29.4.2008 | 14:31
Ónotaðir miðar á Bíódaga
Ég er ein af þeim sem sitja uppi með ónotaða miða eftir að hafa keypt klippikort á Bíódaga Græna ljóssins. Ég er ótrúlega ósátt við það fyrirkomulag að þegar tvær vikur voru liðnar var meiri hluti myndanna tekinn úr sýningu. Það hefði verið skárra ef þetta hefði verið auglýst fyrirfram svo maður hefði geta gert einhverjar ráðstafanir en það var ekki gert og jafnvel einum degi fyrr var ekki hægt að fá upplýsingar um hvaða myndir héldu áfram í sýningu.
En ég var að tala við Jón Eirík sem er einhver af þeim sem sér um þetta og hann lofaði mér því að það yrði eitthvað gert til að bæta þeim sem lentu í þessu þetta upp. Þannig að það er bara að hringja í Jón Eirík í síma 591-5130 :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2008 | 09:00
Geðklofin
Já ég er mjög geðklofin varðandi þessi mótmæli bílstjóra. Ég er alveg ægilega ánægð með að fólk skuli mótmæla því það finnst mér afar svalt en á hinn bóginn þá er ég á móti því að olíugjaldið sé fellt niður.
1) Ég held að á þessu dreifbýla landi veiti nú ekki af þessum peningum til að halda uppi vegakerfinu og er mjög sátt við að þeir sem noti það borgi fyrir það.
2) Ef það er hægt að fella niður einhver gjöld þá held ég að það séu til gjöld sem sniðugra væri að fella niður. T.d. gjöld á rafmagnstæki. Það myndi nýtast öllum í þjóðfélaginu og ég veit ekki til þess að þau gjöld séu notuð í eitthvað sem aðeins viðkemur þeim sem greiða þau eins og olíugjöldin. Þar að auki myndi það auka veltu hjá þeim sem selja rafmagnstæki því við myndum ekki kaupa þau í útlöndum eins og margir gera í dag. Það er síðan líka betra fyrir neytendur því það er ekki gott að segja hvernig er með ábyrgð á tækjum sem eru keypt í útlandinu.
3) Þetta er líklega eini skattur landsins sem er fullkomlega sanngjarn. Þeir sem bruðla mest borga mest. Þeir sem leggja á sig til að spara, t.d. með því að taka stætó, hjóla eða vera á sparneytnum bílum, þeir borga minnst. Ég held þetta gæti bara ekki verið mikið sanngjarnara.
4) Það væri hægt að setja allan þann pening sem kemur inn með olíugjöldunum í að byggja upp almannasamgöngur. Sjitt hvað ég yrði glöð með það :)
Yfir í annað. Ég fór á myndina Stóra plannið um helgina. Hún stóð alls ekki undir væntingum. Mér fannst húmorinn frekar slappur og eitthvað bara illa unnið úr efninu, því hugmyndin er góð finnst mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2008 | 23:34
Góð mynd
Ég mæli með þessari fyrir alla, mjög fræðandi og gott innleg í umræðuna um lögleiðingu vændis
http://www.womenlobby.org/site/video_en.asp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2008 | 10:17
Brúðguminn og fleira
Ég fór í bíó í gær og sá Brúðguman. Það er alveg snilldarræma, maður var alveg í hláturkrampa annað slagið en samt var verið að fjalla um mjög alvarleg málefni á mjög djúpan hátt. Ég held nú bara svei mér þá að þetta sé besta íslenska mynd sem ég hef séð. Ég verð að segja að íslenskri kvikmyndagerð hefur farið mikið fram síðustu árin og í dag lendir maður varla í því að sjá lélega mynd og þær virðast bara verða hver annarri betri. Þetta er alveg magnað!
Ég er hrikalega spennt yfir að sjá hvernig þessu borgarstjórnarmáli vindur fram, hvort Ólafur fær flensu eða eitthvað annað og allt fari í flækju aftur. Þetta er nú meira fjandans ruglið og ég skil ekki að nokkur manneskja nenni að standa í því að vera í pólitík. Ég skil amk Björn Inga mjög vel að nenna þessu ekki lengur, hann getur pottþétt fengið eitthvað verulega gott starf þar sem hnífasettin eru í mestalagi gefin í jólagjöf og þá innpökkuð.
Ég sá í fréttum á vef viðskiptablaðsins í dag að það er verið að gera breytingar hjá Símanum og í dag er jafn kynjahlutfall í stjórn fyrirtækisins. Ég veit að Sævar Freyr er einn af góðu gaurunum og á pottþétt eftir að brillera sem forstjóri Símans enda sést það á þessu. Ég las um rannsókn um daginn þar sem sýnt var að rekstur fyrirtækja sem hafa stjórnarmenn af aðeins öðru kyninu er skuldsettari en rekstur fyrirtækja sem hafa stjórnarmenn af báðum kynjum. Þetta er einmitt málið, það þarf að hafa jafnvægi í þessu,
Talandi um kalla og kéllingar þá er ég búin að ákveða það með sjálfri mér að vera hlynnt kynjakvótum í stjórnmálum og fyrirtækjastjórnum. Það væri auðvitað best ef það þyrfti ekki að setja þá á en því miður, eins og einn kennari minn orðaði það um daginn: þarf stundum að þvinga fólk til frelsis. Þannig lítur út fyrir að flest fyrirtæki og ég tala nú ekki um alþingi og ríkisstjórnina, þurfi að þvinga til þess að nýta þá leið sem er best fyrir reksturinn, þ.e. kynjablandaða stjórn. Ég neita hreinlega að trúa því að í dag, þegar konur hafa jafna menntun á við karla, sé ekki hægt að finna konur í helming stjórnunarstarfa. Ég vann lengi hjá Símanum og þar var ótrúlega hátt hlutfall kvenna stjórnendur, miðað við flest önnur íslensk fyrirtæki, og ég held það deili fáir um það að Síminn sé vel rekið fyrirtæki og flestir sem ég þekki sem hafa unnið hjá Símanum eru sammála um að það sé góður vinnustaður. hehe, nema einn gaur sem sagði einu sinni við mig að maður þyrfti að hafa píku til að komast eitthvað áfram hjá Símanum. Hann hefur ábyggilega ekki verið að klifra metorðastigann eins hratt og hann hafði vænst til, þá er náttla um að gera að kenna kéllingunum um það frekar en líta í eigin barm. Hann fór svo að vinna annarsstaðar, kannski gengur honum betur þar, ég veit það ekki.
Bloggar | Breytt 29.1.2008 kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2008 | 14:31
Alltaf svo hinsegin
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2007 | 15:55
Airwaves - fyrri hluti
Jæja, það er ekki seinna vænna að blogga Airwaves. Ég verð nú að viðurkenna á mig dáldin aumingjahátt því ég sleppti alveg miðvikudagskvöldinu og tók því líka ansi rólega á fimmtudagskvöld.
Á fimmtudagskvöldinu sá ég fyrst Jennu Wilson í Hafnarhúsinu, hún var alveg fín, minnti dáldið á Reginu Spector og ég væri alveg til í að hlusta aðeins meira á kélluna. Hún var líka í voða flottum fötum og með tvær konur og einn karl með sér í hljómsveit, það er nú alltaf plús í minni bók að vera með kellur í bandi.
Eftir Jenny þurfti ég af óviðráðanlegum orsökum að skreppa heim en kom aftur til að ná tveim síðustu lögunum hjá Lay Low. Annað lagið hafði ég ekki heyrt áður og var dáldið skemmtilegur blús en hitt var bara eitthvað gamalt dót.
Að lokum kom hljómsveitin Grizzly Bear. Mér fannst hún bara ansi leiðinleg. Það er alveg ljóst að gaurarnir kunna vel að spila á hljóðfæri og eru góðir í því en lögin voru bara alveg ægilega leiðinleg og langdregin, ég hugsaði á tímabili að það myndi örugglega hjálpa ef mar hefði tekið einhver skynörvandi efni, en það hafði ég náttla ekki gert svo við hjónin lölluðum okkur út á þriðja lagi og fórum heim í kúrið.
Föstudagur:
Við ákváðum að halda okkur bara á Gauknum enda höfðum við komist að því kvöldið áður að það hefur greinilega verið ákveðið að halda uppi biðraðastemmningu á Airwaves að vanda. Við vorum látin standa tvö ein í röð fyrir utan hafnarhúsið í svona þrjár mínútur, bara upp á fönnið virtist vera því þegar við komum inn var hálftómur salur.
Fyrst sáum við hljómsveitina Sudden Weather Change. Hún var bara ansi hreint góð, þétt rokk og töff lög. Það hefði samt verið mjög töff ef þeir hefðu sungið á Íslensku. Maður á örugglega eftir að heyra í þeim einhverntíman aftur.
Næst var það Jan Mayen. Það voru dáldil vonbrigði fannst mér. Þeir voru ekki nógu þéttir og lögin bara ekkert sérstaklega góð. Söngvarinn finnst mér heldur ekki vera með alveg nógu skemmtilega rödd. Þarna var það jafnvel enn meira áberandi hvað það kemur stundum leim út þegar íslenskar hljómsveitir eru að syngja á ensku, það hefði örugglega gert eitthvað til að bæta frammistöðuna ef textarnir hefðu verið á íslensku.
Þá var það hljómsveitin Reykjavík! Ég hafði einu sinni áður séð þá á tónleikum og það var alveg hreint út sagt gargandi snilld. Það var fyrir hálftómu húsi á NASA þar sem mig minnir að þeir hafi verið að hita upp fyrir einhverja hljómsveit. Þar brilleruðu þeir algjörlega, bæði í sviðsframkomu og tónlist, sérstaklega þó sviðsframkomunni því þeir voru svoleiðis hoppandi og skoppandi út um allt í þvílíku stuðinu. Það var ekki að gerast í gær á Gauknum. Þeir höfðu náttla bara litla sviðið og svo var krádið alveg þétt upp að því en þeir voru þó eitthvað að brasast við að standa á grindinni fyrir framan sviðið en það var bara ekki alveg nógu mikið tjútt í því og tónlistin var bara eitthvað ekki alveg að gera sig.
Við hjónin ákváðum að þora ekki að vera áfram á Gauknum til að sjá Deerhoof sem við vorum þó ansi spennt fyrir því við vissum að þá væru dyraverðir í hafnarhúsinu vísir með að halda okkur í röð þangað til tónleikar Of Montreal væru búnir og það vildum við ekki fyrir okkar litla líf svo við ákváðum að skella okkur í röðina og vera komin inn áður en röðin færi fram hjá Tollhúsinu. Þetta þýddi auðvitað að við neyddumst til að hlusta á Múm, sem var nú reyndar í hressari kantinum svo það var ekki svo slæmt, svo var náttla bara hægt að nota tímann í að standa í klósettröðinni og bjórröðinni og svoleiðis. Ekki það að þessar raðir voru ekki svo langar enda ekki svo margir inni í húsinu þrátt fyrir að fólki væri haldið í röð fyrir utan.
Síðastir á dagskrá þetta kvöldið var svo snilldarbandið Of Montreal. Þau voru alveg nokkuð góð enda getur hljómsveit sem á svona mikið af ógeðslega hressum lögum varla klikkað á tónleikum. Söngvarinn og annar gítarleikarinn voru í voða búningum og maður bjóst dáldið við einhverju flottu sjói og þvílíkri stemmningu enda hefur maður heyrt af því að þau séu oft dáldið nöttkeis á tónleikum. En það varð ekki. Hljómsveitin var lítið í því að reyna að ná einhverjum kontakt við áhorfendur, sem ég held því fram að sé lykilatriðið að velheppnuðum tónleikum. Svo þau voru bara að skoppast þarna uppi á sviði og spila snilldarinnar góða tónlist (amk flest lögin) og við áhorfendur bara að skoppast niðri á gólfi í góðu stuði en lítil samskipti þarna á milli. Hljómsveitin var svo klöppuð upp á eftir og kostur er að þau létu ekki bíða lengi eftir sér heldur komu eiginlega bara strax aftur en máltækið easy come, easy go átti vel við þarna því þau spiluðu bara eitt lag í viðbót og létu sig svo bara hverfa.
well, over and out
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 11:18
RIFF - restin
Jæja, það er eins gott að setja botninn í kvikmyndarausið í bili, það má alla veganna ekki láta þetta fara eins og með Hróarskeldubloggið sem ég setti botninn í næstum hálfu ári eftir heimkomuna.
Fimmtudagur:
Byrjaði á því að fara á myndina Happy new life. Gegt töff titill og umsögnin um hana virkaði líka spennandi, ég meina hvernig gæti mynd um líf munaðarleysingja í Ungverjalandi verið annað en spennandi? Jæja, það reyndist ekki svo og ég gekk út eftir hinar lögboðnu 30 mínútur.
Einkalíf okkar var síðan fín mynd. Það voru tvær manneskjur sem höfðu kynnst á netinu og gaurinn kom að heimsækja gelluna til Kanada en þau eru bæði búlgörsk. Það er voða sæla og hamingja til að byrja með enda eru þau bæði voða sæt og skemmtileg en síðan eftir nokkra daga fer að verða meiri ágreiningur. Þetta var alveg stórgóð mynd og skemmtilega kaflaskipt.
Tryllt ást er heimildarmynd um gaur sem verður hrikalega ástfanginn af rosa flottri gellu og þau fara að vera saman en hún hættir síðan með honum og hann fer að stalka hana og endar á því að ráða menn til að fara heim til hennar og skvetta sýru í augun á henni þegar hún kemur til dyra. Hún verður blind af þessu og hann er settur í fangelsi í 14 ár en þegar hann sleppur út fer hann strax að stalka hana aftur og biður hana að giftast sér og hún segir já. Þetta var alveg ótrúlega merkileg mynd og alveg magnað að fá að forvitnast svona um fólk sem manni finnst vera algjörlega nöttkeis og auðvitað kemst maður að því að á bak við allan fáránleikann leynast tilfinningar sem flest okkar þurfa einhverntíman að díla við. Málið var það að konan var hrikalega falleg áður en þetta gerðist en var auðvitað alveg mjög sköðuð um augun eftir sýruna og alltaf með sólgleraugu. Svo eignaðist hún kærasta sem var voða skotinn í henni en hætti með henni þegar hún tók niður sólgleraugun og eftir það meikaði hún ekki að standa í neinu strákastandi af því að hún var svo hrædd um að þetta gerðist aftur. Svo þegar gaurinn kemur úr fangelsi og er svo ógisslega ástfanginn af henni þrátt fyrir augnadæmið þá ákvað hún bara að giftast honum því hún sá ekki fram á að ganga út.
Þetta er náttla hrikaleg dæmisaga um það hvernig fólk settlast á eitthvað af því að það hefur ekki nóga trú á sér til að halda áfram að leita þangað til það finnur það sem það vill.
Föstudagur:
Listin að gráta í kór var fyrsta myndin þennan dag. Hún var hreinræktuð snilld. Mig langar ekkert smá til að sjá hana aftur, líka af því að ég missti af fyrstu 15 mínútunum vegna þess að miðasalan í Tjarnarbíó slær öll heimsmet í hægferð. Myndin er alveg listilega vel leikin, sagan er snilld og bara allt eins og það getur best orðið í kvikmynd. Mæli gríðarlega með þessari.
Næst lá leiðin á myndina Írak í brotum. Mér fannst hún ekki sérlega góð og fannst hún ekki vera að fanga nógu vel einhverja stemmningu í Írak. Hún var í þremur köflum og sagði þrjár ólíkar sögur. Mér fannst hún bara vera samhengislaus og yfirborðskennd en öðrum þykir hún ljóðræn og listaverk. Svona er misjafn smekkur.
Síðasta mynd dagsins var Skuggasveitir. Hún fjallar um málaliðabissnessinn. Það er verið að tala um þetta í samhengi við Írak en í raun er bara verið að útskýra hvað málaliðar eru og svoleiðis. Ég er nú mjög lítil áhugamanneskja um stríð en mér fannst ég nú ekki vera að fá neinar nýjar upplýsingar því þetta voru eitthvað svo mikil grunnatriði sem var verið var að fara yfir og af því leiddi að myndin var í mínum huga ótrúlega leiðinleg og langdregin.
Laugardagur:
4 mánuðir 3 vikur og 2 dagar var mjög fín mynd. Þunglyndisleg austur-Evrópsk mynd um ólétta unga stúlku sem fer í fóstureyðingu sem er ólöglegt. Myndin er mjög vel gerð og tekst mjög vel að mála trúverðuga mynd af samfélaginu í Rúmeníu. Mæli með henni en kannski ekki fyrir þá sem eru þunglyndir fyrir :)
Næst var líka mjög góð mynd. Mótstöðu mætt. Það er heimildarmynd um andspyrnuhreyfinguna í Írak. Alveg ótrúlegt hvernig tveim vestrænum manneskjum tekst að ná sambandi við hreyfingu sem gengur út á að berjast gegn vestræna hersetuliðinu. Þau tvö sem gerðu myndina svöruðu spurningum í lok hennar og voru að sjálfsögðu spurð um hvernig þeim hefði tekist að ná sambandi við þetta fólk og þau sögðu frá því að það hefði snúist um að túlkarnir þeirra kæmu þeim í samband við fólk en ekki síður að vinna traust fólksins í samfélaginu og láta það berast að þau vildu fjalla um málefnið. Þau mættu t.d. á sömu kaffihúsin á sama tíma á hverjum degi og létu berast að það væri hægt að nálgast þau þar. Þetta hefur kannski verið dáldið svipuð tækni og David Attenborough notaði. Algjör snilldarmynd sem sýndi manni virkilega hina hliðina á máli sem allir þekkja aðra hliðina á.
Óbeisluð fegurð var líka snilld. Myndin náði nokkuð vel að fanga stemmninguna í kringum keppnina og var ljómandi góð sem slík. Reyndar var óþolandi einhverjir stælar með að vera alltaf að súmma inn og út á mjög klaufalegan hátt sem var engan veginn að gera sig sem eitthvað töff fyrir mig. En þessi keppni er hreinlega bara alveg ofursvöl. Þarna er allskonar fólk af öllum stærðum og á öllum aldri að keppa í fegurð og mesta bjútíið við þetta er að þau eru öll rosalega falleg, bara ekki á staðlaðan hátt fegurðarsamkeppna. Þarna er til dæmis ein kona sem er að glíma við þunglyndi og kvíðaröskun og þátttaka hennar í keppninni er hluti af því sem hún gerir til að ná bata, ég meina, það gerist ekki mikið fallegra. Mér fannst líka bara, þegar ég labbaði út af myndinni, búin að horfa á fólk í öllum stærðum vera að spranga á sviði í sínu fínasta pússi og taka þátt í tískusýningu þar sem allir voru að sýna föt sem fóru þeim mjög vel, að ég kynni enn betur að meta mína eigin fegurð, sem er gríðarmikil samkvæmt fegurðarstaðli Sóleyjar :)
Ég vildi óska að það væri meira sýnt af venjulegu fólki vera að sýna hvað það er hott og flott heldur en alltaf bara einhverjar mjónur sem hafa fengið stílíseringu dauðans í morgunmat.
Síðasta myndin á hátíðinni sem ég sá var teiknimyndin Azur og Asmar. Hún var mjög fín og Gísli, sem er 10 ára fór með okkur á hana og hann var alveg að fíla hana þrátt fyrir að hún væri á frönsku og arabísku og með enskum texta. En krakkar á aldrinum 5-8 ára voru farin að ókyrrast heldur betur þegar fór að síga á seinnihluta myndarinnar. Sagan var nokkuð gamaldags og einföld ævintýrasaga um prinsa og prinsessur og allt var gott sem endaði vel. Það var reyndar mjög sterkur boðskapur um kynþáttafordóma sem var í raun þema myndarinnar og gekk mjög vel upp fannst mér.
Jæja, þá er það búið í bili með bíóferðirnar enda er mar nánast kominn með rassæri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2007 | 13:44
RIFF þriðjudagur og miðvikudagur
á þriðjudaginn sá ég myndina Járnbrautarstjörnur sem fjallar um vændiskonur í fátækrahverfi í Gvatemala sem stofna fótboltalið til að vekja athygli á slæmum aðstæðum sínum. Myndin var alveg frábær, svo sem bara klassísk heimildarmynd en efnið gríðarlega áhugavert og persónurnar flestar líka. Það er ótrúlega sorglegt að þarna séu, á botni samfélagsins sem er á botni samfélagsins sem er á botni samfélagsins (vændiskonur í fátækrahverfi í borg sem er fátæk í heimsálfu sem er fátæk) konur sem ekkert virðast hafa til þess unnið að vera þarna. Þær virkuðu flestar nokkuð gáfulegar bara og rétt eins og ég og þú en það sem þær áttu allar sameiginlegt var að eiga erfiðar fjölskylduaðstæður að baki. Það er því miður þannig í þeim löndum sem ekki hafa tileinkað sér velferðarkerfi að ef þú lendir í skítnum þá kemstu ekki upp úr honum og það var því miður þannig með allar þessar konur að þær höfðu lent í vandræðum mjög ungar og voru að lokum komnar á þennan stað í lífinu sem er líklega með því lægsta sem hægt er að komast, að selja sig á 2-3 dollara. Mér varð hugsað til þess einhversstaðar í miðri mynd hvað tæki eiginlega við hjá þeim þegar þær eltust því ef ungar, nokkuð myndarlegar konur, selja sig á 2 dollara hvað geta þær þá gert þegar enginn er til í að borga lengur? Það var ein gömul kona þarna í myndinni sem lifði á því að selja hinum vændiskonunum smokka, en ég hugsa að þær geti varla allar lifað á því þegar þær eru orðnar gamlar. Því miður þá endaði myndin þannig að þær voru allar í sömu aðstæðum áfram, engin hafði fengið tækifæri til að hífa sig upp úr eymdinni en sem betur fer fékk eg ekki svarað spurningunni um hvað yrði um þær síðar meir því ég er ekki viss um að ég hefði getað farið út ógrátandi ef ég vissi það.
mynd númer tvö á þriðjudaginn var myndin Ein hönd getur ekki klappað. Hún er eftir tékkneska leikstjórann David Ondricek sem er í kastljósinu á þessari hátíð og sýndar eftir hann þrjár myndir. Þessi mynd var algjör snilld. Hún var ekki þessi þunglynda austur-Evrópumynd sem maður er búin að sjá mikið af (ekki að ég sé að kvarta yfir því samt) heldur er þetta bara ógeðslega fyndin gamanmynd. Ekki mikið meira um hana að segja nema bara að ég mæli sérlega með henni í næsta vídjótjill á öllum heimilum :)
Mynd númer þrjú á þriðjudaginn var svo Maður án fortíðar eftir Aki Kaurismäki. Þetta er fyrsta mynd sem ég sé eftir kallinn, sem er náttla alveg skandall! en örugglega ekki sú síðasta því hún var alveg stórgóð. Bæði fyndin og sorgleg en umfram allt frábær saga og gríðarlega vel gerð mynd með snilldar persónusköpun.
Á miðvikudaginn byrjaði ég á myndinni Bleikur, sem ég var bara ekki að botna neitt í og fór út eftir lögbundna hálftímann. Það er sko þannig í lögunum hjá mér að maður verður að gefa myndinni sjens í 30 mínútur en ef hún hefur ekki náð manni á þeim tíma þá gerir hún það líklega ekki. Ég geng samt sjaldnast út af myndum nema þegar ég er að taka svona hátíðarmaraþon, þá er nefninlega þolinmæðin fyrir myndunum miklum mun minni en venjulega. En svei mér þá, ég gæti alveg trúað að ég hefði gengið út af þessari þótt ég væri stödd á eyðieyju (þar sem væri bíó og bara þessi mynd sýnd).
Næst var Heimsókn hljómsveitar. Ég hafði ekki ætlað á hana en sá að hún var að meika svo mikið af verðlaunum í Köben fyrir stuttu svo ég ákvað að breyta planinu og skella mér. Ég get nú ekki sagt að það hafi verið svo sérstaklega góð hugmynd því mér fannst þessi mynd svona hálfkjánaleg. Það gerðist í raun ekkert í henni nema einhverjar hálfvandræðalega aðstæður sem hefðu sómt sér vel í oldstyle íslenskum fjölskyldudramamyndum a la Hafið oþh.
Þá lá leiðin á aðra mynd eftir David Ondricek (sama og var með fyndnu myndina daginn áður.) Það var myndin Grandhótel. Hún var nokkuð ágæt bara, alls ekki jafn fyndin og hin sem ég sá en alveg þokkaleg samt. Það gæti reyndar hafa skemmt eitthvað fyrir mér að ég var alveg að pissa í brækurnar síðasta hálftímann en nennti ekki á klósettið, svo ég var dáldið að bíða eftir að myndin yrði búin. Og fékk síðan bara klósett sem var ekki hægt að læsa þegar ég loksins komst út. Ég verð að segja að klósettaðstaðan í Regnboganum er bara fyrir neðan allar hellur. Það er alltaf þvílík hlandlykt þar inni og svo er klósettpappírinn annað hvort búinn eða að rúllurnar eru lausar og látnar liggja ofan á rúlluhaldaranum og auðsjáanlegt að þær hafa fengið nokkra túra í gólfið. Geðslegt ha!
Jæja, ég er að verða of sein í bíó. Gúddbæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2007 | 15:46
RIFF - mánudagur
Skipulag gærdagsins hljóðaði upp á fjórar myndir. Þar af reyndust tvær það óspennandi að við röltum okkur út eftir ca 30 mínútur en það voru myndirnar Eigið þér annað epli og Alexandra. Þær voru nú svo sem ekkert svo slæmar en samt ekki eitthvað sem við nenntum að sitja yfir :)
Hinar tvær myndirnar sem við sáum voru hins vegar alveg frábærar. Sú fyrri heitir XXY og fjallar um 15 ára ungling sem fæddist tvíkynja og foreldrarnir ákváðu að taka ekki ákvörðun um það hvort kynið barnið ætti að vera. Mér fannst myndin alveg frábær og frábært hvað hún tók á mörgum hliðum málsins, fór vel að því en var samt alveg að fara alla leið með þetta viðkvæma mál. Gallinn við hana var sá að það var ýmislegt í söguþræðinum sem maður fékk ekki skýringu á en það má kannski segja að stundum sé allt í lagi að segja aþþíbara, stundum þurfa hlutirnir ekkert endilega að meika brjálaðan sens heldur er allt í lagi, sögunnar vegna, að segja bara aþþíbara.
Seinni myndin var Vandræðamaðurinn og er norsk. Alveg snilldarmynd sem er ádeila á neysluhyggjuna og yfirborðskenndina sem við erum öll að berjast við. Ekki bara skemmtileg hugmynd heldur líka mjög vel gerð. Umhverfið var alltaf algjörlega í takt við söguna og myndatakan mjög góð.
over and out, farin í bíó :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2007 | 09:42
Og hver sagði að klíkuskapur einkenndi íslenska pólitík?
![]() |
Siglfirðingar fjölmennir á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sóley Björk Stefánsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar