Airwaveskvöld #3 Ég vaknaði skelþunn í morgun. ...



Airwaveskvöld #3

Ég vaknaði skelþunn í morgun. Þunn af að standa í öllum þessum fjandans reyk. Mikið hlakka ég til þegar búið verður að banna reykingar á skemmtistöðum. Ég var í letikasti í allan dag og langt fram á kvöld og sparkaði mér ekki niður í bæ fyrr en um kl 22. En það var svo sem önnur ástæða fyrir því. Það var hreinlega ekkert á Airwaves sem ég var eitthvað sérlega spennt fyrir að sjá. Nema Wolf Parade. Það var einfaldlega vegna þess að það var ekkert á dagskránni sem mér þótti eitthvað kitlandi sem ég var ekki búin að sjá áður og flest var ég búin að sjá oft áður. En ég sem sagt náði að sparka mér niður í bæ og var komin á Gaukinn rétt áður en Mammút byrjuðu að spila. Mammút er eiginlega uppáhalds íslenska hljómsveitin mín. Mér er það mjög eftirminnilegt moment þegar ég sá þau fyrst í Tjarnarbíói á menningarnótt 2004 og bara Vá! Síðan er ég búin að sjá þau örugglega amk 10 sinnum og búin að hlusta á diskinn þeirra svona 200 sinnum. Þannig að ég var ekkert að missa mig af spenningi yfir að sjá þau í kvöld. En ég er voða fegin að ég gerði það því þau spiluðu 3 glæný lög sem voru bara ansi hreint góð og rosa gaman að heyra þau. Sérstaklega af því að þetta er svona einhvernvegin gæluhljómsveitin mín og ég yrði voða svekkt ef þau myndu staðna áður en þau komast almennilega á kortið, því ég er alveg pottþétt á því að þau eiga eftir að verða mjög þekkt einhverntíman ef þau halda rétt á spöðunum.

Við Jóna stóðum einhversstaðar vinstra megin við sviðið og það var endalaust ráp á fólki fyrir aftan okkur á meðan Mammút var að spila og varla að maður gæti einbeitt sér að því að horfa og hlusta á þau því fólk var endalaust að hrinda manni til. En við stóðum við hliðna á tveim bandarískum strákum og þeir fóru eitthvað að tjatta við okkur. Við færðum okkur svo öll aðeins nær miðjunni til að vera ekki þarna á göngustígnum þegar Jeff Who? færu að spila. Þá fóru þessir slísí náungar þvílíkt að reyna við okkur og guðminngóður hvað Bandaríkjamenn eru alltaf eitthvað feiklegir finnst mér. Svo þegar Jeff Who? voru að koma sér í gang þá myndaðist rosa troðningur þarna fyrir framan sviðið og annar slísígaurinn var gjörsamlega með hendina út um allt á mér og var þvílíkt að nudda sér utan í mig. úff þvílíkur perraviðbjóður. En mér tókst að færa mig frá honum og svo fóru þeir félagar stuttu seinna sem betur fer.

Á eftir Mammút komu Jeff Who? og það var svipuð stemmning hjá mér með þá, búin að sjá þá svo oft að ég var einhvernveginn bara ekkert sérstaklega spennt fyrir þeim. En það var samt rosalega gaman. Þeir eru svo voðalega hressir og mér finnst lögin þeirra alveg bara ljómandi hreint góð. Þeir tóku öll bestu lögin sín og það var nú alveg rosa stuð, þó ég reyndar hafi gert ráð fyrir að það yrði ennþá meira stuð og hopp og stemmning minnug þess hvernig þeir gerðu allt kreísí á Reykjavík Tropic. En þeir spiluðu líka nýtt lag og það fannst mér eiginlega bara frekar mikið prump. Það var bara eitthvað eitís týpískt lag sem var bara eins og svo mörg önnur svoleiðis lög og bara frekar þreytt.

Þá var nú röðin komin að hápunkti kvöldsins, Wolf Parade. Þvílíkur og annar eins troðningur sem skapaðist þarna. Það komu einhverjir gaurar sem bara ruddust inn á miðjuna og maður bara varð að láta sig berast þangað sem maður ýttist, sem var nú sem betur fer í mínu tilfelli alveg upp að sviðinu og þar náði ég að skorða mig milli tveggja drengja sem voru upp við grindverkið svo mér varð ekki haggað eftir það og ég hafði algjörlega frábært útsýni yfir hljómsveitina. Það er einmitt eitt sem mér finnst svo mikilvægt á tónleikum, það er að sjá hljómsveitina, að mínu mati eru tónleikar bara hálf ánægjan ef maður sér ekki hljómsveitina og því betur sem ég sé því hressari er ég með upplifunina. En já, Wolf Parade. Þeir voru mjög fínir og það var alveg rífandi stemmning í áhorfendaskaranum og þá sérstaklega hjá þessum strákum sem höfðu ruðst þarna inn á miðjuna því þeir voru greinilega miklir aðdáendur og kunnu hvert orð í öllum textunum og voru bara alveg að missa sig af stemmningu yfir að vera staddir á þessum tónleikum. En það er svo undarlegt með það að hljómsveitin náði einhvernvegin ekki að halda stemmningunni sérstaklega vel. Þeir voru einhvernveginn ekkert mikið í sambandi við áhorfendurna. Það er eitthvað sem mér finnst vera voða mikið atriði á tónleikum líka, þ.e. að hljómsveitin interacti við áhorfendurna eða líka bara að maður sjái að tónlistarmennirnir hafir rosa gaman að því sem þeir voru að gera. En það var eiginlega hvorugt í gangi hjá Wolf Parade. Því miður.

Ég var dáldið í stemmningunni fyrir að fara heim að sofa þegar hér var komið sögu en við Gunna ákváðum að herða okkur upp og kíkja á Þjóðleikhúskjallarann. Þar var hljómsveitin Shadow Parade að láta ljós sitt skína en þeirra sérlegi styrkleiki virðist liggja í því að vera ótrúlega góðir í að herma eftir Radiohead. Þetta var ekki svo slæmt til að byrja með en með hverju lagi varð þetta meiri Radiohead eftirlíking þangað til mér fannst þetta hreinlega bara vera farið að verða heldur neyðarlegt og skellti mér bara á barinn til að þurfa ekki að hlusta á meira.

Lokaatriði kvöldsins var síðan söngkonan Trost og hún var með hljómsveitina New years eve með sér. Hún valsaði inn á sviðið með rauðvínsflösku í hendinni og það var dáldið eins og hún væri búin að drekka meirihlutann af innihaldinu því hún virtist eiga eitthvað erfitt með jafnvægið. Hún var rosalega flott gella með risastór brjóst en mjög grönn að öðru leyti og í svaka flottum kjól sem var alveg að flattera vöxtinn hennar. Tónlistin var mjög áhugaverð, minnti mig eitthvað dálítið á Fiery Furnaces, en samt ekki mikið, en samt eitthvað smá. Síðan held ég nú reyndar að hún hafi verið að feika það að vera svona full og það finnst mér bara dáldið töff. Greinilega smá sjóv í gangi hjá gellunni. En ég var bara orðin svo sybbinbibbin að ég geyspaði ótakmarkað þarna og ákvað í samráði við Gunnu að skella mér bara heim og hér er ég og mynd kvöldins er af Mammút :)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og tuttugu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 540

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband