Jæja, þá er nú heldur betur kominn tími til að þu...


Jæja, þá er nú heldur betur kominn tími til að þurrka rykið af þessu bloggi og fara að skrifa eitthvað. Ég get nú varla þrætt fyrir það að vera skorpumanneskja fyrst það kemur nú bara fram hér svart á hvítu á sjálfu internetinu. En nóg um það. Það er að minnsta kosti varla til betri ástæða til að blogga en að skrifa um Loftbylgjur Íslands eða Iceland Airwaves. Mikið ofsalega voðalega er maður nú heppinn að búa akkúrat hérna í þessari borg þar sem vill svo til að þessi frábæra tónlistarhátíð er haldin.

Ég var að koma heim af fyrsta kvöldi Airwaves og það var alveg frábært og setti vonandi tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Ég var á Gauknum allan tímann og það var bara fínt, gott að sleppa við að standa í röð fyrir utan staðina og líka bara fínasta tónlist sem boðið var upp á.

Ég sá fyrst Cynic Guru sem ég var nú reyndar ekki svo mjög hrifin af. Mér finnst söngvarinn rosa góður og fiðluleikurinn mjög töff, allir hljóðfæraleikararnir gríðarlega færir en samt finnst mér tónlistin bara alls ekki heillandi. Þetta er í annað sinn sem ég sé hljómsveitina spila og ég man að ég heillaðist mjög af fyrstu mínútunum með þeim þá en svo missti ég alveg áhugann og núna er það sem sagt staðfest, þessi tónlist nær bara engan veginn til mín.

Næst var hljómsveitin Telepathetics. Og hvílík snilldarhljómsveit. Þetta er það sem gerir Airwaves svo æðislegt, maður fer til að sjá eitthvað og sér í leiðinni eitthvað sem maður var ekkert að pæla í og það slær svona svakalega í gegn. Þeir eru víst nýbúnir að gefa út disk og ég læt það verða mitt fyrsta verk þegar ég er búin að skrifa þessa bloggfærslu að fara inn á tónlistpunkturis og kaupa þennan disk.

Þá var komið að hljómsveitinni Noise, það var ansi skemmtilegt upplifelsi. 4 ungir piltar með svartan augnskugga og axlarsítt hár í svörtum fötum. Þeir voru gríðarlega vel spilandi og söngvarinn var góður og tónlistin góð en bara ekki beint fyrir minn smekk. En mér fannst þeir voða krúttaralegir samt. Þeir hafa pottþétt einhverntíman allir dýrkað Marlyn Manson út af lífinu, það er alveg hægt að bóka það.

Næst í röðinni var aðalnúmer kvöldsins. We are scientists. Ég var aðeins búin að hlusta á þá áður og var alveg að fíla nokkuð vel. Hresst breskt popp, minna svolítið á The Killers. En þeir voru nú ekki jafn góðir og ég hafði vonað en samt alls ekki slæmir, svo voru þeir svo sætir líka sem er nú algjörlega stór plús í kladdann :) En það var mikið stuð þegar þeir spiluðu aðallagið sitt en fyrir utan það þá voru þeir ekki að ná upp neinu sérstöku stuði. Sándið fannst mér heldur ekki nógu gott hjá þeim, þeir hefðu reyndar pottþétt notið sín betur í Þjóðleikhúskjallaranum því það finnst mér vera betri staður fyrir svona hljómsveit sem er ekki að skrúfa neitt allt of hátt upp í græjunum og er ekki með neitt sérstaklega sterka sviðsframkomu.

Hljómsveitin Dikta var næstsíðust á svið. Ég hafði einu sinni séð þá áður og fannst þeir mjög góðir og núna finnst mér þeir jafnvel enn betri. Ég á pottþétt eftir að kíkja á þá aftur og jafnvel mun ég ígrunda það alvarlega að kaupa nýja diskinn þeirra fyrst ég verð á annað borð að þvælast inni á tonlist.is. Ég vona bara afleiðingarnar af Airwaves verði ekki þær að ég verði gjaldþrota vegna stóraukinna útgjalda við tónlistarkaup. En jæja, það er þó ekki það versta sem hægt er að eyða peningunum sínum í ef þú spyrð mig.

Þegar Dikta var búin að spila rákumst við Jóna á Nicole sem er þýskur listamaður sem er á einhverskonar styrk hér á íslandi í nokkra mánuði. Við hittum hana í sumar á Belle & Sebastian tónleikunum á Borgarfirði og buðum henni far til Mývatns og það var ofsalega gaman að spjalla við hana og við töluðum heilmikið um tónlist. Við höfum svo nokkrum sinnum rekist á hana aftur ýmist á tónleikum eða á kvikmyndahátíðum og núna var hún með kanadískri vinkonu sinni og við notuðum tækifærið til að merkja í dagskránna þeirra hvað þær mættu alls ekki missa af og þær voru voða ánægðar með að fá svona inside info :)

Svo að lokum var það hljómsveitin Nr. Núll sem spilaði. Þeir voru góðir en heldur rokkaðir fyrir minn smekk svo við Jóna fórum bara heim að sofa (og blogga).

Jæja, á morgun kemur svo í ljós hvort ég held áfram að blogga Airwaves :)

Meðfylgjandi ljósmynd er af uppáhaldi kvöldsins, Telepathetics

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fimm?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband