17.2.2006 | 03:21
Lýðræði Mér finn...
Lýðræði
Mér finnst oft eins og þetta lýðræði sé ekkert alveg að virka. Það að allir tölti sig af stað á fjögurra ára fresti, ef veðrið er gott og krossi við einn valmöguleika af fimm finnst mér ekki alveg vera að gera sig til þess að fólk hafi eitthvað úrslitavald yfir stjórnun landsins.
Svo er spurningin með þjóðaratkvæðagreiðslurnar, hvort það sé málið. Ég er sannfærð um að það gæti gert mjög mikið til að skapa raunverulegra lýðræði. En gallinn við það gæti svo verið að hverri kosningu myndi fylgja kosningabarátta og ekki finnst mér það nú aðlaðandi. Það að einhverjir tveir aðilar keppist um að segja frá því að þeir hafi svo svakalega rétt fyrir sér og að hinn aðilinn hafi svo svakalega rangt fyrir sér er að mínu mati óþolandi að þurfa að hlusta á. Alveg jafn óþolandi og að hlusta á krakka nágrannans rífast um leikfang hérna fyrir utan gluggann hjá mér.
En hvað ef fjölmiðlum væri treystandi til að flytja okkur upplýsingar sem væru ómatreiddar og birtar af hlutleysi? Væri þá ekki hægt að hafa mikið gagn og gaman af þjóðaratkvæðagreiðslum, ég tala nú ekki um þegar þær verða komnar á netið og þá verður hægt að kjósa bara um nánast allt og þingmenn þyrftu að flytja frumvörpin sín fyrir almenningi svo hann gæti hafnað eða samþykkt. Væri það ekki skemmtilegt? En, já ók, sennilega frekar langt í það.
Svo er spurningin hversu margir hefðu áhuga á því að kynna sér málin og taka þátt í endalausum atkvæðagreiðslum. Það er nú ekki víst að það séu svo margir. Að minnsta kosti bendir fjölmiðlamenningin okkar, sem virðist að mestu leyti ofurseld hugtakinu “meirihlutinn ræður”, til þess að flest okkar vilji frekar fylgjast með alls konar fólki takast á við ýmis verkefni í raunveruleikaþáttum, eða sjá hvað er svalt og hvað er glatað í lífstílsþáttum, eða sjá hvað er í gangi á djamminu í unglingaþáttunum, heldur en að horfa á fréttaskýringaþætti, viðtalsþætti eða heimildarmyndir.
Annars var ég eiginlega að uppgötva Rás 1 á RÚV. Ég hef reyndar lengi hlustað á spegilinn sem er reyndar bæði á Rás 1 og 2. En svo fór ég að skoða efnið á Rás 1 aðeins betur og þar er alveg hellingur af frábæru efni. Þar má sem dæmi nefna Víðsjá og Samfélagið í nærmynd. Þarna eru komnir þrír frábærir þættir á dag sem hægt er að hlusta á. Allt efnið er síðan aðgengilegt á netinu í tvær vikur. Reyndar vantar alveg að efnið sé sett á podcast en það kemur vonandi bara fljótlega.
Alla veganna, þá finnst mér að það mætti nú alveg efna til þjóðaratkvæðagreiðslu svona annað slagið. Það myndi líka hugsanlega verða til þess að fleiri fengju áhuga á því að spá meira í allskonar þjóðmálum og hugsanlega minna í svalt/glatað málunum.
Breytt 19.1.2007 kl. 16:11 | Facebook
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning