RIFF þriðjudagur og miðvikudagur

á þriðjudaginn sá ég myndina Járnbrautarstjörnur sem fjallar um vændiskonur í fátækrahverfi í Gvatemala sem stofna fótboltalið til að vekja athygli á slæmum aðstæðum sínum. Myndin var alveg frábær, svo sem bara klassísk heimildarmynd en efnið gríðarlega áhugavert og persónurnar flestar líka. Það er ótrúlega sorglegt að þarna séu, á botni samfélagsins sem er á botni samfélagsins sem er á botni samfélagsins (vændiskonur í fátækrahverfi í borg sem er fátæk í heimsálfu sem er fátæk) konur sem ekkert virðast hafa til þess unnið að vera þarna. Þær virkuðu flestar nokkuð gáfulegar bara og rétt eins og ég og þú en það sem þær áttu allar sameiginlegt var að eiga erfiðar fjölskylduaðstæður að baki. Það er því miður þannig í þeim löndum sem ekki hafa tileinkað sér velferðarkerfi að ef þú lendir í skítnum þá kemstu ekki upp úr honum og það var því miður þannig með allar þessar konur að þær höfðu lent í vandræðum mjög ungar og voru að lokum komnar á þennan stað í lífinu sem er líklega með því lægsta sem hægt er að komast, að selja sig á 2-3 dollara. Mér varð hugsað til þess einhversstaðar í miðri mynd hvað tæki eiginlega við hjá þeim þegar þær eltust því ef ungar, nokkuð myndarlegar konur, selja sig á 2 dollara hvað geta þær þá gert þegar enginn er til í að borga lengur? Það var ein gömul kona þarna í myndinni sem lifði á því að selja hinum vændiskonunum smokka, en ég hugsa að þær geti varla allar lifað á því þegar þær eru orðnar gamlar. Því miður þá endaði myndin þannig að þær voru allar í sömu aðstæðum áfram, engin hafði fengið tækifæri til að hífa sig upp úr eymdinni en sem betur fer fékk eg ekki svarað spurningunni um hvað yrði um þær síðar meir því ég er ekki viss um að ég hefði getað farið út ógrátandi ef ég vissi það.

mynd númer tvö á þriðjudaginn var myndin Ein hönd getur ekki klappað. Hún er eftir tékkneska leikstjórann David Ondricek sem er í kastljósinu á þessari hátíð og sýndar eftir hann þrjár myndir. Þessi mynd var algjör snilld. Hún var ekki þessi þunglynda austur-Evrópumynd sem maður er búin að sjá mikið af (ekki að ég sé að kvarta yfir því samt) heldur er þetta bara ógeðslega fyndin gamanmynd. Ekki mikið meira um hana að segja nema bara að ég mæli sérlega með henni í næsta vídjótjill á öllum heimilum :)

Mynd númer þrjú á þriðjudaginn var svo Maður án fortíðar eftir Aki Kaurismäki. Þetta er fyrsta mynd sem ég sé eftir kallinn, sem er náttla alveg skandall! en örugglega ekki sú síðasta því hún var alveg stórgóð. Bæði fyndin og sorgleg en umfram allt frábær saga og gríðarlega vel gerð mynd með snilldar persónusköpun.

Á miðvikudaginn byrjaði ég á myndinni Bleikur, sem ég var bara ekki að botna neitt í og fór út eftir lögbundna hálftímann. Það er sko þannig í lögunum hjá mér að maður verður að gefa myndinni sjens í 30 mínútur en ef hún hefur ekki náð manni á þeim tíma þá gerir hún það líklega ekki. Ég geng samt sjaldnast út af myndum nema þegar ég er að taka svona hátíðarmaraþon, þá er nefninlega þolinmæðin fyrir myndunum miklum mun minni en venjulega. En svei mér þá, ég gæti alveg trúað að ég hefði gengið út af þessari þótt ég væri stödd á eyðieyju (þar sem væri bíó og bara þessi mynd sýnd).

Næst var Heimsókn hljómsveitar. Ég hafði ekki ætlað á hana en sá að hún var að meika svo mikið af verðlaunum í Köben fyrir stuttu svo ég ákvað að breyta planinu og skella mér. Ég get nú ekki sagt að það hafi verið svo sérstaklega góð hugmynd því mér fannst þessi mynd svona hálfkjánaleg. Það gerðist í raun ekkert í henni nema einhverjar hálfvandræðalega aðstæður sem hefðu sómt sér vel í oldstyle íslenskum fjölskyldudramamyndum a la Hafið oþh.

Þá lá leiðin á aðra mynd eftir David Ondricek (sama og var með fyndnu myndina daginn áður.) Það var myndin Grandhótel. Hún var nokkuð ágæt bara, alls ekki jafn fyndin og hin sem ég sá en alveg þokkaleg samt. Það gæti reyndar hafa skemmt eitthvað fyrir mér að ég var alveg að pissa í brækurnar síðasta hálftímann en nennti ekki á klósettið, svo ég var dáldið að bíða eftir að myndin yrði búin. Og fékk síðan bara klósett sem var ekki hægt að læsa þegar ég loksins komst út. Ég verð að segja að klósettaðstaðan í Regnboganum er bara fyrir neðan allar hellur. Það er alltaf þvílík hlandlykt þar inni og svo er klósettpappírinn annað hvort búinn eða að rúllurnar eru lausar og látnar liggja ofan á rúlluhaldaranum og auðsjáanlegt að þær hafa fengið nokkra túra í gólfið. Geðslegt ha!

Jæja, ég er að verða of sein í bíó. Gúddbæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að "sjá" þig aftur loksins. Mjög áhugaverðar myndir sem þú talar um. Ertu ekki flutt norður?

Þorgerður (IP-tala skráð) 5.10.2007 kl. 01:01

2 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Jújú ég er sko heldur betur flutt norður í sveitasæluna. Bregð undir mig betri fætinum annarsslagið og skelli mér í Reykvísku menninguna :)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 9.10.2007 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 539

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband