Airwaveskvöld #3 Ég vaknaði skelþunn í morgun. ...



Airwaveskvöld #3

Ég vaknaði skelþunn í morgun. Þunn af að standa í öllum þessum fjandans reyk. Mikið hlakka ég til þegar búið verður að banna reykingar á skemmtistöðum. Ég var í letikasti í allan dag og langt fram á kvöld og sparkaði mér ekki niður í bæ fyrr en um kl 22. En það var svo sem önnur ástæða fyrir því. Það var hreinlega ekkert á Airwaves sem ég var eitthvað sérlega spennt fyrir að sjá. Nema Wolf Parade. Það var einfaldlega vegna þess að það var ekkert á dagskránni sem mér þótti eitthvað kitlandi sem ég var ekki búin að sjá áður og flest var ég búin að sjá oft áður. En ég sem sagt náði að sparka mér niður í bæ og var komin á Gaukinn rétt áður en Mammút byrjuðu að spila. Mammút er eiginlega uppáhalds íslenska hljómsveitin mín. Mér er það mjög eftirminnilegt moment þegar ég sá þau fyrst í Tjarnarbíói á menningarnótt 2004 og bara Vá! Síðan er ég búin að sjá þau örugglega amk 10 sinnum og búin að hlusta á diskinn þeirra svona 200 sinnum. Þannig að ég var ekkert að missa mig af spenningi yfir að sjá þau í kvöld. En ég er voða fegin að ég gerði það því þau spiluðu 3 glæný lög sem voru bara ansi hreint góð og rosa gaman að heyra þau. Sérstaklega af því að þetta er svona einhvernvegin gæluhljómsveitin mín og ég yrði voða svekkt ef þau myndu staðna áður en þau komast almennilega á kortið, því ég er alveg pottþétt á því að þau eiga eftir að verða mjög þekkt einhverntíman ef þau halda rétt á spöðunum.

Við Jóna stóðum einhversstaðar vinstra megin við sviðið og það var endalaust ráp á fólki fyrir aftan okkur á meðan Mammút var að spila og varla að maður gæti einbeitt sér að því að horfa og hlusta á þau því fólk var endalaust að hrinda manni til. En við stóðum við hliðna á tveim bandarískum strákum og þeir fóru eitthvað að tjatta við okkur. Við færðum okkur svo öll aðeins nær miðjunni til að vera ekki þarna á göngustígnum þegar Jeff Who? færu að spila. Þá fóru þessir slísí náungar þvílíkt að reyna við okkur og guðminngóður hvað Bandaríkjamenn eru alltaf eitthvað feiklegir finnst mér. Svo þegar Jeff Who? voru að koma sér í gang þá myndaðist rosa troðningur þarna fyrir framan sviðið og annar slísígaurinn var gjörsamlega með hendina út um allt á mér og var þvílíkt að nudda sér utan í mig. úff þvílíkur perraviðbjóður. En mér tókst að færa mig frá honum og svo fóru þeir félagar stuttu seinna sem betur fer.

Á eftir Mammút komu Jeff Who? og það var svipuð stemmning hjá mér með þá, búin að sjá þá svo oft að ég var einhvernveginn bara ekkert sérstaklega spennt fyrir þeim. En það var samt rosalega gaman. Þeir eru svo voðalega hressir og mér finnst lögin þeirra alveg bara ljómandi hreint góð. Þeir tóku öll bestu lögin sín og það var nú alveg rosa stuð, þó ég reyndar hafi gert ráð fyrir að það yrði ennþá meira stuð og hopp og stemmning minnug þess hvernig þeir gerðu allt kreísí á Reykjavík Tropic. En þeir spiluðu líka nýtt lag og það fannst mér eiginlega bara frekar mikið prump. Það var bara eitthvað eitís týpískt lag sem var bara eins og svo mörg önnur svoleiðis lög og bara frekar þreytt.

Þá var nú röðin komin að hápunkti kvöldsins, Wolf Parade. Þvílíkur og annar eins troðningur sem skapaðist þarna. Það komu einhverjir gaurar sem bara ruddust inn á miðjuna og maður bara varð að láta sig berast þangað sem maður ýttist, sem var nú sem betur fer í mínu tilfelli alveg upp að sviðinu og þar náði ég að skorða mig milli tveggja drengja sem voru upp við grindverkið svo mér varð ekki haggað eftir það og ég hafði algjörlega frábært útsýni yfir hljómsveitina. Það er einmitt eitt sem mér finnst svo mikilvægt á tónleikum, það er að sjá hljómsveitina, að mínu mati eru tónleikar bara hálf ánægjan ef maður sér ekki hljómsveitina og því betur sem ég sé því hressari er ég með upplifunina. En já, Wolf Parade. Þeir voru mjög fínir og það var alveg rífandi stemmning í áhorfendaskaranum og þá sérstaklega hjá þessum strákum sem höfðu ruðst þarna inn á miðjuna því þeir voru greinilega miklir aðdáendur og kunnu hvert orð í öllum textunum og voru bara alveg að missa sig af stemmningu yfir að vera staddir á þessum tónleikum. En það er svo undarlegt með það að hljómsveitin náði einhvernvegin ekki að halda stemmningunni sérstaklega vel. Þeir voru einhvernveginn ekkert mikið í sambandi við áhorfendurna. Það er eitthvað sem mér finnst vera voða mikið atriði á tónleikum líka, þ.e. að hljómsveitin interacti við áhorfendurna eða líka bara að maður sjái að tónlistarmennirnir hafir rosa gaman að því sem þeir voru að gera. En það var eiginlega hvorugt í gangi hjá Wolf Parade. Því miður.

Ég var dáldið í stemmningunni fyrir að fara heim að sofa þegar hér var komið sögu en við Gunna ákváðum að herða okkur upp og kíkja á Þjóðleikhúskjallarann. Þar var hljómsveitin Shadow Parade að láta ljós sitt skína en þeirra sérlegi styrkleiki virðist liggja í því að vera ótrúlega góðir í að herma eftir Radiohead. Þetta var ekki svo slæmt til að byrja með en með hverju lagi varð þetta meiri Radiohead eftirlíking þangað til mér fannst þetta hreinlega bara vera farið að verða heldur neyðarlegt og skellti mér bara á barinn til að þurfa ekki að hlusta á meira.

Lokaatriði kvöldsins var síðan söngkonan Trost og hún var með hljómsveitina New years eve með sér. Hún valsaði inn á sviðið með rauðvínsflösku í hendinni og það var dáldið eins og hún væri búin að drekka meirihlutann af innihaldinu því hún virtist eiga eitthvað erfitt með jafnvægið. Hún var rosalega flott gella með risastór brjóst en mjög grönn að öðru leyti og í svaka flottum kjól sem var alveg að flattera vöxtinn hennar. Tónlistin var mjög áhugaverð, minnti mig eitthvað dálítið á Fiery Furnaces, en samt ekki mikið, en samt eitthvað smá. Síðan held ég nú reyndar að hún hafi verið að feika það að vera svona full og það finnst mér bara dáldið töff. Greinilega smá sjóv í gangi hjá gellunni. En ég var bara orðin svo sybbinbibbin að ég geyspaði ótakmarkað þarna og ákvað í samráði við Gunnu að skella mér bara heim og hér er ég og mynd kvöldins er af Mammút :)

Jæja, þá er Airwaveskvöldi númer 2 lokið og þótt é...

Jæja, þá er Airwaveskvöldi númer 2 lokið og þótt ég sæi ekki eða heyrði eina einustu tónleika í viðbót myndi ég ekki sjá eftir einni krónu af miðaverðinu því þetta kvöld var algjörlega frábært og ég ætla að biðja alla um að gera mér þann greiða að ef það heyrist einhverntíman eftirfarandi setning af vörum mínum "nei ég ætla ekki á Airwaves" að byrja á því að öskra á mig eins hátt og viðkomandi getur: "Ertu algjörlega búin að missa vitið kerling" og slá mig síðan þrisvar sinnum utanundir hvoru megin og segja síðan: "MANSTU EKKI EFTIR 19. OKTÓBER 2006" og ef ég fer bara að bulla eitthvað um að ég eigi ekki pening eða bara einhverja aðra leim es afsökun þá má eiginlega bara henda mér í ruslið.

En ok, áfram með smjörið.

Ég var mætt niður á Nasa á slaginu átta og stuttu seinna fór Lay Low að spila og syngja. Ég hafði gríðarlegar væntingar til dömunnar því ég er búin að bíða ógeðslega spennt eftir því að komast á tónleika með henni frá því að ég heyrði lagið Please don´t hate me á Myspace síðunni hennar og ég er búin að bíða nánast jafn lengi eftir því að hún gæfi út disk. En nú er biðin á enda, ég fór á tónleika með henni í kvöld og hún gaf einmitt út disk í dag. Hún stóð algjörlega undir væntingum. Tónlistin hennar er frekar einfaldur og hefðbundinn blús sem hún spilar á kassagítar en er ótrúlega hressandi þrátt fyrir að vera hefðbundin, en hún var með hljómsveit með sér og það var nú alveg það sem setti punktinn yfir i-ið því við það urðu lögin enn betri. Það var dálítið eins og röddin hennar væri ekkert sérlega sterkbyggð en það getur líka verið af því að hún væri eitthvað aum í hálsinum, vona það amk svo hún geti haldið áfram að syngja bæði vel og lengi og ég hlakka mikið til að heyra diskinn sem ég mun væntanlega fjárfesta í á næstu dögum :)

Síðan lá leiðin yfir á Gaukinn og þar var ég það sem eftir var kvöldins. Fyrst sá ég þar hljómsveitina Skakkamanage sem ég var einmitt mjög spennt fyrir að sjá og það var alveg skemmtilegt. Þau eru ein af þessum hljómsveitum sem sanna það að það er ekkert endilega nauðsynlegt að vera með fullkomna hljóðfæraleikara til að tónlist geti verið góð, það getur verið alveg jafn gott að vera bara í rosa góðu stuði og skemmta sér. Það virkaði alla veganna alveg ljómandi vel hjá þeim, þó hefði reyndar verið mjög gaman ef söngvararnir hefðu verið betri, sérstaklega aðalsöngvarinn. En það er eiginlega dáldið þema kvöldsins hjá mér, að kvarta yfir söngvurunum. En ég væri amk mjög til í að tékka á þessum diski sem þau eru nýbúin að gefa út (myndi samt ekki borga háar upphæðir fyrir hann eftir þessa kynningu sem ég fékk í kvöld) og væri líka alveg til í að sjá/heyra þau aftur á tónleikum.

Hann Þórir sem er svo krúttaralegur og söng Hey Ya lagið svo voðalega fínt var næstur á dagskránni með hljómsveitinni sinni My summer as a salvation soldier. Ég verð nú að segja að ég var ekki hrifin, bara alls ekkert hrifin. Eiginlega hefði ég gjarnan viljað sleppa því að sjá hann eða þá að hann hefði sungið Hey Ja 5 sinnum í röð frekar en þessi, að mér fannst, nauðaómerkilegu lög með þessari rödd sinni sem var svo ofsalega krúttaraleg og sæt á Airwaves í hitteðfyrra en er bara alveg óþolandi svona til lengdar.

Svo kom Eberg sem ég hafði barasta aldrei heyrt getið áður en bara svona til að giska á eitthvað þá giskaði ég á að hann myndi rappa - sem hann gerði bara alls ekki. Þetta var alveg ágætis tónlist, reyndar eitthvað eitt lag sem er víst búið að vera í einhverri spilun í útvarpi (amk rás2) en mér fannst langversta lagið af þeim sem hann spilaði, skil ekki alveg lógíkina í því hm... En hann var með einhverja dömu með sér og hún var bæði hot og spilaði á selló og söng rosa vel líka og svo var trommari með í för og þetta var allt saman hin hressasta og dansvænasta tónlist og maður var bara farinn að dilla sér ansi vel eftir stutta stund. En þetta er ekki tónlist sem situr eitthvað eftir hjá mér og ég mun ekki berjast neitt hart fyrir því að komast á tónleika með þeim aftur, nema náttla ef þau væru t.d. að spila einhversstaðar á föstudags eða laugardagskvöldi þá myndi ég alveg vera til í að fara í stutt pils og fleginn bol og fá mér nokkra bjóra og skella mér í djamm- og dansgírinn.

Eftir stuðið með Eberg skelltum við Gunna okkur með Snorra Páli og vinkonu hans upp á efri hæðina og settumst aðeins og tjilluðum og ég fékk mér bjór sem var Tuborg í dós og kostaði 600 KRÓNUR, sjitt hvað það er dýrt að drekka áfengi maður!!

Datarock lofuðu ekkert smá góðu þegar þeir þeystu inn á sviðið allir eins klæddir í rauðum æfingargöllum. Þeir voru líka rosalega hressir og ég hélt bara áfram að vera í dansstuðinu en það dalaði reyndar aðeins svona eftir ca 3 lög því þá var tónlistin þeirra nú orðin hálf þunn eitthvað. En þeir voru áfram í ógeðslega miklu stuði og eins og oft áður þá var það bara alveg glimmrandi gott mál og nægði algjörlega til að halda mannskapnum í stuðinu og stemmningunni. Ég datt reyndar aðeins úr gírnum þegar þeir spiluðu alveg hræðilega asnalegt lag sem hét því hryllilega hallærislega nafni Ur-anus. Ég hafði bara alveg hrikalega ekki húmor fyrir þessu. Úff púff. En eftir þann hrylling héldu drengirnir áfram að vera í stuði og ég bara djoinaði og datt í stuðið og dansiballigírinn. Þeir slúttuðu síðan með því að spila lagið I´ve had the time of my life úr Dirty Dancing og það var nú bara alveg til að koma mannskapnum í fluggírinn í stuðgírnum og það var alveg ljóst að Datarock höfðu fílað sig rosa vel enda sögðu þeir að þetta yrðu bara síðustu tónleikarnir þeirra því þeir væru búnir að bíða svo lengi eftir að fá að spila í Reykjavík að núna væru þeir búnir að ná missioninu og gætu bara hætt að spila. Já þeir voru sko alveg með stuðið á hreinu.

En þá er nú komið að hápunkti kvöldins og hápunkti þótt víðar væri leitað. Þetta var eitt af þessum skiptum þar sem tónleikar eru eitthvað miklu meira en tónleikar. Eru upplifun. Þetta hefur gerst í bæði skiptin sem ég hef farið á tónleika með Sigurrós og ég á ekki von á því að nokkuð band komist nálægt því að toppa það. Ég var alveg búin að hlusta á diskinn sem ég á með The whitest boy alive ansi oft og var að fíla hann ansi vel en ég bjóst nú ekki við neitt sérlega mikilli tónleikastemmningu hjá þeim vegna þess að tónlistin er svo svakalega létt eitthvað. Þetta er einhvernveginn svona fullorðins tónlist. Gæðatónlist. Þeir eru alveg óhemju góðir hljóðfæraleikarar og tónlistin líður áfram eins og lækur, átakalaust einhvernveginn. En guð minn góður. Þvílík upplifun að vera á þessum tónleikum. Ég hefði getað verið þarna í alla nótt að hlusta á þessar svakalega vel spiluðu tónlist sem hljómaði svona um það bil 500 sinnum betur þarna á Gauknum heldur en hún gerir í stofunni minni. Svo var líka alveg greinilegt að þeir drengir voru að skemmta sér alveg rosalega vel við að spila. Reyndar leit ekki alveg svo vel út með trommarann í byrjun því hann var eitthvað voðalega ósáttur við hljóðið hjá sér og var bara eitthvað að fríka út í einhverri geðvonsku annað slagið og meira að segja einu sinni þegar áhorfendurnir voru að klappa voða mikið með þá fór það eitthvað geggjað í taugarnar á honum og hann var eitthvað að reyna að benda fólki að hætta að klappa en enginn hlýddi því og á endanum þá hætti bara gaurinn að tromma og stóð upp og sagði liðinu að halda kjafti. Þetta var alveg rosalega spes. En tónlistin, ómægod, tónlistin. Þetta er hreinlega bara ástæðan fyrir því að tónlist var fundin upp. Það er bara eitthvað alveg unaðslegt við það að hlusta á svona vel spilaða tónlist . Plús að það var nú líka heilmikið stuð í henni, sérstaklega kannski þegar Eberg og Datarock voru búin að hita mann svona vel upp í dansigírinn.
Það er yfirleitt þannig hjá mér á morgnana að þegar ég kem úr sturtunni þá set ég einhverja frekar hressandi tónlist á og á meðan ég er að greiða mér og sjæna og gera fína þá dansa ég oft dálítið mikið og mér varð hugsað til þess á tónleikunum að ef ég gæti verið með þessa gaura að spila fyrir mig inni í stofu á hverjum morgni á meðan ég væri dansandi um á naríunum með hárburstann í annarri og tannburstann í hinni þá myndi hver einasti dagur verða besti dagurinn. Það væri hreinlega bara ekki hægt annað en að vera í endalausri gleði ef dagurinn hæfist á þennan hátt (svo gætu þeir náttla tekið til morgunmatinn og svona fyrir mig í leiðinni). Það voru reyndar einhverjar fleiri fantasíur sem runnu í gegnum hausinn á mér á meðan á snilldinni stóð en ég held ég haldi þeim fyrir sjálfa mig. Mikið voðalega langar mig mikið að eiga hrikalega góðar græjur inni í stofu og geta fengið smá brot af þessari upplifun eftir pöntun. En þeir drengir í The whitest boy alive höfðu greinilega næstum jafn gaman af þessu og ég og hinir sem vorum þarna á staðnum því einn rótarinn þurfti að fara til þeirra og segja þeim að þeir mættu bara spila eitt lag í viðbót og þegar það var síðan búið þá varð allt hreinlega vitlaust og þeir voru klappaðir upp og komu og spiluðu en sögðu að við þyrftum að njóta þess á meðan á því stæði því löggan væri fyrir utan af því að þeir væru búnir að spila allt of lengi. Þetta segir dáldið allt sem segja þarf um stemmninguna sem var þarna á staðnum. Úff ég elska tónlist!

Jæja, þá er nú heldur betur kominn tími til að þu...


Jæja, þá er nú heldur betur kominn tími til að þurrka rykið af þessu bloggi og fara að skrifa eitthvað. Ég get nú varla þrætt fyrir það að vera skorpumanneskja fyrst það kemur nú bara fram hér svart á hvítu á sjálfu internetinu. En nóg um það. Það er að minnsta kosti varla til betri ástæða til að blogga en að skrifa um Loftbylgjur Íslands eða Iceland Airwaves. Mikið ofsalega voðalega er maður nú heppinn að búa akkúrat hérna í þessari borg þar sem vill svo til að þessi frábæra tónlistarhátíð er haldin.

Ég var að koma heim af fyrsta kvöldi Airwaves og það var alveg frábært og setti vonandi tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Ég var á Gauknum allan tímann og það var bara fínt, gott að sleppa við að standa í röð fyrir utan staðina og líka bara fínasta tónlist sem boðið var upp á.

Ég sá fyrst Cynic Guru sem ég var nú reyndar ekki svo mjög hrifin af. Mér finnst söngvarinn rosa góður og fiðluleikurinn mjög töff, allir hljóðfæraleikararnir gríðarlega færir en samt finnst mér tónlistin bara alls ekki heillandi. Þetta er í annað sinn sem ég sé hljómsveitina spila og ég man að ég heillaðist mjög af fyrstu mínútunum með þeim þá en svo missti ég alveg áhugann og núna er það sem sagt staðfest, þessi tónlist nær bara engan veginn til mín.

Næst var hljómsveitin Telepathetics. Og hvílík snilldarhljómsveit. Þetta er það sem gerir Airwaves svo æðislegt, maður fer til að sjá eitthvað og sér í leiðinni eitthvað sem maður var ekkert að pæla í og það slær svona svakalega í gegn. Þeir eru víst nýbúnir að gefa út disk og ég læt það verða mitt fyrsta verk þegar ég er búin að skrifa þessa bloggfærslu að fara inn á tónlistpunkturis og kaupa þennan disk.

Þá var komið að hljómsveitinni Noise, það var ansi skemmtilegt upplifelsi. 4 ungir piltar með svartan augnskugga og axlarsítt hár í svörtum fötum. Þeir voru gríðarlega vel spilandi og söngvarinn var góður og tónlistin góð en bara ekki beint fyrir minn smekk. En mér fannst þeir voða krúttaralegir samt. Þeir hafa pottþétt einhverntíman allir dýrkað Marlyn Manson út af lífinu, það er alveg hægt að bóka það.

Næst í röðinni var aðalnúmer kvöldsins. We are scientists. Ég var aðeins búin að hlusta á þá áður og var alveg að fíla nokkuð vel. Hresst breskt popp, minna svolítið á The Killers. En þeir voru nú ekki jafn góðir og ég hafði vonað en samt alls ekki slæmir, svo voru þeir svo sætir líka sem er nú algjörlega stór plús í kladdann :) En það var mikið stuð þegar þeir spiluðu aðallagið sitt en fyrir utan það þá voru þeir ekki að ná upp neinu sérstöku stuði. Sándið fannst mér heldur ekki nógu gott hjá þeim, þeir hefðu reyndar pottþétt notið sín betur í Þjóðleikhúskjallaranum því það finnst mér vera betri staður fyrir svona hljómsveit sem er ekki að skrúfa neitt allt of hátt upp í græjunum og er ekki með neitt sérstaklega sterka sviðsframkomu.

Hljómsveitin Dikta var næstsíðust á svið. Ég hafði einu sinni séð þá áður og fannst þeir mjög góðir og núna finnst mér þeir jafnvel enn betri. Ég á pottþétt eftir að kíkja á þá aftur og jafnvel mun ég ígrunda það alvarlega að kaupa nýja diskinn þeirra fyrst ég verð á annað borð að þvælast inni á tonlist.is. Ég vona bara afleiðingarnar af Airwaves verði ekki þær að ég verði gjaldþrota vegna stóraukinna útgjalda við tónlistarkaup. En jæja, það er þó ekki það versta sem hægt er að eyða peningunum sínum í ef þú spyrð mig.

Þegar Dikta var búin að spila rákumst við Jóna á Nicole sem er þýskur listamaður sem er á einhverskonar styrk hér á íslandi í nokkra mánuði. Við hittum hana í sumar á Belle & Sebastian tónleikunum á Borgarfirði og buðum henni far til Mývatns og það var ofsalega gaman að spjalla við hana og við töluðum heilmikið um tónlist. Við höfum svo nokkrum sinnum rekist á hana aftur ýmist á tónleikum eða á kvikmyndahátíðum og núna var hún með kanadískri vinkonu sinni og við notuðum tækifærið til að merkja í dagskránna þeirra hvað þær mættu alls ekki missa af og þær voru voða ánægðar með að fá svona inside info :)

Svo að lokum var það hljómsveitin Nr. Núll sem spilaði. Þeir voru góðir en heldur rokkaðir fyrir minn smekk svo við Jóna fórum bara heim að sofa (og blogga).

Jæja, á morgun kemur svo í ljós hvort ég held áfram að blogga Airwaves :)

Meðfylgjandi ljósmynd er af uppáhaldi kvöldsins, Telepathetics

Er mbl.is og Morgunblaðið sama græjan? Það er áhu...

Er mbl.is og Morgunblaðið sama græjan?

Það er áhugavert að skoða muninn á því hvernig tvær fréttir um sama efni eru unnar.

Það er gríðarlega áhugavert að skoða það hvernig mismunandi fjölmiðlar vinna úr þeim upplýsingum sem þeir fá og ákveða að koma á framfæri en það er sérstaklega magnað að það skuli vera sami fjölmiðillinn sem í þessu tilfelli virðist vera haldinn geðklofa á frekar háu stigi.




Þarna er semsagt í annarri fréttinni lögð áhersla á að að sjálfstæðisflokkurinn sé mjög nálægt því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórnarkosningunum í næstu viku, og ekkert minnst á fylgistap frá síðustu könnun en í hinni er aftur á móti lögð áhersla á að fylgi hafi tapast frá því síðast og sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur með hreinan meirihluta samkvæmt könnunum.

Meira Júrótrash Í Blaðinu í gær sagði Sigga Beint...

Meira Júrótrash

Í Blaðinu í gær sagði Sigga Beinteinsdóttir að 7 austantjaldsþjóðir hefðu komist áfram en aðeins 3 vestrænar. Mér leikur svolítil forvitni á að vita hvaða þjóð af eftirtöldum hún Sigríður telur austantjaldsþjóð: Finnland, Írland, Tyrkland og Svíþjóð. Ég giska á annað hvort Finnland eða Tyrkland. Tyrkland nær lengra austur en Finnland svo líklega er það það. Mér finnst þetta samt ansi hreint lýsandi fyrir þetta afsökunarviðmót sem ég tjáði mig um í gær.

Ég reiknaði það út í gær að efni sýnt á Rúv í tengslum við Júróvisjón nam 1060 mínútum sem jafngildir rúmlega 17 og hálfum klukkutíma. Flestar íslenskar kvikmyndir eru u.þ.b. 90 mínútur á lengd. Óstaðfestar fregnir herma að kostnaður Rúv vegna Júróvisjón sé um 100 milljónir króna. Meðalkostnaður fyrir íslenska kvikmynd framleidda á árunum 1992-2002 er 96.5 milljónir króna.
Vegna þess að ég hef allt í einu þróað með mér þennan gríðarlega áhuga á tölfræði get ég opinberað það að mínútan af Júróvisjónsjónvarpsefni er á 94.340kr en mínútan af íslenskri kvikmynd er á 1.072.222kr

Ég myndi telja mig MJÖG áhugasama um íslenska kvikmyndagerð og hugsa að ég hafi séð meirihluta þeirra kvikmynda sem framleiddar hafa verið á þessu tímabili. En ef ég á að meta það hversu mikla skemmtun ég hef af þáttöku Íslands í Júróvisjón á móti því hversu mikla skemmtun ég hef af hverri íslenskri kvikmynd sem ég hef séð þá verð ég að segja að Júróvisjón hafi vinninginn. Samt myndi ég alls ekki segja að ég sé eitthvað brjálað Júróvisjón frík sem veit allt um keppnina og helli mér út í að stúdera smáatriði í kringum hana, nei ég myndi segja að ég sé þessi almenni Jóróvisjónneytandi sem horfir á ca helming efnisins sem er í boði í sjónvarpinu og talar um þetta í tvo daga fyrir og tvo daga eftir keppnina.

Ef ég þyrfti að velja á milli þess að Ísland tæki þátt í Júróvisjón eða að það yrði einni kvikmynd minna framleitt á ári þá myndi ég án þess að blikna velja Júróvisjón. Og nú mega allir sem hafa kallað mig menningarsnobbdruslu gjöra svo vel og biðjast afsökunar á því. Ég geri mér þó grein fyrir því að auðvitað gæti myndin sem yrði ekki framleidd vegna þess að Júrótrashið hefði forgang á 100 millurnar, verið snilldarmynd á borð við Nóa albinóa eða Engla alheimsins en ég vona bara innilega að svo verði ekki og ætla að trúa því að snilldin rati alltaf upp á yfirborðið.

Áfram Júróvisjón!

Ég elska Júróvisjón Það sem ég elska mest af öllu...

Ég elska Júróvisjón

Það sem ég elska mest af öllu við Júróvisjón er að þar eru allir að reyna. Allir geðveikt að reyna. Og þar sem allir eru að reyna geðveikt er leyfilegt að gera endalaust mikið grín að þeim án þess að maður sé eitthvað vondur.

Það sem ég þoli ekki við Júróvisjón er nöldrið í íslensku þjóðarsálinni þegar við erum búin að reyna að reyna og hinar þjóðirnar búnar að ranghvolfa í sér augunum og hrista hausinn, ef þær þá á annað borð voru búnar að taka eftir því að við værum í keppninni.
Uppáhalds, ekki, setningin mín hjá nöldrurunum er: Austurevrópuklíkan er búin að taka yfir keppnina. Það þýðir ekkert fyrir okkur að taka þátt því þótt við séum með langbesta lagið eigum við ekki sjens út af þeim."
Í tilefni af þessu langar mig að benda á smá tölfræði sem ég hafði fyrir því að telja alveg sjálf

Semsagt:
Fjöldi austur-evrópulanda í Júróvisjón = 17
Fjöldi vestur-evrópulanda í Júróvisjón = 21

Fjöldi austur-evrópulanda í forkeppninni = 12 (55%)
Fjöldi vestur-evrópulanda í forkeppninni = 10 (45%)

Fjöldi austur-evrópulanda áfram í forkeppninni = 6 (60%)
Fjöldi vestur-evrópulanda áfram í forkeppninni = 4 (40%)

Fjöldi austur-evrópulanda sem ekki þurftu að vera í forkeppninni = 5
Fjöldi vestur-evrópulanda sem ekki þurftu að vera í forkeppninni = 11




Þetta segir mér að vestur-evrópsk lönd í Júróvisjón séu fleiri en þau austur-evrópsku

Þetta segir mér að hlutfallið milli austur- og vestur-evrópskra landa sem komast áfram úr forkeppninni er algjörlega hið sama og hlutfallið milli landanna í forkeppninni, innan skekkjumarka. Þ.e. ef Ísland hefði komist áfram á kostnað eins austur-evrópsks lands hefði hlutfallið farið í 50/50 sem er alveg jafn nálægt skekkjumörkunum miðað við 45/55 hlutfallið.

Þetta segir mér að í fyrra hafi vestur-evrópskum löndum gengið betur í aðalkeppninni en þeim austur-evrópsku.

Ég veit ekki hvað þetta segir Selmu Björns og hinum nöldrurunum sem hafa allar afsakanir á reiðum höndum nema það að einhver hafi ekki staðið sig.


Mér fannst Silvía Nótt standa sig illa í keppninni. Ég ætla samt ekki að útiloka að hún hafi hlotið minni tæknilegan stuðning en aðrir keppendur vegna þess að hún hafði verið svo forsjál að koma mjög illa fram við hljóðmenn og aðra tæknimenn fyrir keppnina. Mér fannst dansinn ekki vera að gera sig sérstaklega vel og sviðið fannst mér ekki töff.

Hins vegar finnst mér Ágústa Eva hafa staðið sig gríðarlega vel í keppninni. Hún hefur tekið hugmyndina um Silvíu Nótt alla leið. Hún gaf skít í allt og alla, alveg nákvæmlega eins og karakterinn hefur gert frá upphafi. Hún virti engin siðferðismörk sem fulltrúi Íslands í hinni virtu Júróvisjónkeppni, alveg nákvæmlega eins og karakterinn hefur gert frá upphafi. Hún hvikaði hvergi frá þeim persónueinkennum sem hún hafði upphaflega skapað fyrir Silvíu Nótt.

Þeir sem kusu Silvíu Nótt til að vera fulltrúi Íslands í Júróvisjón en ætluðust síðan til að hún hegðaði sér eins og Birgitta Haukdal eru algjörlega búnir að sýna það að samkvæmt þeirra gildismati er ekki gott að vera samkvæmur sjálfum sér en mjög gott að vera sellout. Þarna er ég reyndar eingöngu að vísa til fullorðins fólks yfir sjálfræðisaldri vegna þess að ég tel að börn eigi heilmikið ólært um heilindi og það að láta ekki undan þrýstingi.

Ég skil samt ekki hvernig Ágústa Eva gat fengið það af sér að valda litlu sætu börnunum sem biðu eftir henni á Esso, vonbrigðum. Ég skil geðveikt vel hvernig henni gat dottið það í hug að gefa einu af samviskulausustu gróðafyrirtækjum landsins fingurinn fyrir að hafa ætlað sér að nýta hana til gróðabralls og ég gef henni fingurinn upp (annan fingur en hún gaf Esso) fyrir það. Kannski var Ágústa búin að eiga nógu mikil samskipti við börn á þessum aldri til að vera búin að sjá hversu óendanlega frek og illa upp alin sum þeirra eru og hefur hugsað sér gott til glóðarinnar með hefndaraðgerð sem því miður bitnar ekki bara á frekjuskrímslunum heldur líka góðu, sætu, yndislegu og eðlilegu börnunum. Kannski hugsaði hún með sér að börn þyrftu einhverntíman að læra það að allir verða einhverntíman sviknir, og fundist rétt að kenna þeim það við þetta tækifæri. Hver veit.

Eníveis, þá elska ég samt Júróvisjón og finnst jafn gaman að horfa hvort sem Ísland tekur þátt eða ekki. Evrópumeistarakeppnin í að reyna!

Lýðræði Mér finn...

Lýðræði

Mér finnst oft eins og þetta lýðræði sé ekkert alveg að virka. Það að allir tölti sig af stað á fjögurra ára fresti, ef veðrið er gott og krossi við einn valmöguleika af fimm finnst mér ekki alveg vera að gera sig til þess að fólk hafi eitthvað úrslitavald yfir stjórnun landsins.

Svo er spurningin með þjóðaratkvæðagreiðslurnar, hvort það sé málið. Ég er sannfærð um að það gæti gert mjög mikið til að skapa raunverulegra lýðræði. En gallinn við það gæti svo verið að hverri kosningu myndi fylgja kosningabarátta og ekki finnst mér það nú aðlaðandi. Það að einhverjir tveir aðilar keppist um að segja frá því að þeir hafi svo svakalega rétt fyrir sér og að hinn aðilinn hafi svo svakalega rangt fyrir sér er að mínu mati óþolandi að þurfa að hlusta á. Alveg jafn óþolandi og að hlusta á krakka nágrannans rífast um leikfang hérna fyrir utan gluggann hjá mér.

En hvað ef fjölmiðlum væri treystandi til að flytja okkur upplýsingar sem væru ómatreiddar og birtar af hlutleysi? Væri þá ekki hægt að hafa mikið gagn og gaman af þjóðaratkvæðagreiðslum, ég tala nú ekki um þegar þær verða komnar á netið og þá verður hægt að kjósa bara um nánast allt og þingmenn þyrftu að flytja frumvörpin sín fyrir almenningi svo hann gæti hafnað eða samþykkt. Væri það ekki skemmtilegt? En, já ók, sennilega frekar langt í það.

Svo er spurningin hversu margir hefðu áhuga á því að kynna sér málin og taka þátt í endalausum atkvæðagreiðslum. Það er nú ekki víst að það séu svo margir. Að minnsta kosti bendir fjölmiðlamenningin okkar, sem virðist að mestu leyti ofurseld hugtakinu “meirihlutinn ræður”, til þess að flest okkar vilji frekar fylgjast með alls konar fólki takast á við ýmis verkefni í raunveruleikaþáttum, eða sjá hvað er svalt og hvað er glatað í lífstílsþáttum, eða sjá hvað er í gangi á djamminu í unglingaþáttunum, heldur en að horfa á fréttaskýringaþætti, viðtalsþætti eða heimildarmyndir.

Annars var ég eiginlega að uppgötva Rás 1 á RÚV. Ég hef reyndar lengi hlustað á spegilinn sem er reyndar bæði á Rás 1 og 2. En svo fór ég að skoða efnið á Rás 1 aðeins betur og þar er alveg hellingur af frábæru efni. Þar má sem dæmi nefna Víðsjá og Samfélagið í nærmynd. Þarna eru komnir þrír frábærir þættir á dag sem hægt er að hlusta á. Allt efnið er síðan aðgengilegt á netinu í tvær vikur. Reyndar vantar alveg að efnið sé sett á podcast en það kemur vonandi bara fljótlega.

Alla veganna, þá finnst mér að það mætti nú alveg efna til þjóðaratkvæðagreiðslu svona annað slagið. Það myndi líka hugsanlega verða til þess að fleiri fengju áhuga á því að spá meira í allskonar þjóðmálum og hugsanlega minna í svalt/glatað málunum.


Ég er að spá í þessu með tjáningarfrelsið og myndi...

Ég er að spá í þessu með tjáningarfrelsið og myndirnar af Múhammeð spámanni.

Það er mikið talað um að tjáningarfrelsið sé okkur vesturlandabúum heilagt en ég vil setja spurningamerki við frelsið til að særa tilfinningar annara.

Við erum búin að berjast mikið gegn einelti í þessu landi, bæði í skólum og á vinnustöðum ásamt því að reyna að gera fórnarlömbum eineltis það skýrt að þau eigi rétt á að vera ekki lögð í einelti. Mjög algengt er að einelti sé framkvæmt með orðum og í þessu samhengi er aldrei talað um rétt gerandans til tjáningarfrelsis. Ég get bara ekki séð muninn á þessum tveim aðstæðum. Í báðum tilfellum er verið að særa fólk með tjáningu sem hefur engan annan tilgang en að valda sárindunum.

Ég held hreinlega að það sé kominn tími fyrir okkur að endurskoða það að hafa þetta tjáningarfrelsi svona heilagt. Við hérna í þessum heimshluta erum það heppin að við búum við það að hafa stuðning frá okkar samfélagi til þess að geta tjáð okkur um það sem við þurfum að tjá okkur um án þess að það sé nokkur hætta á því að það komi illa niðri á okkur. Samfélagið er einfaldlega þannig gert að það styður tjáningafrelsi og bregst við ef reynt er að skerða það. Þess vegna held ég hreinlega að okkur sé ekki stætt á því að hrópa upp um skerðingu á tjáningarfrelsi um leið og einhver sýnir viðbrögð við því sem við höfum tjáð okkur um. Það er hægt að misnota allt og til þess að umburðarlyndi virki er nauðsynlegt að passa að það verði ekki þannig að það megi aldrei segja neitt því þá sé verið að brjóta á umburðarlyndinu. Það eru allsstaðar mörk og það er ekkert óeðlilegt við það nema síður sé. En það er auðvitað aðeins erfiðara að vera manneskjan sem segir: Hey! hér eru mörkin. Heldur en að líta bara undan og þykjast ekki taka eftir því þegar einhver fer yfir línuna. Því miður virðist það nú vera þannig að það verður æ ósvalara að vera sá sem segir stopp, og færri og færri treysta sér til að hrópa upp þegar komið er að mörkunum. Ég vona samt að það komi aldrei að því að enginn segir neitt og þeir sem eru siðsjónskertir eða jafnvel siðblindir fái að valsa um allt og troða á öllum gildum sem við sem samfélag höfum sett, bara af því að enginn er til í að vera nógu halllærislegur til að segja: Hey! þetta er ekki í lagi!

Ætla Íslendingar að láta hafa sig að algjöru fífli...

Ætla Íslendingar að láta hafa sig að algjöru fífli?

Mér er spurn í ljósi þess að allt í einu eru fjölmiðlar að segja mér að við Íslendingar séum að verða búnir að fylla upp í mengunarkvótann okkar samkvæmt Kyoto bókuninni. Ef stækka á Álverið í Straumsvík eins og áætlað er mun kvótinn verða fullnýttur. Ætlar ríkisstjórnin okkar að sækja um viðbótarkvóta? Eða jafnvel að kaupa kvóta af öðrum minna mengandi löndum fyrir hin tvö álverin sem umhyggjusöm álfyrirtæki í útlöndunum ætla hugsanlega að gera okkur þann greiða að byggja hérna??

Það ætti nú svo sem ekki að vefjast fyrir þessum mönnum að braska með kvóta, það er eitthvað sem a.m.k. Halldór Ásgrímsson veit allt um því hann kom nú bara alveg sjálfur fiskveiðakvótakerfinu upp hér á landi og hefur þénað ansi vel á því.

En það sem ég er að velta fyrir mér er hvort við Íslendingar látum félagana í ríkisstjórninni okkar komast upp með að hreina fína landið okkar verði einhver reykháfaskógur sem spúir mengun og drullu yfir allt.

Svona leit Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, á framtíð ferðamannaiðnaðarins á degi umhverfisins 25.apríl 2005:

Ferðamennska hér á landi byggir að verulegu leyti á náttúru landsins og stærstur hluti erlendra ferðamanna kemur til landsins til þess að sjá, fræðast og njóta náttúrunnar. Árið 2003 komu til landsins um 320.000 erlendir ferðamenn …. Miðað við þróun ferðamennsku undanfarin ár og áætlanir um fjölda ferðamanna til landsins næstu árin má búast við að hingað geti komið um 630.000 ferðamenn árið 2012 og allt að ein milljón árið 2020. http://umhverfisraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/697

Ég er ekki alveg að sjá þetta samræmast þeirri framtíðarsýn sem mér virðist vera fylgt hvað mest eftir af stjórnvöldum síðustu misserin sem eru að selja mengandi stórfyrirtækjum aðgang að mengunarkvótanum okkar og reyna að redda meiri kvóta til að geta selt enn fleirum aðgang.

Ég hef lengi skammast mín frekar mikið fyrir það að tilheyra þjóðfélagi sem finnst ekkert nógu gott sem það á og segir við stóru fyrirtækin þegar þau koma, iss, þetta er ekkert merkilegt, hirtu þetta bara. Þetta er þvílík gargandi minnimáttarkennd að ég fæ kjánahroll um allan líkamann innan og utan af því að vera hluti af þessari minnimáttarkennd. Og að taka við draslinu sem hinar þróuðu þjóðir eru að losa sig við, þ.e. álverunum, finnst mér alveg síðasta sort.

Það er ljóst að þjóðin í heildina er í sömu sálarkreppu og margt mannfólkið. Allt of lítið sjálfsmat, gríðarleg minnimáttarkennd og óöryggi. Þetta birtist í óeðlilegum ótta við höfnun, lítilli eða engri sjálfsvirðingu og rembulegri framkomu þess sem alltaf reynir að telja öðrum trú um að allt sé í lagi en getur á engan hátt trúað því sjálfur.

Hérna er bókun Álfheiðar Ingadóttur, eins fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar sem ein stjórnarmanna greiddi atkvæði gegn tillögu um orkusöluviðræður við Alcan. Þetta virðist vera ástæða þess að fjölmiðlar eru allt í einu farnir að tala um þennan kvóta og stöðuna á honum. Ég er nú ekki viss um að Álfheiður muni verða langlíf í stjórn Landsvirkjunar eftir þetta. Tekið af vef VG:

"Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu af eftirfarandi ástæðum:

1. Að mínu mati er Landsvirkjun alls ekki í stakk búin til að hefja umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir meðan enn sér ekki fyrir endann á byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Ljóst er að eiginfjárstaða fyrirtækisins mun versna eftir því sem líður á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og að nýjar virkjunarframkvæmdir á sama tíma munu valda enn frekari lækkun eiginfjárhlutfalls. Ekki hefur verið gerð grein fyrir því hvaða áhrif það muni hafa á lánshæfi fyrirtækisins né þeirri spurningu svarað hvort hugmyndin er að óska eftir beinum fjárframlögum auk nýrra ábyrgða frá eigendum til þessara framkvæmda.

2. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til mikils kapphlaups þriggja álfyrirtækja um síðustu gígavattstundirnar sem Kyótó-bókunin heimildar íslenskum stjórnvöldum að ráðstafa til stóriðju án greiðslu fyrir losunarheimildir. Alcan vill stækka í Straumsvík, Alcoa reisa álver á Húsavík og Norðurál í Helguvík. Stjórnvöld hafa blygðunarlaust ýtt undir þessi áform og att landshlutum saman með því að gefa öllum fyrirtækjunum í skyn að af samningum um raforkusölu geti orðið. Slíkar áætlanir eru innistæðulausar þar sem í hæsta lagi eitt fyrirtæki getur vænst þess að vera undanþegið greiðslum fyrir losunarkvóta skv. "íslenska ákvæðinu" í Kyótó-bókuninni. Verði stækkað í Straumsvík eru ekki til losunarheimildir fyrir álver á Húsavík svo dæmi sé tekið. Allt tal um annað er blekkingarleikur og lýsandi dæmi um ábyrgðarleysi stjórnvalda sem stefna leynt og ljóst að því að fara langt fram úr þeim losunarheimildum sem fyrir hendi eru."

Ég bara spyr, þarf að ræða þetta eitthvað meira?

Ég vil nú að lokum taka það fram að ég er ekki alfarið á móti virkjun vatnsfalla á íslandi en ég vil ekki hafa það að verið sé að hleypa inn í landið risastórum mengunarverksmiðjum sem önnur lönd eru að reyna að losa sig við. Ég vil virkja það sem við þurfum að virkja til eigin notkunar og ekki krónu meira en það.

Enn ein spurning sem áhugavert er að spá í er hvort við komum út í tapi eða gróða þegar búið er að reikna dæmið vegna virkjana og álframleiðslu til enda og við þann útreikning má ekki gleyma þeim áhrifum sem stóriðjuframkvæmdir hafa á gengi íslensku krónunar og þar af leiðandi öll íslensk fyrirtæki sem markaðssetja vörur sínar erlendis. Viljum við kannski bara selja raforku og mengunaraðgang? Æi, ég verð að viðurkenna að heilinn á mér byrjar að hringsnúast við það eitt að hugsa um þetta.



Ég horfði á Kastjós á Rúv í gær og þar sá ég atrið...

Ég horfði á Kastjós á Rúv í gær og þar sá ég atriði sem braut blað í fjölmiðlasögu íslendinga. Það var hann Arnþór Helgason fyrrverandi framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands sem kom fram og sýndi muninn á alvöru sterkum persónuleika og þeim töffurum sem venjulega leggja leið sína í fjölmiðla.

Það var tvennt sem hann gerði í þessu viðtali sem varð til þess að mér finnst að það ætti að sýna það í lífsleiknitímum allra skóla og fylgja eftir með útskýringum á muninum á töffaraskap og raunverulegum styrk.

Í fyrsta lagi, og það sem sjálfsagt flestir tóku best eftir, það að hann skyldi sýna tilfinningar sínar með því að fara að gráta. Það var þó reyndar ekki beint eitthvað sem hann réð við og við þekkjum það kannski flest að það getur verið erfitt að kyngja tárunum þegar þau þrýsta á. En því fleiri karlmenn sem gráta opinskátt því meiri von er til að frelsa alla karlmenn frá þeirri staðalímynd að karlmenn gráti ekki og meigi ekki sýna veikleikamerki.

En það sem mér fannst enn merkilegra er það að hann sagðist ekki vera reiður út í þá sem sögðu honum upp. Honum fannst ekki hafa verið komið vel fram við sig og hann var sár yfir því. Ef maður hefur eitthvað spáð í tilfinningum þá veit maður að reiði er undantekningalítið afleiðing af sárindum. Ef maður er reiður og spyr sjálfan sig hvers vegna maður er reiður þá rifjast það yfirleitt upp fyrir manni að það var einhver sem særði mann og í staðinn fyrir að vera sár þá verður maður reiður. Ég ætla ekki að fara út í frekari greiningu á þessu efni en það er gríðarlega spennandi að skoða þetta og velta fyrir sér. Þetta tengist líka annari mjög skemmtilegri pælingu um skilyrðingu tilfinninga. Þ.e. að mér þykir vænt um þig ef þér þykir vænt um mig og öfugt. Ef einhverjum líkar vel við okkur er mjög líklegt að okkur líki vel við viðkomandi. En Arnþór greinilega myndar sínar skoðanir sjálfur og notaði tækifærið til að þakka Sigursteini Mássyni fyrir, það sem hann taldi hafa verið, gott samstarf. Ekkert verið að breyta um skoðun þar og segja, jah, mér líkaði nú aldrei við það hvernig hann vann.

En sem sagt þá er Arnþór Helgason það sterkur persónuleiki að hann getur sýnt sínar réttu tilfinningar í fjölmiðlum og talað um þær án þess að vera að ráðast á þá sem ollu því að honum líður eins og honum líður, því hann er nógu gáfaður til að vita að það yrði ekki til góðs. Hann veit að þótt honum hafi verið hafnað þarna þá er óþarfi að taka því sem persónulegum ósigri og verða minni maður fyrir vikið því enginn gengur í gegn um lífið án þess að þurfa stundum að horfast í augu við að vera hafnað og það hefur ekkert með persónuna að gera heldur getur það einfaldlega byggst á ólíkum skoðunum og gildismati.

Ef ég myndi mæta Arnþóri úti á götu myndi ég taka í höndina á honum og þakka honum fyrir góða kennslustund í tilfinningagreind.


Annað sem mér datt í hug í sambandi við þetta er munurinn á því þegar Arnþór fór að gráta og þegar Linda Pé fór að gráta. Þegar Linda fór að gráta í viðtali hjá Sirrý einhverntíman í fyrra þá tók Sirrý í höndina á henni og klappaði henni og sagði: "svona svona, þú verður að tala um þetta." En þegar Arnþór brast í grát þá sagði Sigmar strax: "viltu að við stöðvum viðtalið?" Þetta sýnir gríðarlega vel muninn á körlum og konum þegar kemur að því að tjá tilfinningar sínar opinberlega.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband