Færsluflokkur: Bloggar
8.7.2007 | 14:51
úti í hróa - dagur 6 (föstudagur)
Föstudagurinn var dáldið spes skulum við segja. Það var auðvitað allt á floti eftir slagveður fimmtudagsins og þegar við vorum að moka okkur á fætur rétt um hádegið og allt var svo rakt og kuldalegt eitthvað þá fékk ég þessa snilldarinnar hugmynd að við ættum að fara í þvottahúsið í Roskilde bænum og þvo fötin okkar og þurrka þau og taka svefnpokana með og skella þeim í þurrkarann. Hljómar eins og góð hugmynd, eða hvað? Þegar við komum inn á þvottahúsið upp úr klukkan þrjú þá var þar alveg heill hellingur af fólki sem hafði fengið sömu hugmynd en þar sem roskilde-festival snýst að mörgu leyti um að standa í röð eftir því sem er eftirsóknarvert þá víluðum við nú ekki fyrir okkur að skella okkur í röðina enda ekki nema kannski svona 15 manns fyrir framan okkur, þ.e. í þurrkararöðinni því það var strax laust í þvottavél.
Við settum sem sagt í vél og plöntuðum Jónu í þurrkararöðina með svefnpokana og ég og Steini fórum og fengum okkur jógúrt undir tré, við ætluðum sem sagt bara að taka vaktir í þurrkararöðinni. Þegar um hálftími var liðinn ákvað ég að fara að leysa Jónu af í röðinni en Steini varð eftir úti að passa innkaupapokana okkar. Þegar ég kom inn í þvottahúsið sá ég að röðin hafði ekkert hreyfst en þvottavélin var búin svo ég tók úr henni og settist í þeytivinduröðina. Hún var ótrúlega óregluleg því hún var ekki röð heldur var ég fyrir aftan þennan sem var fyrir aftan hinn sem var á eftir enn öðrum sem stóð þarna í hinu horninu og var fyrir aftan þrjár stelpur sem sátu úti á gangstétt og voru þarnæstar. En það var nú svo sem engin ástæða til að stressa sig á því að komast í þeytivinduna þar sem þurrkararöðin var aðal problemið.
Þurrkararöðin var með sama systemi og þeytivinduröðin og það voru tvær þurrkararaðir. Ég er að segja það að verra skipulag hef ég nú bara aldrei séð. En við vorum búin að þvo **** fötin svo ekki gátum við hætt við að standa í þurrkararöðinni. Þegar klukkan var orðin sjö vorum við búin að ná þeim áfanga að vera þar þar þarnæst og þar sem hver manneskja var með í ca 2 þurrkara og hver þurrkun tók svona 20-30 mínútur, þ.e. hjá þeim sem höfðu fattað að þeytivinda, hinir tóku rúman klukkutíma. En eníveis, við komumst í þurrkarann um átta leytið og þurrkuðum fötin okkar og svefnpokana og vorum komin aftur inn á festivalið upp úr hálf tíu og þar með búin að missa af stórum hluta dagskrárinnar sem var náttla örlítið svekkjandi, en við vorum reyndar ekkert að grenja yfir þessu enda fengum við okkur nokkra bjóra á meðan á biðinni stóð og það reyndist alveg ljómandi góður veruleikaflótti :) og svo spjölluðum við líka við dáldið af fólki sem eru sjálfboðaliðar hér á hátíðinni og þau voru ansi hress með þá reynslu svo það er bara spurning um tíma hvenær maður skellir sér í þann bissness.
En við fórum á tónleika með Peter, Björn og John sem var svona eitt af því helsta sem við höfðum sett okkur fyrir að sjá um kvöldið. Þeir voru svona ágætir bara, náðu ekki að gíra upp mikið stuð í krádinu þannig að þetta var bara frekar rólegt. Við skröltum síðan aðeins um svæðið því Cold War Kids sem áttu að vera á eftir PBogJ höfðu aflýst tónleikunum sínum, sem er náttla alveg glatað, og fórum svo bara í háttinn á nokkuð skynsamlegum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2007 | 11:15
Mudskilde-festival - dagur 5
Jæja, betra seint en aldrei að halda áfram að blogga stemmninguna hérna í rigningarlandi. Netkaffið er bara opið til hálf 12 á kvöldin svo mar hefur ekki gefið sér tíma til að blogga jafnóðum.
Fimmtudagurinn leið dáldið í leti þangað til seinnipartinn því ég vaknaði klukkan 1/2 8 til að taka á móti Steina en svo þegar við vorum komin aftur í tjaldið og hann var að jafna sig aðeins á menningarsjokkinu sem hann fékk snert af þegar hann sjá leðjuna hérna þá fórum við bara að kúra þannig að við pilluðum okkur ekki út fyrr en eitthvað um klukkan að verða fjögur.
Við byrjuðum á Arcade Fire tónleikunum og það var ansi gott stuð. Hljómsveitin var algjörlega að halda uppi stuðinu enda náttla snilldarinnar band þarna á ferðinni. Við vorum samt smá klaufar og fórum á B-svæðið en vorum samt rosa vel staðsett og sáum allt voða vel þannig að það var alveg stemmning þrátt fyrir að hafa ekki verið í krádinu.
Næst lá leiðin að LCD soundsystem, þeir voru ágætir samt ekkert eitthvað brjálað stuð og ég skil ekkert í því að þeir spiluðu ekki Losing my edge, nema náttla það hafi verið fyrsta lagið því við misstum aðeins af byrjuninni.
Við sáum smá glimt af The killers á applesínugula sviðinu en þeir voru nú ekkert sérlega spennandi þannig að við héldum bara áfram göngunni á næstu tónleika.
Speaker bite me var næst á dagskrá en það er dönsk hljómsveit sem er alveg rosa töff en dáldið tilraunakennd þannig að stemmningin var ekki beint eitthvað hoppogklapp en fínt samt.
Síðan kíktum við pínu á Nostalgia 77 octet sem er jassband en það var ekki alveg nógu spennandi svo við ákváðum að slá til og rölta yfir á appelsínuna og sjá Björk trylla lýðinn. Og við vorum sko heldur ekki svikin af því, ég skil eiginlega bara ekki hvað við vorum að pæla að fara ekki á hana strax en við Jóna vorum eitthvað á því að það skipti ekki máli því við sáum hana á íslandi fyrir svo stuttu en ég verð að segja að það var rosalegt að sjá hana þarna á risasviðinu. Það var alveg haugarigning, mesta rigning sem hefur komið í sögu hróarskelduhátíðarinnar og á öllu norður-sjálandssvæðinu var fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni. En Björk var nú samt ekki í vandræðum með að halda uppi stemmningunni og tugþúsundir fólks stóðu þarna í regnslánum og stígvélunum og fíluðu gelluna í botn. Það sem var samt mest töff af öllu var þegar hún tók Indipendence lagið í lokin og í miðju laginu fóru Færeyski og Grænlenski fáninn að rísa á fánastöngum á sviðinu. Oh hún er sko bara of töff gellan :)
Síðan var bara rölt inn í tjald, ok, kannski ekki rölt, meira svona vaðið í svaðinu. En tjaldið okkar var á góðum stað á rólegu deildinni og allt þurrt og fínt þar sem er annað en mjög margir aðrir voru að upplifa því alveg haugur af fólki lenti í því að koma bara að drullupolli þar sem tjaldið stóð í honum miðjum. Ég veit að margir fóru á hótel þetta kvöld og hafa verið þar síðan enda ekki gaman að gista í drullupolli.
Jæja, hálftíminn sem maður fær hérna í tölvunni er að verða liðinn, ég þarf að reyna að blogga restina af ferðinni mjög fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 21:26
Roskilde-festival - dagur 4
Jæja þá er nú farið að styttast í aðalatriði hátíðarinnar en það er að sjálfsögðu það að minn heittelskaði kemur í fyrramálið en svo þess fyrir utan þá hefjast náttla alvöru tónleikarnir á morgun :)
Í dag var mikið gert af því að slappe av en við fórum líka á eina tónleika sem voru bara alveg hreint með ágætum en það var danska hljómsveitin The floor is made of lava, sem er greinilega dáldið þekkt hérna í DK eða amk var fólk í rosa stemmningu að syngja með og klappa og svona, ég held reyndar líka að fólk sé bara almennt komið í allsvakalega tónleikastemmningu og bara ef einhver fer að spila þá verða allir ofsakátir.
Við fórum líka í bíó á myndina For altid, sem er ný dönsk/bandarísk mynd og alveg ágæt, engin snilld samt myndi ég segja.
Einhvernveginn virðast dagarnir líða hér án þess að maður geri bara nokkurn skapaðan hlut, en er það ekki alltaf svoleiðis í fríinu bara? En á morgun lýkur slökuninni og stuðið hefst og ég hlakka til þess enda úthvíld og fín en sama er nú reyndar ekki að segja um ansi marga hér á svæðinu því fólk er margt að standa sig alveg ótrúlega vel í drykkjunni og djamminu, ég held svei mér þá að ég hefði ekki haft þetta úthald einu sinni þegar ég var ung ;)
En jæja, gaurinn er að hóta að loka internetkaffinu eftir 4 mínútur svo það er best að hafa þetta ekki lengra að sinni, svo ég fái nú tíma til að breyta lyklaborðinu úr íslensku yfir í dönsku eftir mig svo enginn verði brjál. Spurning hvort mar nær ekki öruygglega að halda áfram að vera dugleg að blogga þegar aksjónið hefst. Dett kommer i lyset ;)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2007 | 21:39
á hróarskeldu - dagur 3
Jæja þá er þriðji dagur að kveldi kominn hér á skeldunni. Hann er búinn að vera alveg ljómandi fínn, alveg eins og til er ætlast þegar mar er í fríi í útlöndum þá gerði ég bara nánast ekkert í dag. Ég morgnaði mig í rólegheitunum, vaknaði náttla ekki fyrr en rétt um 11, svo var tölt í sturtuna og bara haft það huggulegt þar. Síðan fengum við okkur hádegismat og svo var bara lagst í sólbað enda veðrið í dag alveg yndislegt. Um 3 leytið fórum við svo á röltið og fórum og kíktum á rólega tjaldsvæðið og komumst að því að það var miklum mun snyrtilegra heldur en það sem við erum á og eins og við mátti búast dálítið minna af 24 hour partypeople. Við fundum stað þar sem hægt var, með góðum vilja, að troða tjaldinu okkar með því að færa eitt annað tjald dáldið til svo við fórum og sóttum okkar hafurtask og tjölduðum á rólegu deildinni, það verður því spennandi að sjá hvort þar verður algjör þögn þegar ég kem heim í tjald á eftir. Það er að minnsta kosti miklu minni drulla á því svæði en hinu og það er algjörlega risastór kostur. Maður er samt búinn að ná upp svaka töff drullugöngulagi sem þarf að gera til að sletta sem minnstri drullu upp á kálfa og læri. Það er heldur engin leið að sjá hverjir eru fullir og hverjir ekki því það eru allir jafn óstöðugir í svaðinu mikla.
Þegar búslóðaflutningunum var lokið þá var farið í það að leita uppi kvöldmat en ekki fyrr en búið var að koma við í nuddtjaldinu þar sem ég fékk 20 mínútna axla/bak nudd sem var ó svo næs :) Síðan vorum við bara að ráfa aðeins um og tala við allskonar fólk og núna er nú aldeilis kominn háttatími hjá kellunni enda klukkan að verða miðnætti.
Fyndnasta sem gerðist í dag var einhver sænskur gaur sem við rákumst á sem var ótrúlega gay og spurði hvort við þekktum Björk og Silvíu Nótt og söng fyrir okkur allt júróvisjónlagið hennar Silvíu og við stóðum bara dáldið kjánaleg öll og kunnum ekkert í því. Hann var alveg hrikalega hamingjusamur yfir því að hafa hitt íslendinga því það hafði hann ekki gert áður hér á hátíðinni, sem ég verð að segja að mér þykir afar undarlegt því hér er sko allt löðrandi í þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2007 | 21:41
Hróarskelda - dagur 2
Það má kannski segja að þetta blogg hafi þann tilgang að sýna umheiminum hvernig 34 ára gömul kona fílar sig á hróarskelduhátíðinni. Ég hef alveg verið að fá svona komment á borð við "gott hjá þér að drífa þig!" og "er ekki Hróarskelda útihátíð?". Sem segir okkur að fólki finnist almennt frekar undarlegt að svona rígfullorðin kona sé í stemmningu fyrir að skella sér á Hróarskeldu en ég get alveg sagt það að ég er að skemmta mér alveg ljómandi vel hérna og fulla unga fólkið er bara hreint ekkert að fara í taugarnar á mér, ég hef reyndar ekki ennþá kíkt á rólega tjaldsvæðið en það er ekki útséð með að ég muni ekki hugsanlega færa mig þangað þegar leikar fara að æsast hérna seinni part vikunnar ;) En áfram með skýrsluna.
Klósettin hafa svona örlítið látið á sjá og ekki alveg alltaf eins og ég sé að koma rétt á eftir hreingerningarfólkinu, en þetta er samt alls ekki slæmt, eiginlega bara það að það er náttla búið að kúka alveg heilmikið síðan í gær og þá er náttla aðeins meira ólekkert að líta ofan í kamarinn áður en mar sest, en greinilega má öllu venjast því ég er bara orðin ansi hreint sjóuð í þessu og þeir vita sem þekkja mig best að ég er mjög viðkvæm þegar kemur að ferðum á almenningssalerni og þessu atriði var ég búin að kvíða dáldið mikið.
Sturturnar voru svo prufaðar í morgun og þær voru alveg hreinasta snilld líka, mjög snyrtilegar og ótrúlega góður kraftur á vatninu, mun betra en á sumum úti-á-landi-sundlaugum sem ég hef komið í og vatnið lekur úr sturtuhausnum svo hægt að minnir á dropateljara.
Síðan var farið í bæjarferð. Lestin tekin til Roskilde og þar röltum við Jóna um og skoðuðum í búðir og svona. Enduðum svo á því að fara í stórmarkað þar sem röð var fyrir utan og hleypt inn í hollum, minnti ansi mikið á næturlífið í Reykjavík bara. Ég keypti mér að sjálfsögðu makrílsalat sem mér þykir alveg ógeðslega gott en öllum öðrum sem ég þekki (þ.e. íslendingum) þykir hinn mesti viðbjóður bæði hvað varðar útlit, lykt og bragð. Ég er samt búin að lofa Jónu því að ég hendi afgangnum í ruslið áður en ég fer að sofa í kvöld svo hún vakni ekki við úldna makríllykt í hitasvækjunni í fyrramálið.
Seinnipartinn fór svo að rigna eins og hellt væri úr fötu og það var nú bara ágætt því það hefði verið glatað að vera búin að taka með sér haug af regnfötum ef það myndi svo bara ekkert rigna. Núna er svæðið sem sagt orðið ansi mikið drullu svað enda þurfti ekki mikið til því jörðin var mjög rök eftir mikinn rigningarmánuð í júní.
Klukkan 8 fórum við í bíóið og sáum heimildarmynd um Joe Strummer (söngvara the Clash) sem var frekar slöpp, eða reyndar dáldið erfitt að dæma hana vegna þess að hljóðið var ansi slappt + að það töluðu muldruðu allir bresku og ég get ekki sagt að ég hafi skilið nema í besta falli 30% af myndinni. En ég ætla bara að ákveða að hún hafi verið slöpp.
Það var sem sagt ekki farið á neina tónleika í dag en spurning hvort mar bæti ekki úr því á morgun. Annars finnst mér ansi hresst að hafa svona bíó hérna á svæðinu sem kostar ekkert í og ég fer örugglega meira í bíó á morgun.
Segjum þetta gott í bili. Held vonandi áfram að segja ykkur hvernig er að vera á keldunni í ellinni :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.7.2007 | 19:59
Komin í Kelduna
Jæja, þá er nú heldur betur komin ástæða til að blogga aftur á ný enda kéllingin mætt á Hróarskeldu. Við Jóna mættum á svæðið klukkan rúmlega ellefu í morgun og þá þegar voru nokkur þúsund tjöld komin upp og alls ekki hlaupið að því að finna gott tjaldstæði. En við fundum samt góðan stað og látum okkur í léttu rúmi liggja þótt við þurfum að labba dáldin spöl á tónleikasvæðið enda náttla landsþekktir göngugarpar. Veðurspáin hefur líka lagast, í fyrradag hljóðaði hún upp á mikla rigningu og rok en býður þessa dagana bara upp á létta úrkomu og smá vind, sem er náttla bara alveg ljómandi gott.
Aðstaðan hér á Hróarskeldu er hreinlega bara æðisleg. Fyrst ber að nefna að klósettin eru endalaust mörg og alveg svakalega vel viðhaldið, sérstaklega þau sem eru á okkar tjaldsvæði (tjaldsvæði E) því þar er engin umferð nema bara þeir sem eru á tjaldsvæðinu, þannig að ég hef að bara yfirleitt á tilfinningunni að ég sé fyrsta manneskjan á klóið eftir að það var skrúbbað síðast. Síðan er náttla þetta snilldarinnar netkaffi sem er bara alveg hreint ókeypis. Svo er hellingur af skemmtilegum búðum hérna og kaffihús með ljómandi gott latte og heimabökuðu speltbrauði og síðast en alls ekki síst glimmrandi góðir veitingastaðir. Ég fékk t.d. pönnukökur með spergilkáli og fetaosti í kvöldmatinn. Svo er líka hægt að hlaða símann og tónhlöðuna fyrir aðeins 10dkr.
Tónlistarstemmningin í dag hefur nú svo sem ekki verið upp á marga fiska enda bara fyrsti í upphitun. Við erum búin að heyra þrjú bönd, fyrsta var pönkband sem spilaði nokkur lög af Rokk í Reykjavík með dönskum texta, amk hljómaði það þannig í mín eyru, það var að sjálfsögðu bara fín stemmning með það en hápunktur þeirra tónleika var eitthvað lag þar sem söngkonan tók þessi fínu hryllingsmyndaöskur sem voru nokkuð nett bara :)
Undir kvöldmatnum spilaði svo einhver dauðarokkshljómsveit, ég er nú ekki mjög hrifin af dauðarokki en þoli það þó alveg en ég verð að bekena að sem dinnertónlist er það hreinlega bara algjör hryllingur.
Síðast á upphitunardagskránni var svo hljómsveit sem heitir Death by Kite og er allsvakalegt Placebo wannabe. Það var eiginlega bara ansi neyðarlegt að hlusta á þessa kóperingu en var náttla dáldið stuð að rifja upp Placebotónleikana sem við Jóna fórum á hér um árið. En þegar kom að lagi þar sem trommuleikarinn hélt bara engum takti þá gáfumst við upp og ákváðum að kíkja frekar hingað á internetið. Sem var greinilega frábær hugmynd vegna þess að hér hinu megin í tjaldinu er hljóðfæraverslun sem selur m.a. bongó- og kongótrommur og bara allskonar hljóðfæri og í augnablikinu eru greinilega eitthvað ansi vel spilandi fólk að halda þessa fínustu trommutónleika. Þá er nú bara komin tónlistarupplifun dagsins og það fer líka að líða að því að ég sæki tónhlöðuna í hleðslu og fari að slaka bara á vindsænginni enda ekki búið að vera mikið um svefn síðustu tvær nætur og ég krossa bara fingur yfir að partýliðið hafi allt tjaldað á hinum tjaldstæðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2007 | 17:59
Fattaði gaurinn
Ég var að lesa bloggið hans Björns Inga og ég verð nú að hrósa manninum fyrir að vera mjög gáfaður.
Það sem hann er að gera er að virkja einstaklinginn. Það er atriði sem ég held að sé stórlega vanmetið í stjórnmálum og bara yfir höfuð hagsmunamálum.
Hann setur fram einfalt reikningsdæmi. það eru 12.000 manns skráðir í Framsóknarflokkinn. Ef hver af þessum 12.000 einstaklingum fær einhverja tvo aðra til að kjósa flokkin mun flokkurinn fá 18.5% atkvæða.
Svona á að fá fólk til að vinna!! Fá það til að finnast það geta gert eitthvað sem skiptir máli.
Ég held nefninlega að nú á öld áreitisins séu hefðbundnar auglýsingar nánast alveg hættar að virka á langflesta kjósendur. Og framboðið á afþreyingarefni er meira en nóg fyrir hvern sem er og þess vegna ekki margir sem sækjast eftir að hlusta á röflið í frambjóðendum sér til dægrastyttingar.
Ég held að eina markaðssetningin sem raunverulega virkar í dag sé jafningjameðmælisleiðin (frumsamið hugtak). Vegna þess að maður er orðinn svo ónæmur fyrir auglýsingum og algjörlega hættur að kaupa það að eitthvað sé gott af því að einhver auglýsing segir að það sé gott þá er í raun eina leiðin til að fá mann til að fá áhuga á einhverri vöru sú að einhver sem maður treystir segir að hún sé góð.
Í stjórnmálafræðinni á síðustu önn lærði ég að hinn almenni félagi væri í raun orðinn óþarfur fyrir stjórnmálaflokkana því hans væri ekki lengur þörf við að bera kosningaáróður út í hús og sinna svoleiðis sjálfboðastörfum.
En ég er nefninlega alveg ósammála því að almenni félaginn sé óþarfur. Ég held að hann sé mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr og BIngi er sá eini sem er búinn að fatta það!!
Ég held semsagt að það sem sé gáfulegra fyrir stjórnmálaflokkana sé að standa fyrir öflugri fræðslu og markvissri upplýsingagjöf til meðlima sinna sem síðan geta verið öflugir talsmenn flokksins síns. Hliðarverkunin er auðvitað sú að þessir meðlimir verða svo tryggir kjósendur að það verður ekki nokkur lifandi leið til að fá þá til að kjósa annan flokk en þann sem þeir finna að kann virkilega vel að meta þá sem félagsmenn en lítur ekki bara á alla skráða flokksmeðlimi sem ókeypis kjósendur.
Ég hugsa að þessar 28 milljónir sem hver flokkur hefur hugsað sér að eyða í auglýsingabirtingar myndu ávaxta sig ansi mikið betur ef þær væru settar í "jafningjafræðslu" , eða amk hluti af þeim. Auðvitað veit ég vel að ennþá hafa auglýsingar í fjölmiðlum einhverja virkni.
Reyndar, núna þegar ég hugsa betur um þetta, þá held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé að gera þetta að einhverju leyti með stjórnmálaskólanum sínum. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það virkar hjá þeim en held að þar þurfi meðlimir að borga fyrir þátttöku. Ég var að minnsta kosti rukkuð um 15.000 krónur fyrir að sitja hjá þeim námskeið um konur í stjórnmálum. Þeir eru semsagt með einhvern smá vísi að þessu en ég held þó ekki að þeir séu búnir að kveikja á perunni eins og BIngi vinur minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2007 | 00:57
Heimsmet í Finnlandi
Ég var að lesa frétt um það á heimasíðu danska ríkisútvarpsins og að Matti Vanhanen, forsætisráðerra Finnlands hefði í dag kynnt nýja ríkisstjórn sína og í henni eiga konur 12 sæti af 20.
Miðjuflokkur Matti Vanhanen skipaði konur í 5 af 8 ráðherrastólum sínum, Græningjar skipuðu konur í bæði sín ráðherrasæti, sænski þjóðarflokkurinn (svensk folkeparti) skipuðu karl og konu í sín tvö sæti og íhaldsflokkurinn skipaði sín 8 sæti jafnt konum og körlum.
Veigamestu ráðuneytin eins og fjármála-, utanríkis- og varnarmálaráðuneytin eru þó enn í höndum karla auk þess sem forsætisráðherran er karl. En það dregur þó ekki úr því hversu mikilvægt skref þetta er fyrir konur heimsins.
Konur eru aðeins 42% þingmanna í þinginu sem er nýtt met í Finnlandi en ég er næstum viss um það að þetta háa hlutfall kvenna í ríkisstjórn er alveg einstakt í heiminum. Jafnvel í Rwanda, þar sem konur eru rétt tæplega helmingur þingmanna eru konur aðeins 25% ráðherra. En mér skilst að Svíþjóð eigi fyrra met með 43% kvenkyns ráðherra.
Vúppí :D
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2007 | 11:35
minn vann! alltaf!!
Í Kastljósinu í gær voru tvær konur að takast á, önnur frá Samfylkingunni og hin frá Sjálfstæðisflokknum. Það vakti auðvitað athygli mína að það skyldu vera tvær konur, en svo fattaði ég náttla að það er landsfundur beggja flokkanna um helgina og þá eru gaurarnir auðvitað meira uppteknir.
En jæja, bara fínt að sjá þessar dömur takast á en það var samt dáldið erfitt að horfa því að önnur daman tók hina dömuna eiginlega bara alveg á taugum. Ég man nú mjög lítið af því sem þær voru að segja því fyrir mér var þetta kennsludæmi um hvernig er hægt að taka andstæðinginn á taugum og ég verð að segja að ég vorkenndi nú konunni sem varð undir frekar mikið.
Ég á yfirleitt ekkert erfitt með að horfa á fólk gera sig að fífli, mistakast eða vera eitthvað skrýtið. Sumir sem ég þekki fara alveg í flækju og eiga auðveldara með að horfa á handlegg sagaðan af manni án deyfingar heldur en að horfa á einhvern missa kúlið, en ég er ekki svoleiðis. Mér finnst bara allt í lagi að fólk sé skrýtið eða missi kúlið, ég meina, það heldur enginn kúlinu alltaf og það er alveg eins hægt að missa það í sjónvarpi eins og annarsstaðar.
En ég átti reyndar dáldið erfitt með að horfa á þetta. Kannski er maður bara ekki vanur að sjá stjórnmálafólk missa kúlið svona rosalega. Kannski var það af því að ég vildi að konurnar stæðu sig svo ógeðslega vel af því að þær væru konur og fá ekki endilega alltaf svo mörg tækifæri til að vera kúl í sjónvarpi, sem gerir það þá kannski að verkum að þær eru óreyndari og missa það kannski frekar. En alla veganna, þá fannst mér pínu erfitt að horfa upp á greyið konuna sem var orðin ógeðslega óörugg og gat varla komið út úr sér heilli setningu án þess að stama og hika alveg hrikalega, og hin konan varð öruggari í réttu hlutfalli við óöryggi þessarar og var á endanum orðin eins og eitthvað rándýr sem horfir á bráðina sem búið er að særa engjast um í kvölum og bíður eftir að maturinn verði til.
En - þá komum við nú að aðalpunktinum. Á fyrsta blogginu sem ég les í morgun er klausa um það hvað konan sem missti það hefði verið töff. Þar stendur: ''Kíkið á Kastljósið þar sem Kristrún Heimisdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir mættust. Ragnheiði Elínu er greinilega ekki fysjað saman, situr pollróleg undir þessu."
Ég meina, konan tapaði. Hún fór á taugum. Hún gerði mistök. Hún stóð sig ekki vel í þetta skiptið. Ég hef engar efasemdir um að þessi kona sé bráðgáfuð og frábær stjórnmálamaður. En allir gera mistök. Sérstaklega undir álagi. Ég tala nú ekki um í sjónvarpi allra landsmanna í kannski fyrsta skiptið í one on one kappræðu. Mér finnst hún ekkert verri fyrir það, og henni er örugglega ekki fisjað saman, eða, það er amk örugglega búið að fisja henni saman aftur eftir þessa útreið :D
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2007 | 16:40
Að skoða könnun
Ég verð að viðurkenna að ég skoða ekki kannanir. Sérstaklega ekki skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka. Það er nú sérlega auðvelt að sneiða fram hjá þeim í fjölmiðlum finnst mér því það lýsir af þeim óspenningurinn. Það hefur hreinlega aldri breyst neitt að ráði síðan í síðustu könnun, nú og ef það hefur eitthvað breyst þá liggur beinast við að spyrja hversu marktæk könnunin sé.
Ég hef ekki alltaf átt jafn auðvelt með að sniðganga túlkanir á skoðanakönnunum. Og það er nú líka bara aðeins skárra. Það er amk meiri fjölbreytni í þeim heldur en könnununum sjálfum. Það er eiginlega alveg sama hver er niðurstaðan úr skoðanakönnunum , það geta nánast allir séð eitthvað jákvætt út úr þeim fyrir sinn flokk. En núna síðustu vikurnar hef ég nú fengið mig alveg fullsadda af túlkunum og upphrópunum um skoðanakannanir. Og er farin að eiga alveg jafn auðvelt með að fletta yfir/klikka í burtu frá þeim líka :)
Ég hreinlega skil ekki hvers vegna er verið að eyða svona miklu púðri í þessar kannanir. Þetta kostar auðvitað haug af peningum en það er nú ekkert miðað við hvað það kostar í tíma hjá aumingja fólkinu sem er alltaf verið að hringja í og spyrja hvað það ætli að kjósa.
Og það leiðir nú einmitt hugan að öðru. Ég er stundum að vinna hjá Félagsvísindastofnun Háskólans, við að hringja í fólk sem hefur fengið sendar kannanir en er ekki búið að svara, og spyrja þau um hvort þau ætli nú ekki að taka þátt í könnuninni og svona. Þá fæ ég stundum svarið að viðkomandi sé nú bara orðinn svo hundleiður á öllum þessum spurningum og könnunum, það sé bara alltaf verið að hringja í hannog núna ætli hún bara ekki að taka þátt. Og þá kem ég að pælingunni með skoðanakannanir á fylgi flokkanna. Af því að við Íslendingar erum svona tiltölulega fá, þá hlýtur að vera oftar haft samband við hvern Íslending heldur en t.d. hvern Svía, í sambandi við allskonar kannanir og rannsóknir. Ættum við þá ekki að reyna að spara þetta aðeins og hemja það aðeins að hringja í fólk og spyrja hvað það ætli að kjósa til að gera þriðju fylgiskönnunina í þessari viku, sem ég get bara hreinlega engan veginn skilið að skipti nokkru máli. Eigum við ekki bara að spyrja um eitthvað sem skiptir máli í staðinn?
Væri ekki bara meira spennandi að fylgjast með fylginu aðeins sjaldnar?
![]() |
Dregur úr fylgi VG samkvæmt könnun Blaðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 539
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar