir til þess að þau séu nokkur. Ástæðan fyrir alþjóðlega hvalveiðibanninu 1986 var sú að nota átti þann tíma til að einbeita sér að því að rannsaka hvalastofnana til þess að koma í veg fyrir ofveiði, þrátt fyrir að vitað væri að alls ekki væri hætta á ferðum með allar tegundir hvala.
Þetta var sem sagt forvarnaraðferð. Sem er frábært! Ekki oft sem mannfólkið hefur vit á því að taka sig saman um að beita forvörnum, en leiðinlegt að það skuli þá þurfa að ganga út í þessar öfgar. Ég verð þó að taka það fram að mér finnst svo sem ekkert óeðlilegt að dýraverndunarsinnar hafi panikkað. Í ljósi þess hversu óvenjulegt það er að þjóðir heims taki sig saman með svona gáfulegum hætti er ekkert undarlegt að dýraverndunarfólkið hafi fengið taugaáfall og bara: ómægod það er eitthvað mjög undarlegt á seyði og þannig hefur þetta undið upp á sig.
Það sem mér finnst hinsvegar undarlegt er að það skuli nú ekki vera hægt að ræða þessi mál á vitrænan hátt með rökum. Því ég hef bara hreinlega ekki heyrt eina einustu umræðu um þetta í fjölmiðlum sem vísaði í einhverjar rannsóknir eða álíka rök. T.d. hlustaði á ég miðvikudaginn í síðustu viku á rás2 á umræður Árna Finnssonar, talsmanns náttúruverndarsamtakanna og Friðriks Jóns Arngrímssonar, formanns LÍÚ þar sem hvorugur þeirra rökstuddi mál sitt. Þegar þáttastjórnandinn spurði Árna hver væru rökin gegn hvalveiðum sagði hann að rökin væru sú að það væri ekki markaður fyrir kjötið á Japansmarkaði og það eina sem Friðrik sagði á móti var að spyrja Árna hvort, ef það kæmi í ljós að hægt væri að selja kjötið eins og hann taldi sig hafa einhverjar heimildir fyrir, hann myndi þá skipta um skoðun og vera fylgjandi hvalveiðunum og Árni endurtók þá fullyrðingar sínar um að enginn markaður væri fyrir kjötið og Friðrik spurði hann þá aftur hvort hann myndi skipta um skoðun ef í ljós kæmi að hann hefði rangt fyrir sér. Þetta var reyndar dáldið fyndið í nokkrar sekúndur þangað til maður fattaði að þeir ætluðu sér að vera í þessum sandkassa út viðtalið. Friðrik sagðist reyndar hafa fyrir því ákveðnar heimildir að markaðurinn væri til staðar en hann nefndi ekki neitt hvaða heimildir eða rannsóknavinna væri þarna að baki. Ég verð nú að segja að Friðrik kom ansi mikið betur út úr viðtalinu þar sem Árni varð strax mjög æstur og í stað þess að ræða málin á vitsmunalegum nótum þá sló hann fram einhverjum frekar tilfinningatengdum frösum eins og t.d. að LÍÚ væri greinilega bara í herferð gegn hvölum. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að hlusta á fólk í opinberum stöðum eða sem talsfólk samtaka reynist ófært um að ræða við fólk sem það er ósammála á vitsmunalegan hátt.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 09:03
Airwaves fjórir Ég ætla að byrja á því að drulla...

Airwaves fjórir
Ég ætla að byrja á því að drulla yfir skipulagninguna á Airwaves! Það er alltaf þannig á laugardagskvöldinu að í Hafnarhúsinu er eitthvað rosa vinsælt band að spila sem margir hafa mikinn áhuga á að sjá og það er alltaf lænað upp einhverju viðbjóðslegu drasli á undan því og fólkið sem er æst í að sjá stóra bandið og er skaðbrennt af biðraðastemmningunni það lætur sig hafa það að hanga þarna yfir einhverju rusli þangað til alvöru stöffið byrjar. Þetta er ekki gott mál. Hvorki fyrir hátíðina, listamennina eða tónleikagestina.
Kvöldið byrjaði þó vel. Daníel Ágúst fór fram úr væntingum hjá mér og veit ég fleirum. Ég bjóst við að hann myndi taka sama artífartístöffið sem hann var með á plötunni sinni, sem var nú svo sem ekkert svo slæmt en ekki beint eitthvað sem ég var spennt fyrir. En hann var bara í rokkaragírnum og það var bara fín stemmning. Hann er líka svo svakalega góður söngvari og röddin fékk alveg að njóta sín ljómandi vel, stundum fékk maður líka bara rosa Nýdanskrarflassbakk og það var nú bara gaman. Ég ætla nú samt ekki að fara að hrósa tónlistinni neitt sérstaklega því hún var nú ekki sérlega frumleg myndi ég segja en Daníel Ágúst er sko með sviðsframkomuna á hreinu og hann var bara megatöff og kom manni í góðan gír.
Á eftir Daníel kom svo Pétur Ben. Hann var alveg að gera sig ágætlega, góður kraftur í honum og hann náði alveg að rokka pleisið en bara vegna þess að tónlistin hans er ekki fyrir minn smekk þá fannst mér þetta bara svona sæmilegt. Hef samt séð hann performa tvisvar áður og þetta var það langbesta sem hann hefur sýnt mér.
Úff úff úff úff. Ég veit varla hvort ég teysti mér til að skrifa um næsta atriði. Það var alveg hrikalega slæmt. Versta moment sem ég hef nokkurntíman séð á Airwaves og ég vona að botninum sé náð og ég muni aldrei sjá neitt sem kemst nálægt því að vera jafn hallærislegt og lélegt og Biggi (í Maus). Hann var búinn að finna sér hljómsveitarmeðlimi í útlandinu (UK held ég) og það var nú ábygginlega alveg fínasta hljóðfærafólk. Þetta leit líka bara gríðarlega spennandi út, fullt af fólki á sviðinu, harmónikka, eplatölva, kúabjalla, fiðla og fleiri spennandi hljóðfæri. EN svo fór Biggi að syngja. Það var bara alveg slæmt. Mér finnst hann alls ekki vera góður söngvari og þótt röddin hans hafi notið sín mjög vel í sumum Maus lögum þá var hún mjög leiðigjörn þar til lengdar og það sama er í gangi þarna. Söngurinn stórskemmdi tónlistina sem var nú ekki mjög heillandi fyrir. En það versta er enn eftir! Ef manni fannst ekki nógu slæmt að hlusta á einhverja ómótaða tónlist með glötuðum söng þá bætti Biggi um betur með því að dansa með einhverjum rosa spastískum handahreyfingum og ef það var heldur ekki nóg til að maður yrði grænn í framan þá setti hann lokahnykkinn á atriðið með því að vera í þröngum hlýrabol sem sýndi björgunarhringinn hans mjög vel og greinilega og sýndi líka fram á þá staðreynd að Biggi hefur ekki verið duglegur við að halda kassanum í formi því svei mér þá hann var brjóstastærri en sumar gelgjurnar sem ég sá síðan á Kaiser chiefs atriðinu (talandi um 20 ára aldurstakmark sem mér skildist að hefði verið á hátíðinni en greinilega ekki mikið praktíserað). Úff smúff púff, ég ætla bara ekki að ræða þetta atriði meira og með því að skella hér inn mynd af herlegheitunum vonast ég til að myndin í huga mínum þurrkist út, því hún er verri en nokkur ljósmynd sem ég náði af atriðinu.
Leaves voru næstir á dagskrá. Þeir voru jafn leiðinlegir og þeir voru á sama stað og sama tíma (hvaða klíkuskapur er það?) árið 2004. Mér finnst þessi hljómsveit svo óáhugaverð að ég vona bara að þeir fari að meika það feitt erlendis mjög fljótt svo þeir þurfi ekki endalaust að vera að troða sér inn á Airwaves til að reyna það. Ég á aldrei eftir að fyrirgefa Travis fyrir að geta af sér svona leiðinlega eftirlíkingu.
Brandari kvöldsins var næstur (Biggi var ekki brandari því það var svo langt frá því að hægt væri að hlæja að honum). Það var hljómsveitin Cribs. Einhverjir höfðu nú einhverntíman heyrt um þetta band en það var mjög greinilega enginn þarna á staðnum sem var í einhverri stemmningu fyrir þá. Það fannst þeim rosalega fúlt og sérstaklega gítarleikaranum sem var nú örugglega eitthvað geðvondur fyrir giggið en með hverju laginu og vaxandi klapp- og hrópskorti þá varð hann fúlli og fúlli. Hann sparkaði míkrófónstandinum sínum nokkrum sinnum niður í geðvonskunni og hrækti á sviðið eins og einhver unglingsgelgja og ég verð að viðurkenna að ég sá ekki mikið til hinna meðlimanna tveggja vegna þess að fyrir það fyrsta var ég svo hrikalega upptekin af því að skemmta mér stórkostlega við að fylgjast með vaxandi frústrasjón gítarleikarans og fyrir það annað þá þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að hafa af honum augun því ég var alveg viss um að hann myndi hrækja yfir áhorfendurnar áður en yfir lyki og ég ætlaði sko aldeilis að vera tilbúin að beygja mig fyrir aftan gelgjuna sem stóð fyrir framan mig til að fá ekki viðbjóðinn á mig. Síðan þökkuðu þeir fyrir sig með þeim penu orðum: "thank you assholes" sem reyndar hefði verið betur við hæfi að hann bara segði það sem hann var pottþétt að hugsa sem var án efa: "fuck you assholes". Ég er samt ekkert svo hissa á því að hann hafi verið svona svekktur því það sást langar leiðir að hann var alveg að leggja sig allan fram við sönginn og hljóðfæraleikinn og ég virði hann fullkomlega fyrir það, jafnvel í síðasta laginu þá var hann ekkert að slaka á, svo í lokin þá var hann bara eitthvað að fríka út og sargaði gítarnum við magnarann á milli þess sem hann juðaði honum upp við bassann og ég held að hann hafi verið að reyna að fá voða fídbakk í gang til að það myndi fara að blæða úr eyrunum á okkur mjög svo vanþakklátu áheyrendum, alla veganna var þetta ekki alveg sama þeing og maður hefur frétt af hjá Jimi Hendrix sem hreinlega spilaði á feedbakkið. Og já, tónlistin þeirra var leiðinleg.
En þá var nú loksins röðin komin að því sem hjá mér var hápunktur Airwaves 2006 stuðlega séð. Það voru sem sagt Kaiser Chiefs sem voru næstir á svið. Ég held þeir hafi nú verið eitthvað svoldið trekktir vegna viðtakanna sem fyrirrennarar þeirra fengu en það var nú annað uppi á teningnum þegar alvöru rokkararnir voru komnir í málið. En samt vantaði heilmikið upp á stemmninguna í Hafnarhúsinu. Ég var nánast alveg upp við sviðið og það var sko enginn troðningur í gangi þar, maður snertist ekki einu sinni við næstu manneskju. Ég hef bara aldrei upplifað þvílíkt troðningsleysi á tónleikum af þessari gráðu. En það var nú bara ágætismál því þá var náttla bara meira pláss fyrir mig að dansa og hoppa eins og freðinn fáviti sem ég og gerði af mestu list. En það var samt dáldið leiðinlegt að fólkið í kring um mig var voða deyfðarlegt eitthvað, mjög fáir að hreyfa sig eitthvað. En söngvarinn kunni nú heldur betur ráð við því. Hann tók þetta rosalega fína stagedive og bara lét sig flakka og treysti á að fólk myndi hópast að sviðinu til að bera hann. Sem og gerðist! Og svo tók hann þetta aftur og stóð síðan uppi á grindverkinu sem hélt skaranum og skarinn hélt við fæturnar á honum svo hann missti ekki jafnvægið. Þetta var bara rosalega töff og svínvirkaði til að keyra upp stuðið. Svo heimtaði hann að allir settu hendurnar upp í loft og gafst ekki upp fyrr en meira að segja gelgjan litla fyrir framan mig setti hendurnar upp í loft. Svona á að gera þetta!! Ekkert að gefast upp þótt það sé léleg stemmning í salnum. En hann náði samt ekki að fá allan salinn til að öskra "thank you Cribs" eins og hann reyndi, það var meira bara svona uml. Hehe, dáldið fyndið að vera eiginlega bara skammaður af einni hljómsveit fyrir að fíla ekki aðra hljómsveit.
Eftir rokkið lá síðan leiðin yfir á Gaukinn þar sem Hairdoctor var að ljúka sínu giggi. Hann var hressandi eins og venjulega. Daníel Ágúst var meira að segja að taka lagið með honum þegar ég kom og svo var hann með einhverjar tvær gellur á sviðinu og dj og seinna lagið sem ég heyrði var remix af laginu All those beautifull boys með hljómsveitinni Reykjavík og þá brá sér á sviðið með honum gaur sem ég held að sé söngvarinn í í hljómsveitinni Reykjavík en það er óstaðfestur hugaróri ennþá. Þetta var tjútt og kom manni vel í gírinn fyrir áframhaldandi djamm og gleði (sem endaði síðan kl 06:30 í morgun)
Á eftir Hairdoctor kom hljómsveitin Spectrum sem mér fannst dauðleiðinleg enda ekki alveg minn tebolli þar á ferðinni en ég mun ekki fjölyrða meira um það hér þar sem þessi færsla er við það að fara á hliðina af neikvæðni.
Svo bíður maður bara spenntur eftir Airwaves 2007 - vúppí
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.5.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar