9.10.2007 | 11:18
RIFF - restin
Jæja, það er eins gott að setja botninn í kvikmyndarausið í bili, það má alla veganna ekki láta þetta fara eins og með Hróarskeldubloggið sem ég setti botninn í næstum hálfu ári eftir heimkomuna.
Fimmtudagur:
Byrjaði á því að fara á myndina Happy new life. Gegt töff titill og umsögnin um hana virkaði líka spennandi, ég meina hvernig gæti mynd um líf munaðarleysingja í Ungverjalandi verið annað en spennandi? Jæja, það reyndist ekki svo og ég gekk út eftir hinar lögboðnu 30 mínútur.
Einkalíf okkar var síðan fín mynd. Það voru tvær manneskjur sem höfðu kynnst á netinu og gaurinn kom að heimsækja gelluna til Kanada en þau eru bæði búlgörsk. Það er voða sæla og hamingja til að byrja með enda eru þau bæði voða sæt og skemmtileg en síðan eftir nokkra daga fer að verða meiri ágreiningur. Þetta var alveg stórgóð mynd og skemmtilega kaflaskipt.
Tryllt ást er heimildarmynd um gaur sem verður hrikalega ástfanginn af rosa flottri gellu og þau fara að vera saman en hún hættir síðan með honum og hann fer að stalka hana og endar á því að ráða menn til að fara heim til hennar og skvetta sýru í augun á henni þegar hún kemur til dyra. Hún verður blind af þessu og hann er settur í fangelsi í 14 ár en þegar hann sleppur út fer hann strax að stalka hana aftur og biður hana að giftast sér og hún segir já. Þetta var alveg ótrúlega merkileg mynd og alveg magnað að fá að forvitnast svona um fólk sem manni finnst vera algjörlega nöttkeis og auðvitað kemst maður að því að á bak við allan fáránleikann leynast tilfinningar sem flest okkar þurfa einhverntíman að díla við. Málið var það að konan var hrikalega falleg áður en þetta gerðist en var auðvitað alveg mjög sköðuð um augun eftir sýruna og alltaf með sólgleraugu. Svo eignaðist hún kærasta sem var voða skotinn í henni en hætti með henni þegar hún tók niður sólgleraugun og eftir það meikaði hún ekki að standa í neinu strákastandi af því að hún var svo hrædd um að þetta gerðist aftur. Svo þegar gaurinn kemur úr fangelsi og er svo ógisslega ástfanginn af henni þrátt fyrir augnadæmið þá ákvað hún bara að giftast honum því hún sá ekki fram á að ganga út.
Þetta er náttla hrikaleg dæmisaga um það hvernig fólk settlast á eitthvað af því að það hefur ekki nóga trú á sér til að halda áfram að leita þangað til það finnur það sem það vill.
Föstudagur:
Listin að gráta í kór var fyrsta myndin þennan dag. Hún var hreinræktuð snilld. Mig langar ekkert smá til að sjá hana aftur, líka af því að ég missti af fyrstu 15 mínútunum vegna þess að miðasalan í Tjarnarbíó slær öll heimsmet í hægferð. Myndin er alveg listilega vel leikin, sagan er snilld og bara allt eins og það getur best orðið í kvikmynd. Mæli gríðarlega með þessari.
Næst lá leiðin á myndina Írak í brotum. Mér fannst hún ekki sérlega góð og fannst hún ekki vera að fanga nógu vel einhverja stemmningu í Írak. Hún var í þremur köflum og sagði þrjár ólíkar sögur. Mér fannst hún bara vera samhengislaus og yfirborðskennd en öðrum þykir hún ljóðræn og listaverk. Svona er misjafn smekkur.
Síðasta mynd dagsins var Skuggasveitir. Hún fjallar um málaliðabissnessinn. Það er verið að tala um þetta í samhengi við Írak en í raun er bara verið að útskýra hvað málaliðar eru og svoleiðis. Ég er nú mjög lítil áhugamanneskja um stríð en mér fannst ég nú ekki vera að fá neinar nýjar upplýsingar því þetta voru eitthvað svo mikil grunnatriði sem var verið var að fara yfir og af því leiddi að myndin var í mínum huga ótrúlega leiðinleg og langdregin.
Laugardagur:
4 mánuðir 3 vikur og 2 dagar var mjög fín mynd. Þunglyndisleg austur-Evrópsk mynd um ólétta unga stúlku sem fer í fóstureyðingu sem er ólöglegt. Myndin er mjög vel gerð og tekst mjög vel að mála trúverðuga mynd af samfélaginu í Rúmeníu. Mæli með henni en kannski ekki fyrir þá sem eru þunglyndir fyrir :)
Næst var líka mjög góð mynd. Mótstöðu mætt. Það er heimildarmynd um andspyrnuhreyfinguna í Írak. Alveg ótrúlegt hvernig tveim vestrænum manneskjum tekst að ná sambandi við hreyfingu sem gengur út á að berjast gegn vestræna hersetuliðinu. Þau tvö sem gerðu myndina svöruðu spurningum í lok hennar og voru að sjálfsögðu spurð um hvernig þeim hefði tekist að ná sambandi við þetta fólk og þau sögðu frá því að það hefði snúist um að túlkarnir þeirra kæmu þeim í samband við fólk en ekki síður að vinna traust fólksins í samfélaginu og láta það berast að þau vildu fjalla um málefnið. Þau mættu t.d. á sömu kaffihúsin á sama tíma á hverjum degi og létu berast að það væri hægt að nálgast þau þar. Þetta hefur kannski verið dáldið svipuð tækni og David Attenborough notaði. Algjör snilldarmynd sem sýndi manni virkilega hina hliðina á máli sem allir þekkja aðra hliðina á.
Óbeisluð fegurð var líka snilld. Myndin náði nokkuð vel að fanga stemmninguna í kringum keppnina og var ljómandi góð sem slík. Reyndar var óþolandi einhverjir stælar með að vera alltaf að súmma inn og út á mjög klaufalegan hátt sem var engan veginn að gera sig sem eitthvað töff fyrir mig. En þessi keppni er hreinlega bara alveg ofursvöl. Þarna er allskonar fólk af öllum stærðum og á öllum aldri að keppa í fegurð og mesta bjútíið við þetta er að þau eru öll rosalega falleg, bara ekki á staðlaðan hátt fegurðarsamkeppna. Þarna er til dæmis ein kona sem er að glíma við þunglyndi og kvíðaröskun og þátttaka hennar í keppninni er hluti af því sem hún gerir til að ná bata, ég meina, það gerist ekki mikið fallegra. Mér fannst líka bara, þegar ég labbaði út af myndinni, búin að horfa á fólk í öllum stærðum vera að spranga á sviði í sínu fínasta pússi og taka þátt í tískusýningu þar sem allir voru að sýna föt sem fóru þeim mjög vel, að ég kynni enn betur að meta mína eigin fegurð, sem er gríðarmikil samkvæmt fegurðarstaðli Sóleyjar :)
Ég vildi óska að það væri meira sýnt af venjulegu fólki vera að sýna hvað það er hott og flott heldur en alltaf bara einhverjar mjónur sem hafa fengið stílíseringu dauðans í morgunmat.
Síðasta myndin á hátíðinni sem ég sá var teiknimyndin Azur og Asmar. Hún var mjög fín og Gísli, sem er 10 ára fór með okkur á hana og hann var alveg að fíla hana þrátt fyrir að hún væri á frönsku og arabísku og með enskum texta. En krakkar á aldrinum 5-8 ára voru farin að ókyrrast heldur betur þegar fór að síga á seinnihluta myndarinnar. Sagan var nokkuð gamaldags og einföld ævintýrasaga um prinsa og prinsessur og allt var gott sem endaði vel. Það var reyndar mjög sterkur boðskapur um kynþáttafordóma sem var í raun þema myndarinnar og gekk mjög vel upp fannst mér.
Jæja, þá er það búið í bili með bíóferðirnar enda er mar nánast kominn með rassæri.
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 539
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.