Airwaves fjórir Ég ætla að byrja á því að drulla...


Airwaves fjórir

Ég ætla að byrja á því að drulla yfir skipulagninguna á Airwaves! Það er alltaf þannig á laugardagskvöldinu að í Hafnarhúsinu er eitthvað rosa vinsælt band að spila sem margir hafa mikinn áhuga á að sjá og það er alltaf lænað upp einhverju viðbjóðslegu drasli á undan því og fólkið sem er æst í að sjá stóra bandið og er skaðbrennt af biðraðastemmningunni það lætur sig hafa það að hanga þarna yfir einhverju rusli þangað til alvöru stöffið byrjar. Þetta er ekki gott mál. Hvorki fyrir hátíðina, listamennina eða tónleikagestina.

Kvöldið byrjaði þó vel. Daníel Ágúst fór fram úr væntingum hjá mér og veit ég fleirum. Ég bjóst við að hann myndi taka sama artífartístöffið sem hann var með á plötunni sinni, sem var nú svo sem ekkert svo slæmt en ekki beint eitthvað sem ég var spennt fyrir. En hann var bara í rokkaragírnum og það var bara fín stemmning. Hann er líka svo svakalega góður söngvari og röddin fékk alveg að njóta sín ljómandi vel, stundum fékk maður líka bara rosa Nýdanskrarflassbakk og það var nú bara gaman. Ég ætla nú samt ekki að fara að hrósa tónlistinni neitt sérstaklega því hún var nú ekki sérlega frumleg myndi ég segja en Daníel Ágúst er sko með sviðsframkomuna á hreinu og hann var bara megatöff og kom manni í góðan gír.

Á eftir Daníel kom svo Pétur Ben. Hann var alveg að gera sig ágætlega, góður kraftur í honum og hann náði alveg að rokka pleisið en bara vegna þess að tónlistin hans er ekki fyrir minn smekk þá fannst mér þetta bara svona sæmilegt. Hef samt séð hann performa tvisvar áður og þetta var það langbesta sem hann hefur sýnt mér.

Úff úff úff úff. Ég veit varla hvort ég teysti mér til að skrifa um næsta atriði. Það var alveg hrikalega slæmt. Versta moment sem ég hef nokkurntíman séð á Airwaves og ég vona að botninum sé náð og ég muni aldrei sjá neitt sem kemst nálægt því að vera jafn hallærislegt og lélegt og Biggi (í Maus). Hann var búinn að finna sér hljómsveitarmeðlimi í útlandinu (UK held ég) og það var nú ábygginlega alveg fínasta hljóðfærafólk. Þetta leit líka bara gríðarlega spennandi út, fullt af fólki á sviðinu, harmónikka, eplatölva, kúabjalla, fiðla og fleiri spennandi hljóðfæri. EN svo fór Biggi að syngja. Það var bara alveg slæmt. Mér finnst hann alls ekki vera góður söngvari og þótt röddin hans hafi notið sín mjög vel í sumum Maus lögum þá var hún mjög leiðigjörn þar til lengdar og það sama er í gangi þarna. Söngurinn stórskemmdi tónlistina sem var nú ekki mjög heillandi fyrir. En það versta er enn eftir! Ef manni fannst ekki nógu slæmt að hlusta á einhverja ómótaða tónlist með glötuðum söng þá bætti Biggi um betur með því að dansa með einhverjum rosa spastískum handahreyfingum og ef það var heldur ekki nóg til að maður yrði grænn í framan þá setti hann lokahnykkinn á atriðið með því að vera í þröngum hlýrabol sem sýndi björgunarhringinn hans mjög vel og greinilega og sýndi líka fram á þá staðreynd að Biggi hefur ekki verið duglegur við að halda kassanum í formi því svei mér þá hann var brjóstastærri en sumar gelgjurnar sem ég sá síðan á Kaiser chiefs atriðinu (talandi um 20 ára aldurstakmark sem mér skildist að hefði verið á hátíðinni en greinilega ekki mikið praktíserað). Úff smúff púff, ég ætla bara ekki að ræða þetta atriði meira og með því að skella hér inn mynd af herlegheitunum vonast ég til að myndin í huga mínum þurrkist út, því hún er verri en nokkur ljósmynd sem ég náði af atriðinu.

Leaves voru næstir á dagskrá. Þeir voru jafn leiðinlegir og þeir voru á sama stað og sama tíma (hvaða klíkuskapur er það?) árið 2004. Mér finnst þessi hljómsveit svo óáhugaverð að ég vona bara að þeir fari að meika það feitt erlendis mjög fljótt svo þeir þurfi ekki endalaust að vera að troða sér inn á Airwaves til að reyna það. Ég á aldrei eftir að fyrirgefa Travis fyrir að geta af sér svona leiðinlega eftirlíkingu.

Brandari kvöldsins var næstur (Biggi var ekki brandari því það var svo langt frá því að hægt væri að hlæja að honum). Það var hljómsveitin Cribs. Einhverjir höfðu nú einhverntíman heyrt um þetta band en það var mjög greinilega enginn þarna á staðnum sem var í einhverri stemmningu fyrir þá. Það fannst þeim rosalega fúlt og sérstaklega gítarleikaranum sem var nú örugglega eitthvað geðvondur fyrir giggið en með hverju laginu og vaxandi klapp- og hrópskorti þá varð hann fúlli og fúlli. Hann sparkaði míkrófónstandinum sínum nokkrum sinnum niður í geðvonskunni og hrækti á sviðið eins og einhver unglingsgelgja og ég verð að viðurkenna að ég sá ekki mikið til hinna meðlimanna tveggja vegna þess að fyrir það fyrsta var ég svo hrikalega upptekin af því að skemmta mér stórkostlega við að fylgjast með vaxandi frústrasjón gítarleikarans og fyrir það annað þá þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að hafa af honum augun því ég var alveg viss um að hann myndi hrækja yfir áhorfendurnar áður en yfir lyki og ég ætlaði sko aldeilis að vera tilbúin að beygja mig fyrir aftan gelgjuna sem stóð fyrir framan mig til að fá ekki viðbjóðinn á mig. Síðan þökkuðu þeir fyrir sig með þeim penu orðum: "thank you assholes" sem reyndar hefði verið betur við hæfi að hann bara segði það sem hann var pottþétt að hugsa sem var án efa: "fuck you assholes". Ég er samt ekkert svo hissa á því að hann hafi verið svona svekktur því það sást langar leiðir að hann var alveg að leggja sig allan fram við sönginn og hljóðfæraleikinn og ég virði hann fullkomlega fyrir það, jafnvel í síðasta laginu þá var hann ekkert að slaka á, svo í lokin þá var hann bara eitthvað að fríka út og sargaði gítarnum við magnarann á milli þess sem hann juðaði honum upp við bassann og ég held að hann hafi verið að reyna að fá voða fídbakk í gang til að það myndi fara að blæða úr eyrunum á okkur mjög svo vanþakklátu áheyrendum, alla veganna var þetta ekki alveg sama þeing og maður hefur frétt af hjá Jimi Hendrix sem hreinlega spilaði á feedbakkið. Og já, tónlistin þeirra var leiðinleg.

En þá var nú loksins röðin komin að því sem hjá mér var hápunktur Airwaves 2006 stuðlega séð. Það voru sem sagt Kaiser Chiefs sem voru næstir á svið. Ég held þeir hafi nú verið eitthvað svoldið trekktir vegna viðtakanna sem fyrirrennarar þeirra fengu en það var nú annað uppi á teningnum þegar alvöru rokkararnir voru komnir í málið. En samt vantaði heilmikið upp á stemmninguna í Hafnarhúsinu. Ég var nánast alveg upp við sviðið og það var sko enginn troðningur í gangi þar, maður snertist ekki einu sinni við næstu manneskju. Ég hef bara aldrei upplifað þvílíkt troðningsleysi á tónleikum af þessari gráðu. En það var nú bara ágætismál því þá var náttla bara meira pláss fyrir mig að dansa og hoppa eins og freðinn fáviti sem ég og gerði af mestu list. En það var samt dáldið leiðinlegt að fólkið í kring um mig var voða deyfðarlegt eitthvað, mjög fáir að hreyfa sig eitthvað. En söngvarinn kunni nú heldur betur ráð við því. Hann tók þetta rosalega fína stagedive og bara lét sig flakka og treysti á að fólk myndi hópast að sviðinu til að bera hann. Sem og gerðist! Og svo tók hann þetta aftur og stóð síðan uppi á grindverkinu sem hélt skaranum og skarinn hélt við fæturnar á honum svo hann missti ekki jafnvægið. Þetta var bara rosalega töff og svínvirkaði til að keyra upp stuðið. Svo heimtaði hann að allir settu hendurnar upp í loft og gafst ekki upp fyrr en meira að segja gelgjan litla fyrir framan mig setti hendurnar upp í loft. Svona á að gera þetta!! Ekkert að gefast upp þótt það sé léleg stemmning í salnum. En hann náði samt ekki að fá allan salinn til að öskra "thank you Cribs" eins og hann reyndi, það var meira bara svona uml. Hehe, dáldið fyndið að vera eiginlega bara skammaður af einni hljómsveit fyrir að fíla ekki aðra hljómsveit.

Eftir rokkið lá síðan leiðin yfir á Gaukinn þar sem Hairdoctor var að ljúka sínu giggi. Hann var hressandi eins og venjulega. Daníel Ágúst var meira að segja að taka lagið með honum þegar ég kom og svo var hann með einhverjar tvær gellur á sviðinu og dj og seinna lagið sem ég heyrði var remix af laginu All those beautifull boys með hljómsveitinni Reykjavík og þá brá sér á sviðið með honum gaur sem ég held að sé söngvarinn í í hljómsveitinni Reykjavík en það er óstaðfestur hugaróri ennþá. Þetta var tjútt og kom manni vel í gírinn fyrir áframhaldandi djamm og gleði (sem endaði síðan kl 06:30 í morgun)

Á eftir Hairdoctor kom hljómsveitin Spectrum sem mér fannst dauðleiðinleg enda ekki alveg minn tebolli þar á ferðinni en ég mun ekki fjölyrða meira um það hér þar sem þessi færsla er við það að fara á hliðina af neikvæðni.

Svo bíður maður bara spenntur eftir Airwaves 2007 - vúppí

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og þrettán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 540

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband