1.10.2007 | 00:41
Á kvikmyndahátíð
Þá er semsagt ástæða nýrrar bloggskorpu komin í ljós. Ég er á kvikmyndahátíð. Þegar maður er á hátíð er maður yfirleitt að háma í sig og þegar maður er að háma í sig þá vill það stundum brenna við að upplifunin situr ekki eins vel í manni og hún gerir ef maður fær sér bara einn bita í einu. Lausnin við þessu vandamáli er að blogga því það hjálpar manni að muna betur eftir því sem maður sér og heyrir og svo getur maður lesið það aftur og aftur til að rifja upp stemmninguna.
Olrætí. Dagur eitt á RIFF byrjaði með mikilli heppni sem lýsti sér þannig að mér áskotnuðust tveir miðar á opnunarsýninguna sem var ekkert annað en myndin Heima (takk Agnar:) Myndin var alveg frábær, það er einhvernveginn það besta sem maður getur hugsað sér að lenda í, að sitja undir kvikmynd sem er svo fallega tekin að það er eins og að vera á myndlistarsýningu með frábæra tónlist undir. Reyndar fannst mér alls ekki öll skotin svo æðisleg en alveg nógu mörg til þess að gera myndina alveg hreint ljómandi stórgóða og auðvitað er ekki nálægt því sama að hlusta á tónleikana í bíómynd og að vera á þeim.
Næsta mynd á dagskrá var myndin Himinbrún (Auf der Anderen Seite) eftir Fatih Akin. Hún var algjörlega frábær. Myndin fjallaði um tyrkneska konu sem flýði frá Tyrklandi til Þýskalands og hitti þar þýska stelpu sem hjálpaði henni og þær urðu kærustur. Þeirri tyrknesku var svo neitað um hæli í Þýskalandi og send til baka til Tyrklands þar sem henni var stungið beint í fangelsi. Sú þýska fór þá til Tyrklands til að reyna að hjálpa henni og það fór sem fór (best að vera ekki með neina spoilera hérna). Mér fannst myndin fjalla dáldið um það hvernig einhver málstaður getur skipt manneskju meira máli en allt annað og jafnvel lífið sjálft. En það voru líka margar aðrar áhugaverðar hugvekjur í henni, eins og t.d. hvernig móðirin studdi ekki dóttur sína alla leið fyrr en það var orðið of seint. Það var líka mjög áhugaverður vinkill sem var þannig að það voru í raun tvær sögur sem fléttuðust allan tímann saman eins og er svo algengt í myndum en í þessu tilfelli lágu leiðir persónanna iðulega mjög nálægt hvor annarri en snertust samt aldrei.
Föstudagur:
Fórum bara á eina mynd í dag. þvílíkur aumingjaskapur ;) það var myndin Ferð Isku sem mér fannst alveg hreint ljómandi góð. Hún var samt ekki góð svona eins og "góð bíómynd" heldur meira svona góð í því að lýsa því ástandi sem hún átti að vera að lýsa. Það er einmitt eitt af því sem er svo æðislegt við bíó. Að þótt maður sé að horfa á eitthvað sem er algjör skáldskapur þá fræðist maður oft ansi vel um umhverfið sem sagan gerist í. Til dæmis held ég að íslenskar myndir endurspegli oft íslenskt daglegt líf ansi vel, svona þegar maður horfir á umhverfið skilið frá söguþræðinum. Í myndinni um Isku fengum við að kíkja inn í líf fátæka fólksins í Ungverjalandi. það er sko eitthvað sem maður fær ekki að gera á hverjum degi og ég er ekki eina sekúndu í vafa um að maður verður betri manneskja af því að fá að sjá eitthvað annað en íslenskan eða bandarískan veruleika. Myndin minnti oft á Lilju-4-ever, enda er ekki skrýtið þótt margir hafi orðið fyrir áhrifum af þeirri mynd, sem mér finnst reyndar að ætti að láta alla framhaldsskólanema horfa á svo þeir geri sér grein fyrir því hvað er að gerast hinu megin við borðið á Goldfinger! Ferð Isku endaði einmitt á því að sýna okkur hvernig nútíma þrælahaldarar komast yfir vöruna sína og ég er viss um að heimurinn væri aðeins öðruvísi ef allir gerðu sér grein fyrir þessu.
næst á dagskrá föstudagsins var leikhús. Við fórum á sýninguna Killer Joe í Borgarleikhúsinu. Ég get ekki mælt með þessari sýningu við nokkurn mann enda fannst mér hana skorta allt það sem leikhúsið á að hafa og ég hreinlega bara nenni ekki að skrifa um hana. Hefði betur farið í bíó :)
Laugardagur:
Laugardaginn hófum við á myndinni El Ejido: lögmál markaðarins. Hún var ansi áhugaverð og fjallaði um ólöglega innflytjendur sem koma frá Afríku til Spánar og fara að vinna í gróðurhúsum þar. Þeir eru mjög óánægðir með aðbúnað sinn og laun enda er aðbúnaðurinn ansi lélegur bæði hvað varðar vinnuaðstæður og líka það húsnæði sem þeim er boðið upp á að leigja og einnig eru launin undir lágmarkslaunum. Þessi mynd er dálítið sérstök fyrir það að hún er að skoða eitthvað ákveðið vandamál án þess þó að vera að fella dóm um það eins og svo margar heimildarmyndir gera með því að sýna eitthvað ástand aðeins frá einni hlið og gjarnan með ansi áróðurskenndum hætti. Þessi mynd sýndi líka að vissu leyti hlið þeirra sem reka gróðurhúsin, þótt auðvitað mætti hafa farið betur í það og sumt var gefið í skyn án þess að það væri sett fram sem staðreynd eins og t.d. að nánast allir bæjarbúar El Ejido lifðu á því að reka gróðurhús og hver einasta sála þar græddi á tá og fingri á eymd innflytjendanna. Einnig var sýnt frá einum innflytjanda sem hafði náð að koma sér vel áfram og rak svo sín eigin gróðurhús þar sem hún virtist ekkert koma betur fram við sitt verkafólk en Spánverjarnir gerðu og sama sagan var um innflytjanda sem hafði keypt sér húsnæði sem hann svo leigði verkamönnum á sama okurverði, ef ekki með ívið meira okri en Spánverjarnir. Það var líka dáldið sérstakt að sjá hvað innflytjendurnir virtust upplifa sig svakalega ráðalausa og eins og einn komst að orði með miklum vælutón: maður er vanur því að móðir manns og systir sjái um að elda og þrífa fyrir mann en núna þarf maður að sjá um þetta sjálfur. Það er ekkert smá erfitt. Æ ég gat ekki að því gert, ég náði bara ekki að finna fyrir fullri samúð gagnvart þeim. Einn hafði t.d. skillið móður sína eftir í djúpum skít og skuld því hún hafði reddað honum pening fyrir fölsuðu vegabréfi til að komast til Spánar. Æji ég gat ekki að því gert að hugsa annað slagið að þetta væri bara gott á þá, litlu aumingjans kallremburnar. En auðvitað er ekki fallegt að notfæra sér eymd annarra eins og bændurnir í El Ejido eru að gera, eða eins og byggingaverktakar á íslandi virðast vera að gera. Sem betur fer virðist verkalýðssamtökum og öðrum aðilum mála hér á landi vera að takast að gera stjórnvöldum grein fyrir því hversu slæmt það sé að líta framhjá þessu og vonandi á það sama eftir að gerast á Spáni, jafnvel þótt við þurfum þá hugsanlega að borga nokkrum krónum meira fyrir ávextina og grænmetið sem við erum að borða þaðan.
Taxi to the dark side var næsta mynd. Hún fjallaði um þær pyntingar sem stríðsfangar Bandaríkjamanna hafa þurft að þola síðustu árin í Abu Graib og Guantanamo. Þarna þurfti ég að horfa á allar ógeðslegu ljósmyndirnar sem hafa verið að sveima um á internetinu síðustu árin og ég hef samviskusamlega sneitt hjá vegna þess að mig hefur hreinlega bara ekki langað til að sjá þær. Þegar sannleikurinn fór að berast okkur í umheiminum taldi ég mér nægja að vita af þessu án þess að þurfa að gera sjálfri mér það að sjá þessar ljósmyndir, mér fannst ég engu bættari með það. Myndin var stórgóð og ég efast um að nokkurri manneskju sem horfir á hana detti í hug að halda að Bandaríkjamenn séu góðu gæjarnir. Myndin var augljóslega gerð fyrir bandaríska áhorfendur því hlutirnir voru tuggðir dálítið vel ofan í mann, svona Michael Moore style. Það er bara ágætt mál finnst mér svo sem. Ég er ekki á því að upplýsingar þurfi að vera þurrar, flóknar og leiðinlegar til að vera réttar. En þessi heimildarmynd var ekki ein af þessum hlutlausu heldur var þarna farið yfir málin og allt gert til að gera áhorfandanum mér ljóst að þarna hefði eitthvað hrikalegt verið í gangi. Það var svo sem ekkert nýtt í henni en gott mál að koma þessu svona vel á framfæri held ég bara.
Að lokum fór ég á Moskítóvandræði og fleiri sögur en við Steini ákváðum að rölta okkur út af henni þegar um 15 mínútur voru liðnar. Hún var kannski ekkert svo alslæm og örugglega dáldið skondin bara, ef maður var í þannig skapinu. Við vorum sammála um að það gæti alveg verið allt í lagi að horfa á hana ef mann bara langaði í bíó og hefði ekkert betra að gera :)
Sunnudagur:
Ætluðum á íslenskar stuttmyndir en það var uppselt. Ég var auðvitað svekkt yfir því að missa af sýningunni en samt svo voðalega glöð yfir að það sé svona mikill áhugi á efninu :) Fór í staðinn á myndina Stelpur rokka sem var mjög skemmtileg. Sem heimildarmynd bara mjög venjuleg og ekkert sérstaklega vönduð eða góð en efnið var mjög skemmtilegt fyrir okkur femínistana :)
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 539
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var litið að þakka fyrir miðann. Við sem erum af siglverskum ættum, hugsum yfirleitt vel um okkar fólk...
AK-72, 5.10.2007 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.