Hróarskelda - dagur 2

Það má kannski segja að þetta blogg hafi þann tilgang að sýna umheiminum hvernig 34 ára gömul kona fílar sig á hróarskelduhátíðinni. Ég hef alveg verið að fá svona komment á borð við "gott hjá þér að drífa þig!" og "er ekki Hróarskelda útihátíð?". Sem segir okkur að fólki finnist almennt frekar undarlegt að svona rígfullorðin kona sé í stemmningu fyrir að skella sér á Hróarskeldu en ég get alveg sagt það að ég er að skemmta mér alveg ljómandi vel hérna og fulla unga fólkið er bara hreint ekkert að fara í taugarnar á mér, ég hef reyndar ekki ennþá kíkt á rólega tjaldsvæðið en það er ekki útséð með að ég muni ekki hugsanlega færa mig þangað þegar leikar fara að æsast hérna seinni part vikunnar ;) En áfram með skýrsluna.

 Klósettin hafa svona örlítið látið á sjá og ekki alveg alltaf eins og ég sé að koma rétt á eftir hreingerningarfólkinu, en þetta er samt alls ekki slæmt, eiginlega bara það að það er náttla búið að kúka alveg heilmikið síðan í gær og þá er náttla aðeins meira ólekkert að líta ofan í kamarinn áður en mar sest, en greinilega má öllu venjast því ég er bara orðin ansi hreint sjóuð í þessu og þeir vita sem þekkja mig best að ég er mjög viðkvæm þegar kemur að ferðum á almenningssalerni og þessu atriði var ég búin að kvíða dáldið mikið.

Sturturnar voru svo prufaðar í morgun og þær voru alveg hreinasta snilld líka, mjög snyrtilegar og ótrúlega góður kraftur á vatninu, mun betra en á sumum úti-á-landi-sundlaugum sem ég hef komið í og vatnið lekur úr sturtuhausnum svo hægt að minnir á dropateljara.

Síðan var farið í bæjarferð. Lestin tekin til Roskilde og þar röltum við Jóna um og skoðuðum í búðir og svona. Enduðum svo á því að fara í stórmarkað þar sem röð var fyrir utan og hleypt inn í hollum, minnti ansi mikið á næturlífið í Reykjavík bara. Ég keypti mér að sjálfsögðu makrílsalat sem mér þykir alveg ógeðslega gott en öllum öðrum sem ég þekki (þ.e. íslendingum) þykir hinn mesti viðbjóður bæði hvað varðar útlit, lykt og bragð. Ég er samt búin að lofa Jónu því að ég hendi afgangnum í ruslið áður en ég fer að sofa í kvöld svo hún vakni ekki við úldna makríllykt í hitasvækjunni í fyrramálið.

Seinnipartinn fór svo að rigna eins og hellt væri úr fötu og það var nú bara ágætt því það hefði verið glatað að vera búin að taka með sér haug af regnfötum ef það myndi svo bara ekkert rigna. Núna er svæðið sem sagt orðið ansi mikið drullu svað enda þurfti ekki mikið til því jörðin var mjög rök eftir mikinn rigningarmánuð í júní.

Klukkan 8 fórum við í bíóið og sáum heimildarmynd um Joe Strummer (söngvara the Clash) sem var frekar slöpp, eða reyndar dáldið erfitt að dæma hana vegna þess að hljóðið var ansi slappt + að það töluðu muldruðu allir bresku og ég get ekki sagt að ég hafi skilið nema í besta falli 30% af myndinni. En ég ætla bara að ákveða að hún hafi verið slöpp.

 Það var sem sagt ekki farið á neina tónleika í dag en spurning hvort mar bæti ekki úr því á morgun. Annars finnst mér ansi hresst að hafa svona bíó hérna á svæðinu sem kostar ekkert í og ég fer örugglega meira í bíó á morgun.

 Segjum þetta gott í bili. Held vonandi áfram að segja ykkur hvernig er að vera á keldunni í ellinni :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Ég skal redda þér Makríl, þegar þú kemur heim. Góða skemmtun, ég þræl öfunda þig.

Ingi Björn Sigurðsson, 3.7.2007 kl. 00:11

2 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Makríll er sko ekki það sama og makrílsalat. Ég hef margreynt það að kaupa makríl í tómatsósu í dós og éta hann á brauð en það er bara ekki að gera sig. En ef þú reddar mér makrílsalati verður þú nýji besti vinur minn ;)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 3.7.2007 kl. 21:40

3 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Ég er að tala um heitreyktan Makríl, engan niðursoðin viðbjóð. Ég hef fulla trú á að þú náir að búa til salat með heitreyktum Makríl. Ég vissi ekki betur en að ég væri besti vinur þinn, að minnsta kosti blogvinur..

Ingi Björn Sigurðsson, 3.7.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband