24.1.2006 | 15:13
Ætla Íslendingar að láta hafa sig að algjöru fífli...
Ætla Íslendingar að láta hafa sig að algjöru fífli?
Mér er spurn í ljósi þess að allt í einu eru fjölmiðlar að segja mér að við Íslendingar séum að verða búnir að fylla upp í mengunarkvótann okkar samkvæmt Kyoto bókuninni. Ef stækka á Álverið í Straumsvík eins og áætlað er mun kvótinn verða fullnýttur. Ætlar ríkisstjórnin okkar að sækja um viðbótarkvóta? Eða jafnvel að kaupa kvóta af öðrum minna mengandi löndum fyrir hin tvö álverin sem umhyggjusöm álfyrirtæki í útlöndunum ætla hugsanlega að gera okkur þann greiða að byggja hérna??
Það ætti nú svo sem ekki að vefjast fyrir þessum mönnum að braska með kvóta, það er eitthvað sem a.m.k. Halldór Ásgrímsson veit allt um því hann kom nú bara alveg sjálfur fiskveiðakvótakerfinu upp hér á landi og hefur þénað ansi vel á því.
En það sem ég er að velta fyrir mér er hvort við Íslendingar látum félagana í ríkisstjórninni okkar komast upp með að hreina fína landið okkar verði einhver reykháfaskógur sem spúir mengun og drullu yfir allt.
Svona leit Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, á framtíð ferðamannaiðnaðarins á degi umhverfisins 25.apríl 2005:
Ferðamennska hér á landi byggir að verulegu leyti á náttúru landsins og stærstur hluti erlendra ferðamanna kemur til landsins til þess að sjá, fræðast og njóta náttúrunnar. Árið 2003 komu til landsins um 320.000 erlendir ferðamenn …. Miðað við þróun ferðamennsku undanfarin ár og áætlanir um fjölda ferðamanna til landsins næstu árin má búast við að hingað geti komið um 630.000 ferðamenn árið 2012 og allt að ein milljón árið 2020. http://umhverfisraduneyti.is/radherra/raedur-og-greinar/nr/697
Ég er ekki alveg að sjá þetta samræmast þeirri framtíðarsýn sem mér virðist vera fylgt hvað mest eftir af stjórnvöldum síðustu misserin sem eru að selja mengandi stórfyrirtækjum aðgang að mengunarkvótanum okkar og reyna að redda meiri kvóta til að geta selt enn fleirum aðgang.
Ég hef lengi skammast mín frekar mikið fyrir það að tilheyra þjóðfélagi sem finnst ekkert nógu gott sem það á og segir við stóru fyrirtækin þegar þau koma, iss, þetta er ekkert merkilegt, hirtu þetta bara. Þetta er þvílík gargandi minnimáttarkennd að ég fæ kjánahroll um allan líkamann innan og utan af því að vera hluti af þessari minnimáttarkennd. Og að taka við draslinu sem hinar þróuðu þjóðir eru að losa sig við, þ.e. álverunum, finnst mér alveg síðasta sort.
Það er ljóst að þjóðin í heildina er í sömu sálarkreppu og margt mannfólkið. Allt of lítið sjálfsmat, gríðarleg minnimáttarkennd og óöryggi. Þetta birtist í óeðlilegum ótta við höfnun, lítilli eða engri sjálfsvirðingu og rembulegri framkomu þess sem alltaf reynir að telja öðrum trú um að allt sé í lagi en getur á engan hátt trúað því sjálfur.
Hérna er bókun Álfheiðar Ingadóttur, eins fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar sem ein stjórnarmanna greiddi atkvæði gegn tillögu um orkusöluviðræður við Alcan. Þetta virðist vera ástæða þess að fjölmiðlar eru allt í einu farnir að tala um þennan kvóta og stöðuna á honum. Ég er nú ekki viss um að Álfheiður muni verða langlíf í stjórn Landsvirkjunar eftir þetta. Tekið af vef VG:
"Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu af eftirfarandi ástæðum:
1. Að mínu mati er Landsvirkjun alls ekki í stakk búin til að hefja umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir meðan enn sér ekki fyrir endann á byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Ljóst er að eiginfjárstaða fyrirtækisins mun versna eftir því sem líður á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og að nýjar virkjunarframkvæmdir á sama tíma munu valda enn frekari lækkun eiginfjárhlutfalls. Ekki hefur verið gerð grein fyrir því hvaða áhrif það muni hafa á lánshæfi fyrirtækisins né þeirri spurningu svarað hvort hugmyndin er að óska eftir beinum fjárframlögum auk nýrra ábyrgða frá eigendum til þessara framkvæmda.
2. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til mikils kapphlaups þriggja álfyrirtækja um síðustu gígavattstundirnar sem Kyótó-bókunin heimildar íslenskum stjórnvöldum að ráðstafa til stóriðju án greiðslu fyrir losunarheimildir. Alcan vill stækka í Straumsvík, Alcoa reisa álver á Húsavík og Norðurál í Helguvík. Stjórnvöld hafa blygðunarlaust ýtt undir þessi áform og att landshlutum saman með því að gefa öllum fyrirtækjunum í skyn að af samningum um raforkusölu geti orðið. Slíkar áætlanir eru innistæðulausar þar sem í hæsta lagi eitt fyrirtæki getur vænst þess að vera undanþegið greiðslum fyrir losunarkvóta skv. "íslenska ákvæðinu" í Kyótó-bókuninni. Verði stækkað í Straumsvík eru ekki til losunarheimildir fyrir álver á Húsavík svo dæmi sé tekið. Allt tal um annað er blekkingarleikur og lýsandi dæmi um ábyrgðarleysi stjórnvalda sem stefna leynt og ljóst að því að fara langt fram úr þeim losunarheimildum sem fyrir hendi eru."
Ég bara spyr, þarf að ræða þetta eitthvað meira?
Ég vil nú að lokum taka það fram að ég er ekki alfarið á móti virkjun vatnsfalla á íslandi en ég vil ekki hafa það að verið sé að hleypa inn í landið risastórum mengunarverksmiðjum sem önnur lönd eru að reyna að losa sig við. Ég vil virkja það sem við þurfum að virkja til eigin notkunar og ekki krónu meira en það.
Enn ein spurning sem áhugavert er að spá í er hvort við komum út í tapi eða gróða þegar búið er að reikna dæmið vegna virkjana og álframleiðslu til enda og við þann útreikning má ekki gleyma þeim áhrifum sem stóriðjuframkvæmdir hafa á gengi íslensku krónunar og þar af leiðandi öll íslensk fyrirtæki sem markaðssetja vörur sínar erlendis. Viljum við kannski bara selja raforku og mengunaraðgang? Æi, ég verð að viðurkenna að heilinn á mér byrjar að hringsnúast við það eitt að hugsa um þetta.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Facebook
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning