Jæja, þá er Airwaveskvöldi númer 2 lokið og þótt é...

Jæja, þá er Airwaveskvöldi númer 2 lokið og þótt ég sæi ekki eða heyrði eina einustu tónleika í viðbót myndi ég ekki sjá eftir einni krónu af miðaverðinu því þetta kvöld var algjörlega frábært og ég ætla að biðja alla um að gera mér þann greiða að ef það heyrist einhverntíman eftirfarandi setning af vörum mínum "nei ég ætla ekki á Airwaves" að byrja á því að öskra á mig eins hátt og viðkomandi getur: "Ertu algjörlega búin að missa vitið kerling" og slá mig síðan þrisvar sinnum utanundir hvoru megin og segja síðan: "MANSTU EKKI EFTIR 19. OKTÓBER 2006" og ef ég fer bara að bulla eitthvað um að ég eigi ekki pening eða bara einhverja aðra leim es afsökun þá má eiginlega bara henda mér í ruslið.

En ok, áfram með smjörið.

Ég var mætt niður á Nasa á slaginu átta og stuttu seinna fór Lay Low að spila og syngja. Ég hafði gríðarlegar væntingar til dömunnar því ég er búin að bíða ógeðslega spennt eftir því að komast á tónleika með henni frá því að ég heyrði lagið Please don´t hate me á Myspace síðunni hennar og ég er búin að bíða nánast jafn lengi eftir því að hún gæfi út disk. En nú er biðin á enda, ég fór á tónleika með henni í kvöld og hún gaf einmitt út disk í dag. Hún stóð algjörlega undir væntingum. Tónlistin hennar er frekar einfaldur og hefðbundinn blús sem hún spilar á kassagítar en er ótrúlega hressandi þrátt fyrir að vera hefðbundin, en hún var með hljómsveit með sér og það var nú alveg það sem setti punktinn yfir i-ið því við það urðu lögin enn betri. Það var dálítið eins og röddin hennar væri ekkert sérlega sterkbyggð en það getur líka verið af því að hún væri eitthvað aum í hálsinum, vona það amk svo hún geti haldið áfram að syngja bæði vel og lengi og ég hlakka mikið til að heyra diskinn sem ég mun væntanlega fjárfesta í á næstu dögum :)

Síðan lá leiðin yfir á Gaukinn og þar var ég það sem eftir var kvöldins. Fyrst sá ég þar hljómsveitina Skakkamanage sem ég var einmitt mjög spennt fyrir að sjá og það var alveg skemmtilegt. Þau eru ein af þessum hljómsveitum sem sanna það að það er ekkert endilega nauðsynlegt að vera með fullkomna hljóðfæraleikara til að tónlist geti verið góð, það getur verið alveg jafn gott að vera bara í rosa góðu stuði og skemmta sér. Það virkaði alla veganna alveg ljómandi vel hjá þeim, þó hefði reyndar verið mjög gaman ef söngvararnir hefðu verið betri, sérstaklega aðalsöngvarinn. En það er eiginlega dáldið þema kvöldsins hjá mér, að kvarta yfir söngvurunum. En ég væri amk mjög til í að tékka á þessum diski sem þau eru nýbúin að gefa út (myndi samt ekki borga háar upphæðir fyrir hann eftir þessa kynningu sem ég fékk í kvöld) og væri líka alveg til í að sjá/heyra þau aftur á tónleikum.

Hann Þórir sem er svo krúttaralegur og söng Hey Ya lagið svo voðalega fínt var næstur á dagskránni með hljómsveitinni sinni My summer as a salvation soldier. Ég verð nú að segja að ég var ekki hrifin, bara alls ekkert hrifin. Eiginlega hefði ég gjarnan viljað sleppa því að sjá hann eða þá að hann hefði sungið Hey Ja 5 sinnum í röð frekar en þessi, að mér fannst, nauðaómerkilegu lög með þessari rödd sinni sem var svo ofsalega krúttaraleg og sæt á Airwaves í hitteðfyrra en er bara alveg óþolandi svona til lengdar.

Svo kom Eberg sem ég hafði barasta aldrei heyrt getið áður en bara svona til að giska á eitthvað þá giskaði ég á að hann myndi rappa - sem hann gerði bara alls ekki. Þetta var alveg ágætis tónlist, reyndar eitthvað eitt lag sem er víst búið að vera í einhverri spilun í útvarpi (amk rás2) en mér fannst langversta lagið af þeim sem hann spilaði, skil ekki alveg lógíkina í því hm... En hann var með einhverja dömu með sér og hún var bæði hot og spilaði á selló og söng rosa vel líka og svo var trommari með í för og þetta var allt saman hin hressasta og dansvænasta tónlist og maður var bara farinn að dilla sér ansi vel eftir stutta stund. En þetta er ekki tónlist sem situr eitthvað eftir hjá mér og ég mun ekki berjast neitt hart fyrir því að komast á tónleika með þeim aftur, nema náttla ef þau væru t.d. að spila einhversstaðar á föstudags eða laugardagskvöldi þá myndi ég alveg vera til í að fara í stutt pils og fleginn bol og fá mér nokkra bjóra og skella mér í djamm- og dansgírinn.

Eftir stuðið með Eberg skelltum við Gunna okkur með Snorra Páli og vinkonu hans upp á efri hæðina og settumst aðeins og tjilluðum og ég fékk mér bjór sem var Tuborg í dós og kostaði 600 KRÓNUR, sjitt hvað það er dýrt að drekka áfengi maður!!

Datarock lofuðu ekkert smá góðu þegar þeir þeystu inn á sviðið allir eins klæddir í rauðum æfingargöllum. Þeir voru líka rosalega hressir og ég hélt bara áfram að vera í dansstuðinu en það dalaði reyndar aðeins svona eftir ca 3 lög því þá var tónlistin þeirra nú orðin hálf þunn eitthvað. En þeir voru áfram í ógeðslega miklu stuði og eins og oft áður þá var það bara alveg glimmrandi gott mál og nægði algjörlega til að halda mannskapnum í stuðinu og stemmningunni. Ég datt reyndar aðeins úr gírnum þegar þeir spiluðu alveg hræðilega asnalegt lag sem hét því hryllilega hallærislega nafni Ur-anus. Ég hafði bara alveg hrikalega ekki húmor fyrir þessu. Úff púff. En eftir þann hrylling héldu drengirnir áfram að vera í stuði og ég bara djoinaði og datt í stuðið og dansiballigírinn. Þeir slúttuðu síðan með því að spila lagið I´ve had the time of my life úr Dirty Dancing og það var nú bara alveg til að koma mannskapnum í fluggírinn í stuðgírnum og það var alveg ljóst að Datarock höfðu fílað sig rosa vel enda sögðu þeir að þetta yrðu bara síðustu tónleikarnir þeirra því þeir væru búnir að bíða svo lengi eftir að fá að spila í Reykjavík að núna væru þeir búnir að ná missioninu og gætu bara hætt að spila. Já þeir voru sko alveg með stuðið á hreinu.

En þá er nú komið að hápunkti kvöldins og hápunkti þótt víðar væri leitað. Þetta var eitt af þessum skiptum þar sem tónleikar eru eitthvað miklu meira en tónleikar. Eru upplifun. Þetta hefur gerst í bæði skiptin sem ég hef farið á tónleika með Sigurrós og ég á ekki von á því að nokkuð band komist nálægt því að toppa það. Ég var alveg búin að hlusta á diskinn sem ég á með The whitest boy alive ansi oft og var að fíla hann ansi vel en ég bjóst nú ekki við neitt sérlega mikilli tónleikastemmningu hjá þeim vegna þess að tónlistin er svo svakalega létt eitthvað. Þetta er einhvernveginn svona fullorðins tónlist. Gæðatónlist. Þeir eru alveg óhemju góðir hljóðfæraleikarar og tónlistin líður áfram eins og lækur, átakalaust einhvernveginn. En guð minn góður. Þvílík upplifun að vera á þessum tónleikum. Ég hefði getað verið þarna í alla nótt að hlusta á þessar svakalega vel spiluðu tónlist sem hljómaði svona um það bil 500 sinnum betur þarna á Gauknum heldur en hún gerir í stofunni minni. Svo var líka alveg greinilegt að þeir drengir voru að skemmta sér alveg rosalega vel við að spila. Reyndar leit ekki alveg svo vel út með trommarann í byrjun því hann var eitthvað voðalega ósáttur við hljóðið hjá sér og var bara eitthvað að fríka út í einhverri geðvonsku annað slagið og meira að segja einu sinni þegar áhorfendurnir voru að klappa voða mikið með þá fór það eitthvað geggjað í taugarnar á honum og hann var eitthvað að reyna að benda fólki að hætta að klappa en enginn hlýddi því og á endanum þá hætti bara gaurinn að tromma og stóð upp og sagði liðinu að halda kjafti. Þetta var alveg rosalega spes. En tónlistin, ómægod, tónlistin. Þetta er hreinlega bara ástæðan fyrir því að tónlist var fundin upp. Það er bara eitthvað alveg unaðslegt við það að hlusta á svona vel spilaða tónlist . Plús að það var nú líka heilmikið stuð í henni, sérstaklega kannski þegar Eberg og Datarock voru búin að hita mann svona vel upp í dansigírinn.
Það er yfirleitt þannig hjá mér á morgnana að þegar ég kem úr sturtunni þá set ég einhverja frekar hressandi tónlist á og á meðan ég er að greiða mér og sjæna og gera fína þá dansa ég oft dálítið mikið og mér varð hugsað til þess á tónleikunum að ef ég gæti verið með þessa gaura að spila fyrir mig inni í stofu á hverjum morgni á meðan ég væri dansandi um á naríunum með hárburstann í annarri og tannburstann í hinni þá myndi hver einasti dagur verða besti dagurinn. Það væri hreinlega bara ekki hægt annað en að vera í endalausri gleði ef dagurinn hæfist á þennan hátt (svo gætu þeir náttla tekið til morgunmatinn og svona fyrir mig í leiðinni). Það voru reyndar einhverjar fleiri fantasíur sem runnu í gegnum hausinn á mér á meðan á snilldinni stóð en ég held ég haldi þeim fyrir sjálfa mig. Mikið voðalega langar mig mikið að eiga hrikalega góðar græjur inni í stofu og geta fengið smá brot af þessari upplifun eftir pöntun. En þeir drengir í The whitest boy alive höfðu greinilega næstum jafn gaman af þessu og ég og hinir sem vorum þarna á staðnum því einn rótarinn þurfti að fara til þeirra og segja þeim að þeir mættu bara spila eitt lag í viðbót og þegar það var síðan búið þá varð allt hreinlega vitlaust og þeir voru klappaðir upp og komu og spiluðu en sögðu að við þyrftum að njóta þess á meðan á því stæði því löggan væri fyrir utan af því að þeir væru búnir að spila allt of lengi. Þetta segir dáldið allt sem segja þarf um stemmninguna sem var þarna á staðnum. Úff ég elska tónlist!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og sjö?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband