fátækt eða siðleysi?

Ég er ein af þeim sem hafa verið tvístígandi í skoðun minni á Icesave en í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað síðustu vikurnar hef ég náð að sjá í gegnum orðhengilshátt stjórnarandstöðunnar og áttað mig á því um hvað málið raunverulega snýst.

Ég get ekki betur séð en að valkostirnir séu tveir:
Ríkisstjórnin mælist til þess að við tökum afleiðingum gjörða okkar og göngumst því því að borga skuldir óreiðumannanna.

Stjórnarandstaðan vill standa fast í lappirnar og nota eitthvað sem mér virðist vera samblanda af pólitískri leið og lögfræðilegri leið (eins og þetta er greinilega oft orðað, sérstaklega hjá Bjarna Ben.)

Pólitíska leiðin virðist mér vera sú að reyna að kreista fram tár og horfa svo stórum barnalegum augum á fullorðnu þjóðirnar í kringum okkur og segja bara að þær geti nú ekki gert okkur það að láta okkur borga þetta af því að við erum bara allt of lítil til að borga svona stóran pening.

Lögfræðilega leiðin er sú að segja bara haltu kjafti ég borga ekki rassgat "so sue me" og fara fram á það að fullorðnu þjóðirnar höfði mál gegn okkur hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta er ekki alveg jafn barnalegt og pólitíska leiðin, meira svona unglingaveikin.

Ég hef sem sagt val um að vera siðlaus og reyna að skjóta mér undan minni eigin ábyrgð* og reyna að hafa eins mikið fé út úr útlendingum og ég mögulega get eða ég get valið að segja ókei, andskotans drasl að lenda í þessu, best að reyna að fá sem skárst kjör á því að borga þetta drasl og bíta svo á jaxlinn.

Ég get sem sagt valið um að vera fátæk eða siðlaus. Persónulega þarf ég ekki að hugsa mig um tvisvar, ég kýs fátæktina á hverjum degi fram yfir siðleysið, En þetta er eitthvað sem hver þarf að gera upp við sig.

Ég er ánægð með Ögmund og félaga hjá VG sem leggja mikið á sig til að gera þetta helvíti aðeins skárra en það er. Guðmundur Steingrímsson kom nokkuð hreint fram í viðtali í morgunþætti Rásar 2 hérna áðan þegar hann talaði um hversu mikilvægt væri að setja fyrirvara við ríkisábyrgð en þegar hann var svo spurður að því hvort hann myndi þá greiða atkvæði með málinu á Alþingi sagðist hann ekki myndu gera það. Ekki skil ég hvers vegna hann er þá að leggja alla þessa vinnu í málið ef hann ætlar svo bara að kjósa gegn því. Þetta styður þá skoðun mína að stjórnarandstaðan hafi hreint engar lausnir á málinu og ef þau komast til valda eiga þau væntanlega eftir að fokka þessu jafn hryllilega upp og þau hafa fokkað öllu öðru upp hér á landi.

Ég veit ekki betur en að Bjarni Ben hafi sjálfur verið aðalflutningsmaður tillögu til Alþingis í desember sem fól ríkisstjórninni að ljúka samningum um málið með þeim orðum að „ekki væri annarra kosta völ“. Þá þegar hafði fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins samið við Hollendinga um 6,7% vexti, 10 ára lánstíma og að afborganir hæfust strax. Nýi samningurinn ber hinsvegar aðeins 5,5% vexti er til 15 ára og er afborgunarlaus í 7 ár auk þess sem það má greiða hann upp hvenær sem er ef betra lán býðst Íslendingum. (www.hehau.blog.is). Það er ljóst að upphæðin af 6.7% vöxtum með 10 ára lánstíma er lægri en upphæðin af 5,5% vöxtum til 15 ára, en spurningin er hvort það væri raunhæft að ætla að greiða þetta niður á næstu 10 árum og ef það gengi ekki upp, hverjir væru þá dráttarvextirnir???

* Af hverju ber ég ábyrgð: já ég hefði örugglega getað verið virkari í pólitíkinni og reynt að hafa meiri áhrif á það fólk í kringum mig sem ég vissi að væri að kjósa þessa hægri spillingar vitleysu. Ég hlýt sem Íslendingur að bera sameiginlega ábyrgð á mínu samfélagi, ég hef amk notið þeirra sameiginlegu gæða sem það veitir mér.


mbl.is Andstaða líka í Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef tvennt við þetta að athuga:

Í fyrsta langi er ótrúleg einföldun og hreinlega rangt að ýja alltaf að því að við andstæðingar Icesave samningsins séu siðblindir glæpamenn af því að við viljum "hafna" Icesave og "ekki gangast við ábyrgð okkar". Þetta er ekki rétt framsetning hjá þér. Flest okkar viðurkenna ákveðna ábyrgð Íslenska ríkisins og vitum að eitthvað verður á endanum að borga til baka.

Við hinsvegar höfnum með öllu þessum samningssnepli sem Svavar Gestsson skrifaði undir af því að hann nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur. Þetta er lélegur samningur, vondur, íþyngjandi og ósanngjarn. Þó svo að við viðurkennum ábyrgð er ekki þar með sagt að við verðum að viðurkenna hvaða samningsóhroð sem er. Við viljum semja aftur og fá réttlátari og sanngjarnari samning. Við erum ekki reiðubúin að fórna öllu, þar með talið framtíð barnanna okkar, bara til að komast inn í ESB. Við teljum þann inngöngumiða of dýran.
 
Í öðru lagi eru það staðhæfingarnar sem Icesave-stuðningsfólk slengir alltaf fram: "Ríkisstjórnin mælist til þess að við tökum afleiðingum gjörða okkar" og "Við verðum að borga skuldir okkar". Það er svosem satt og rétt að allir eiga að borga skuldir sínar, en það er ótrúleg einföldun og í raun óskiljanlegur lydduháttur og allt að því landráð að tala um að Icesave séu skuldir "okkar". Það var einkafyrirtæki sem stofnaði til þessara skulda. Það voru nokkrir (nafngreinanlegir, enda frekar fáir) einstaklingar í banka-, viðskipta-og embættismannakerfinu (bæði innanlands sem utan) sem brugðust. Það var ekki Íslenska þjóðin. Vinsamlegast áttið ykkur á því og hættið að tala um þetta sem "okkar" skuldir.

Hættið svo í leiðinni að hamra á þessu með "sameiginlegu ábyrgðina". Það er enginn í heiminum - ekki einu sinni Bretar - sem túlka þetta svona eins og þið gerið. Manstu t.d. þegar Lehman Brothers bankinn fór á hausinn í Bandaríkjunum í upphafi hruns (nokkrum vikum áður en íslensku bankarnir hrundu)? Veistu að sá banki, hrun hans og afleiðingar þess voru af þeirri stærðargráðu að þegar hann hrundi þá töpuðu breskir sparifjáreigendur upphæðum sem eru tugum ef ekki hundruðum sinnum hærri en Icesave?

Borgðuðu Bandaríkjamenn þeim þetta til baka? Nei.

Hvað gerðu Bretar þá? Barði Gordon Brown í borðið, heimtaði greiðslur, skaðabætur, dráttarvexti og útlagðan kostnað? Setti hann hryðjuverkalög á Bandaríkin eða frysti eigur bandarískra fyrirtækja? Nei. Bretar gerðu ekkert af þessu. Þeir ypptu öxlum og tóku þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Berið þetta saman við meðferðina sem Bretar beita Íslendinga núna og spyrjið ykkur svo hvort að framferði Breta og kröfur eigi eitthvað skylt við "sanngirni", "réttlæti" eða "siðferði".

Ef þið getið ekki séð þetta þá eruð þið blind. Þá eruð þið fólkið sem Halldór Laxness hafði í huga þegar hann skrifaði fyrir næstum 80 árum: "Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."

-Hilmar Ólafsson, hneykslaður

Hilmar Ólafsson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 09:10

2 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Góður texti hjá þér Hilmar :) Það er líklega rétt sem þú segir, maður verður að vera stór og sterkur til að geta svikið aðra. Skil það vel að þér finnist asnalegt að ég sé til í að vera sátt við að vera bara lítið peð sem get ekki vaðið yfir aðra og þú hefur allan rétt á þeirri skoðun -við erum jú svo misjöfn mannfólkið :)

Kannski ættu bara allir sem vilja hafa hægri sinnað samfélag að flytja til stærri landa þar sem það gengur upp að valta yfir aðra með hroka og yfirgangi, sem því miður virðist vera orðið aðalsmerki hægri stefnunnar :/

Ég veit ég er að einfalda málin dáldið, en ég er hreinlega komin með upp í háls af því að hlusta á eintómt argaþras og málalengingar. Vona að eg særi þig ekki með því.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 09:18

3 identicon

Hjartanlega sammála Hilmari! Það er ótrúlegt að nokkrum detti í hug að þetta séu skuldir "okkar". Ég hafði allavega ekkert með Icesave að gera þegar þessir reikningar voru stofnaðir og það sama er að segja um alla þá íslendinga sem verið er að reyna að setja í skuldaklafa næstu árin vegna þess að fáeinir útsmognir "viðskiptasnillingar" tældu saklaust fólk til að leggja fé sitt inn á þessa reikninga sem síðan voru tæmdir í gróðrarbrask hinna sömu "viðskiptasnillinga" og sorglegt að heyra að búið er að heilaþvo nokkra landsmenn í því að þetta sé allt okkur að kenna og að okkur beri að greiða hverja krónu sem sett er upp í þessu máli. Það er rangt og óréttlátt að halda þessu fram!

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 09:24

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það getur vel verið að þér beri að borga verulega stóran hluta tekna þinna í Icesave og ekki ætla ég að þræta við þig um það.

Það er hinsvegar fullkomin ósvífni að ætla að ávísa þessu á börn og barnabörn okkar og gera þeim ókleyft að búa hér á landi. 

Sigurður Þórðarson, 12.8.2009 kl. 09:25

5 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Hilmar, Edda og Sigurður. Ef þið hafið kosið sjálfstæðisflokkinn eða framsóknarflokkinn einhverntíman á síðustu 22 árum þá eigið þið mjög stóran hlut að máli!

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 09:36

6 identicon

Sóley, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru ekki í ríkisstjórn fyrir 22 árum. Ef þú ætlar í einhverjar söguskýringar og rekja fall bankanna 20 ár aftur í tímann þá ættir þú að horfa til EES-samningsins, sem leyfir m.a. frjálsa för fjármagns og stofnun fyrirtækja hvar sem er innan EES-svæðisins.

Bottom line er að nú liggur Icesavesamningurinn fyrir sem snillingurinn Svavar Gestsson kom heim með til þjóðarinnar. Hver ber aðalábyrgðina á því, jú hættulegasti maður landsins Steingrímur J. Samfylkingin er stikk.

Við værum betur sett ef við höfðum sent hóp af laganemum frá HÍ til að semja fyrir Íslands hönd en þetta skoffín. En jú Steingrímur J er tilbúinn að fórna öllu til þess eins að Sjálfstæðisflokkurinn komist ekki aftur til valda. Það er hans eina markmið og hans þráhyggja. Hann er ekki að vinna fyrir þjóðina heldur eingöngu sjálfan sig og sinn auma pólitíska feril. Hann er svo blindaður af hatri í garð hægri flokkanna að honum er fyrirmunað að taka skynsamar ákvarðanir.

Margrét (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 10:06

7 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

auðvitað meinti ég 20 ár. Ég vil nú samt ekki meina að meinið sé EES-samningurinn heldur mun frekar spilling, þöggun, frjálshyggja, verktakaræði og álíka hlutir sem eru aðalsmerki ríkisstjórna D+B síðustu tvo áratugi.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 10:16

8 identicon

Athugasemdir á borð við "maður verður að vera stór og sterkur til að geta svikið aðra" eru síst málstað þínum til framdráttar. Ef að við viljum ekki samþykkja skilyrðislaust einhliða kröfur Breta og Hollendinga - kröfur sem þeir hafa ekki borið fram við sér stærri þjóðir og treysta sér þar að auki ekki einu sinni til að leggja fyrir alþjóðadómstóla - erum við þá að "svíkja" einhvern nema okkur sjálf?

Síðan er það athugasemdin "Skil það vel að þér finnist asnalegt að ég sé til í að vera sátt við að vera bara lítið peð sem get ekki vaðið yfir aðra" sem gerði mig alveg kjaftstopp. Alveg ótrúlegt. Ertu semsagt sátt við að vera lítið peð sem leyfir ÖÐRUM að vaða yfir ÞIG? Ætlarðu semsagt að þola kúgun og yfirgang af kurteisi og hægversku, eins og Laxness skrifaði?

Ef að t.d. Svavar og aðrir í íslensku Icesave samninganefndinni settust að borði með sama hugsunarhátt, þá er ég svosem ekkert hissa á niðurstöðunni. Hamingjan sanna. Ertuð þið viss um að þið viljið ekki bara leggjast upp í rúm með dregið yfir höfuð og biðjast afsökunar á að vera yfirhöfuð til og draga andann?

Ég held að þú og fleiri Icesave-sinnar hefðuð gott af að lesa leiðara Financial Times í dag. Slóðin er:

http://www.ft.com/cms/s/0/bf7cbbae-86c0-11de-9e8e-00144feabdc0.html

Athugaðu að þarna skrifar ritstjórn eins virtasta og íhaldssamasta rits í breska (og jafnvel alþjóðlega) fjármálaheiminum. Þegar þessi ritstjórn tjáir sig, þá er lagt við hlustir. Af því að þetta eru íhaldssamir Bretar og vandir að virðingu sinni, þá spara þeir gífuryrðin og stóru orðin (öfugt við t.d. ritsóða eins og mig), en samt sem áður segja þeir í þessum leiðara að:

- Icesave-samningurinn sé ósanngjarn og óeðlilegur og geti leitt til áratuga hnignunar á Íslandi (í ljósi sögunnar)

- Að ekki megi líta framhjá hlut Breskra og Hollenskra stjórnvalda í ábyrgðinni á Icesave klúðrinu

- Fyrir utan að þeir hvetja til að Íslendingum verði lagt lið við að rannsaka hugsanlega glæpi í aðdraganda hrunsins

Hilmar Ólafsson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:09

9 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Sæll Hilmar, takk fyrir að skrifast á við mig um þetta :) Mér finnst nú allt í lagi þótt þú og ég tjáum okkur aðeins berorðar heldur en ritstjórar erlendra stórblaða :)

Það sem býr undir þessari skoðun minni er það að mig langar ekki til að spila þann leik áfram sem Íslendingar hafa gert alla síðustu öld. Við höfum hegðað okkur eins og smábörn í alþjóðasamskiptum, ekki viljað deila auðæfum okkar með öðrum (sbr hlutfall til þróunaraðstoðar og aðstoðar við flóttafólk), reynum að mergsjúga alla styrki og aðstoð sem við getum hugsanlega átt möguleika á (sbr marshall aðstoðin, stríðsgróðinn og umræðu um ESB). Þegar við látum eins og smábörn þá verður komið fram við okkur eins og smábörn og öll smábörn lenda í því að heyra "hingað og ekki lengra" og ég held hreinlega að það sé komið að því hjá okkur.

Ég sé ekki betur en greinin í Financial times litist helst af hræðsu vil að Rússar fari að nýta sér stöðuna, enda væri það ekkert óeðlilegt miðað við þann harða bolta sem þessi lið eru að spila. Bara leiðinlegt að við skulum vera boltinn :( Kannski værum við ekki boltinn ef við færum að þroskast sem þjóð og taka ákvörðunum gerða okkar.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 11:24

10 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

*taka afleiðingum gerða okkar :)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 11:25

11 identicon

Spilling? Þar sem eru völd þar þrífst spilling. Þessi tvö hugtök, vald og spilling, verða aldrei slitin frá hvort öðru. Þannig er nú bara mannskepnan einu sinni. Spillt, sjálfselsk og hrokafull. Því spilltari, sjálfelskari og hrokafyllri sem hún er því meiri likur eru á því að hún rati á þing.

M (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:29

12 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég held það sé mikið til í þessu hjá þér frú M. En ég vona að við séum sem flest að reyna að breyta því :)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 11:34

13 identicon

Sóley! Ég er alsaklaus í sambandi við kosningu á Framsókn og Sjálfstæðisflokki í það heila tekið svo ég á engan þátt í Icesave málinu á neinn hátt og þykir þetta dálitið undarleg rök hjá þér svo vægt sé til orða tekið.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 11:42

14 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Það gleður mig að heyra að þú hafir ekki kosið þetta dót :) Og þér má alveg finnast rökin mín undarleg, það er enginn sem getur sagt öðrum hvað honum á að finnast :) En ef þú hefur ekki lesið komment nr 9 þá er þar smá forsaga á bakvið rökin mín sem kannski hjálpar þér til að skilja afstöðu mína.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 11:49

15 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Að sjálfsögðu á maður að standa skil á því sem manni ber en það er ekkert sem mælir með því að maður borgi meira en maður þarf, jafnvel þó maður hafi hugsanlega efni á því. Og það er enginn minni maður fyrir að leita hagstæðustu leiða til að greiða skuldir sínar.

Auðvitað tekur maður afleiðingum gerða sinna og að sjálfsögðu á maður að vera sanngjarn. En er þá ekki líka eðlilegt að maður geri kröfu til hins sama hjá hinum aðilanum?

Emil Örn Kristjánsson, 12.8.2009 kl. 12:31

16 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Jú Emil, það þykir mér nokkuð eðlilegt. Enda skilst mér að þessi samningur sé mun skárri en fjármálaráðherra okkar hafði samið um í fyrra. Og ég held líka að það sé auðveldara að gera kröfur á samningsaðilana þegar maður hefur sýnt sig að vera ábyrgur samningsaðili sjálfur en þá forsögu höfum við auðvitað ekki, því miður. Þess vegna tek ég líka fram að ég sé ánægð með Ögmund og co. fyrir að hafa farið fram á að setja inn fyrirvara á borð við þá að ef aðrar þjóðir lendi í svipuðum málum sem verði leyst með dómstólum þá áskiljum við okkur rétt til að fara sömu leið og einnig hvað varðar lagabreytingar á svipuðum málum.

Aðal málið hjá okkur Íslendingum núna og næstu áratugi er að þroskast sem þjóð, jafnt hvað varðar innanlands mál og lýðræði sem og í samskiptum okkar á alþjóðavettvangi, ef við höldum áfram á þeirri braut sem við höfum verið held ég að við verðum nú þurrkuð út innan ekki svo langs tíma, sama hvað við vælum og stöppum niður fótum :/

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 12:59

17 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Það held ég sé morgunljóst, Sóley, að bretar hafa beitt sér til þess að koma í veg fyrir að við hljótum fyrirgreiðslu annarsstaðar frá fyrr þeir hafa knúið sitt í gegn. Slíkt er ekki sanngjarnt.

Á síðustu vikum hafa einnig komið í ljós ýmis rök sem benda til þess að verið sé að láta okkur greiða meira en okkur ber.

Þá er það óumdeilt að í tíðræddum samningi eru ákvæði sem ekki eru ásættanleg.

Ætli alþingismenn sér að gæta hagsmuna þjóðarinnar er þeim ekki stætt á að samþykkja þetta samkomulag heldur leita leiða til þess að fá breta og hollendinga aftur að samningaborði.

Það er engin ástæða til þess að kikkna í hnjánum og biðja sér vægðar þó stórþjóðirnar byrsti sig. Hefðu landsfeður og okkar og mæður alltaf gert það værum við enn dönsk hjálenda með 3ja mílna landhelgi. Mörgum þótti við djörf og jafnvel óskammfeilin þegar efnahagslögsagan var færð út í 12, 50 og síðast 200 mílur. Við stóðum samt á okkar og erum menn (karlar og konur) að meiri á eftir.

Stundum þarf bara að taka slaginn og þess þarf einnig núna. Ég ítreka, sem ég sagði áðan, að maður á að standa skil á sínu, en það er engin ástæða til láta hafa meira af sér en manni ber að láta.

Emil Örn Kristjánsson, 12.8.2009 kl. 13:19

18 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég ætla að fá að vera ósammála þér Emil um að við séum menn að meiru eftir ýmsa hegðun okkar á alþjóðavettvangi sem ég hef áður talið upp hérna í kommentakerfinu. Það að við nýtum okkur smæð okkar þegar hentar okkur og látum svo eins og allir séu fávitar (sbr danir) þegar þeir segja að við séum of smá til að hitt og þetta (sbr vera fjármálamiðstöð alheimsins) er bara ekki eitthvað sem ég myndi hreykja mér af.

Ég myndi hreykja mér af því ef íslendingar hefðu gengið með góðu fordæmi þar sem möguleikar voru til þess, t.d. í nýtingu á orkuauðlindum, stjórnun sjálfbærra fiskveiða, mótttöku flóttafólks, en nei, forfeður mínir og aðrir landar voru nú ekki á þeim buxunum. Núna gef ég þessu landi fokking síðasta sjens, annað hvort þroskumst við og verðum gott lýðræðisríki, þótt við þurfum að hafa drullu mikið fyrir því, eða ég er farin! (og plís ekki segja farið hefur fé betra, ég er nú mannleg ;)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 13:45

19 identicon

Það sem Emil skrifar að ofan ("maður á að standa skil á sínu, en það er engin ástæða til láta hafa meira af sér en manni ber að láta") er eins og talað úr mínu hjarta. Innilega sammála, enda kjarninn í málflutningi margra sem eru andsnúnir Icesave-samningnum.

Það vekur hinsvegar athygli mína að í svari þínu til Emils svarar þú í engu efnislega málflutningi hans. Sjálfsagt af því að þú ert sátt við að vera bara lítið peð sem ver sig ekki þegar aðrir vaða yfir þig, svo vísað sé í fyrri skrif frá í morgun.

Auðvitað er þetta þinn réttur - sé litið til þín persónulega, en þú, Samfylkingin og sá hluti VG sem styðja þennan óskapnað hafið auðvitað engan rétt til að "vera sátt við" - fyrir okkar hönd - að restin af þjóðinni sé líka lítil peð sem leyfa öðrum að vaða yfir sig, ekki satt?

Hilmar Ólafsson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 13:56

20 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Mér finnst þú gera ansi lítið úr svörum mínum og skoðunum Hilmar. Ég er búin að stafa þetta nokkuð vel fyrir ykkur. Þetta er spurning um siðferðismat og ég má vel hafa mitt og mínar skoðanir án þess að vera að þröngva þeim upp á þig, rétt eins og þú mátt hafa þitt. Það er alveg hægt að ræða málin og skilja sjónarhorn hvers annars án þess að þurfa að þröngva öðrum hvorum aðilanum til að vera sammála hinum. Það á ekki síst við þegar um er að ræða smekksatriði á borð við siðferði.

Ég er búin að setja mína skoðun hreint fram, ég vil frekar vera fátæk en siðlaus. Ég vil byggja upp þetta land og þessa þjóð af heilindum og alvöru en ekki fara þær leiðir sem hingað til hafa verið farnar og skiluðu á endanum þeim árangri sem við sitjum uppi með í dag sem líklega er þó ekki slæmur miðað við annað sem getur gerst í framtíðinni ef jafn illa er haldið á spöðunum. Það eru gamaldags klækjastjórnmál sem duga okkur ekki lengur vegna þess einfaldlega að við erum ekki í sömu stratigísku stöðu og við vorum á síðustu öld og þeir sem ætla að loka augum og eyrum og þykjast ekki fatta það verða einfaldlega að fá að gera það.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 14:08

21 identicon

Þú dregur upp svo svart-hvíta mynd af ástandinu að það er með ólíkindum.

Annaðhvort erum við "siðblindir óreiðumenn", sem vilja ekki gangast við "sameiginlegum skuldum" og "sameiginlegri ábyrgð" heldur "svíkja" og pretta samhliða því að "loka augum og eyrum" og "þykjast ekki fatta" ástandið; við stundum "gamaldags klækjastjórnmál" o.s.frv. o.s.frv. ... (svart, greinilega, og á hraðri leið til heljar)

Eða þá að við erum lítil peð sem borgum þegjandi og hljóðalaust það sem okkur er sagt að borga, og verðum "fátæk" (sem hlýtur að vera understatement aldarinnar!) en sofnum væntanlega vært og rótt í litla hreysinu okkar af því að við erum með svo gott "siðferðismat" og stóru og voldugu Evrópuþjóðirnar hafa svo mikla velþóknun á okkur ... (hvítt, greinilega, og komin á beinu brautina til himins)

Heimurinn er ekki svart/hvítur.

Ég trúi því að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé á gráa svæðinu þarna á milli, líkt og við Emil. Ég ætla aftur að fá að gera hans orð að mínum: maður á að standa skil á sínu, en það er engin ástæða til láta hrotta og yfirgangsmenn kúga sig, ógna og hræða út í að láta hafa meira af sér en manni ber að láta.

Að auki finnst mér það að kasta steinum úr glerhúsi að kvarta yfir því að við andstæðingar Icesave (þú veist, þessir siðblindu og forhertu) séum að "þröngva" okkar skoðunum upp á ykkur hin (þessi fátæku með góðu samviskuna). Hvað er það sem þið eruð að gera með því að reyna að þröngva þessum samning í gegn? Eruð þið kanski að hafa vit fyrir öðrum sem minna vita, líkt og trúboðar sannfærðir um algera yfirburð eigin skoðana?

Þetta hefur ekkert með siðferði eða samvisku að gera. Rétt skal vera rétt. Borgum það sem okkur ber en látum ekki kúga okkur.

Göngum ekki bljúg og undirgefin í ánauð.

Hilmar Ólafsson (IP-tala skráð) 12.8.2009 kl. 14:26

22 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Glæsilegt! gott við erum sammála um þetta :) Borgum þetta helvíti með þeim fyrirvörum sem ég, þú, Emil og Ögmundur viljum setja :)

Já ég veit ég mála þetta dáldið svart/hvítt en eins og áður sagði þá er ég bara komin með svo mikið ógeð á öllum þeim málalengingum og orðhengilshætti sem hefur verið boðið upp á í umræðunni að ég nennti bara ekkert að vera með í því. En af því leiðir náttla að ég er aumingi og þú siðlaus, en við vitum auðvitað bæði að líklega erum við bæði ágætisfólk hvorki aumingjar né siðlaus :)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 12.8.2009 kl. 14:32

23 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ég ætla mér ekki að vera að munnhöggvast við þig, Sóley. Ég vil bara að það komi fram að ég er, eins og svo margir aðrir, skuldugur maður. Ég tel ekki eftir mér að greiða mínar skuldir en ég geri athugasemdir og fer fram á leiðréttingu ef ég er rukkaður um meira en ég tel mig skulda. Þá geri ég mér einnig far um að semja um beztu lánakjör á hverjum tíma.

Ég lít ekki á mig sem siðleysingja fyrir þessa sök.

Emil Örn Kristjánsson, 12.8.2009 kl. 17:09

24 Smámynd: AK-72

Ég verð nú að segja að ég sé ekki Breta, hollendinga né aðra sem hrotta eða yfirgangsmenn í þessu máli. Við sem þjóð spiluðum út úr brækurnar, rifum kjaft og höguðum okkur sem verstu hrokagikkir og Nígeríu-svindlarar extreme. Þetta var fullkomnað í IceSave þar sem við svikum út úr elliheimilum, góðgerðarsamtökum, spítölum og Scotland yard fé og varla hægt að álasa þessum aðilum fyrir að vera frekar reiðir. Stjórnvöld Hollenindga og Breta gerðu það sem íslensk stjórnvöld gerðu ekki fyrir hrun og síðar, þau fóru í það að hugsa um hagsmuni umbjóðenda sinna og hver láir þeim að hafa náð góðum samningi fyrir sína?

En þeir voru svo vondir við okkur, það er hægt að væla um endalaust líkt og að við eigum ekki að borga en þegar maður skrifar upp á lán fyrir drullusokka sem mútuðu heilum Sjálfstæðisflokk, og þeir stinga af með aurinn, þá er bankinn heldur ekkert að sýna þér miskunn. Stjórnvöld gerðust ábyrg fyrir þessu og það er það sem er horft á erlendis, sérstaklega þegar kemur að óreiðuþjóð sem þyrfit að fara í hressilega meðferð vegna hroka,fjársvika og afneitunar á því hvernig hún hefur hagað sér. Við erum engir sakleyingjar nefnilega og við verðum að taka afleiðingu þess að hafa dýrkað og dáð Davíð, litið framhja spillingunni og hamast á öllum sem bentu okkur á svikamyllur sem varinn var af frjálshyggjunni sem við kusum yfir okkur. Réttast væri að Sjáflstæðisflokkurinn myndi borga IceSave, þetta var jú þeirra banki en ætli þeir eigi ekki nóg með að endurgreiða allar múturnar.

En hvað eigum við að gera? Það er góð spurning, ekkert okkar vill þurfa að borga IceSave en komumst við undan því. Nei, ég held ekki á þessum tímapunkti, okkur eru allar bjargir bannaðar, landið er hrunið og það er enginn sem treystir okkur fyrir aur. Þetta er töpuð orusta þegar maður lítur yfir vígvöllinn sem frjálshyggjan stakk af frá með herfangið sem við áttum að nota frá bandamönnum okkarog nú erum við þannig stödd að við erum búin að tapa orustunni.

hvað gera gáfaðir hershöfðingjar þá með her í molum? Þeir leggja á undanhald til að bjarga sem mestu, kaupa sér tíma til að endurbyggja herinn og leita annara leiða til að ná markmiðum sínum. Þegar sú leið hefur verið fundin, herinn er  orðinn vígfær á ný, þá leggja menn til orustu á ný EN á vígvelli sem þeir velja og búnir að sanna það fyrir bandamönnum sínum að þeim sé treystandi.

AK-72, 12.8.2009 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sóley Björk Stefánsdóttir

Höfundur

Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband