Áfram Reykjavík!

Já, ég fór á tónleika í gær. Hljómsveitin Reykjavík! var að spila og svo var Kristin Hers að kæla liðið niður og svo sáu Blonde redhead um niðurlagið.

Ég hélt sko að Reykjavík! ætti bara að vera afþreying á meðan liðið væri að týnast inn og svo væri Kristin Hersh upphitun fyrir Blonde Redhead sem ætti svo að sjá um stuðið. En nei ó nei. Ég þakkaði nú mikið fyrir að Reykjavík! var þarna til að þessi fjögurþúsundkall væri ekki alveg glatað fé. Þeir voru ansi hreint skrambi svalir strákar og með mest hressandi sviðsframkomu sem ég hef séð lengi, ásamt því náttla að vera með bara alveg hreint ágætistónlist :)

Ekkert af þessu ofantöldu er hægt að segja um Kristin Hersh. Hún var því miður bara leiðinleg með afbrigðum. Það var alveg eins og hún væri nýbúin að læra á gítarinn og þegar hún starði ekki tómu augnaráði út í salinn þá einblíndi hún á vinstri höndina á sér, líklega til að athuga með gítargripin. Ekki það að það sé neitt að því að vera nýbúin að læra á gítar. Tónlistin var algjört pein og við Jóna flúðum alveg aftast í salinn til að gera þetta aðeins bærilegra og fundum okkur fólk til að spjalla við til að reyna að útiloka áreitið en það var samt ekki alveg nóg. Ég ætla reyndar að viðurkenna það strax að ég var dáldið þreytt eftir líflegan dag og kannski fór þetta áreiti þess vegna verr í hljóðhimnur mínar en ella, en það var fólk þarna í kring sem var langt frá því að vera þreytt en var samt ekki hresst með þetta. Það sem bjargaði þó því sem bjargað varð í þessum performans var sellóið og fiðlan sem léku sitt hlutverk alveg ágætlega en æji, þessu var bara ekki viðbjargandi.

Það færðist mikil gleði yfir salin þegar Blonde Redhead stigu á svið. Það var haugur af fólki þarna, hugsanlega bara uppselt eða nálægt því, og bara ansi góð stemmning, þrátt fyrir tilraunir undanfarandi atriðis til að drepa hana. En því miður þá fóru þau í Blonde Redhead bara alla leið með sálarmorðið. Þau spiluðu bara haug af nýju efni og það var ekki mikil fjölbreytni í því. Söngkonan er náttla með sjúkt töff rödd, og trommarinn fannst mér gríðargóður, en gítarleikarinn fannst mér alveg rústa þessu með því að vera bara með nákvæmlega eins spilerí í öllum lögum. Það var ekki fyrr en við síðasta lag fyrir uppklapp sem mér fannst komast eitthvað smá áhugavert í þetta. Þau voru svo klöppuð upp og tóku eitt og hálft lag og ég held að fólk hafi nú alveg verið tilbúið til að fara heim þegar það var búið. Hálfa lagið var bara hálft vegna þess að gítarleikarinn ruglaðist svo mikið og þegar þau voru búín að prufa að byrja upp á nýtt tvisvar þá hættu þau greinilega bara við það og tóku svo síðasta lagið sem mér fannst reyndar megatöff en var ansi tilraunakennt og undarlegt.

Það sem fór alveg með þetta hjá Blonde Redhead, að mér fannst, var það að þau voru í engu sambandi við áhorfendur. Söngkonan leit varla upp og brosti ekki fyrr en í laginu sem gítarleikarinn var að klúðra. Þau sögðu ekkert allan tímann, nema eina setningu um að þau ætluðu að spila helling af nýju efni og þegar söngkonan í byrjun bað ljósamanninn um að lækka einn kastarann. Þetta finnst mér bara alveg dauði. Mér finnst bara lykilatriði að hljómsveitin nái einhverri tengingu við áhorfendur, eða að minnsta kosti reyni það!

Þannig að það er bara Áfram Reykjavík!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband